ÁSDÍS Sif Gunnarsdóttir opnar á morgun kl. 17 fyrstu listasýninguna í Galleríi Humri eða frægð, glænýjum sýningarsal Smekkleysu SM í Kjörgarði við Laugaveg 59.

ÁSDÍS Sif Gunnarsdóttir opnar á morgun kl. 17 fyrstu listasýninguna í Galleríi Humri eða frægð, glænýjum sýningarsal Smekkleysu SM í Kjörgarði við Laugaveg 59. Þar má sjá myndbandsverk sem Ásdís hefur unnið að síðastliðin ár ásamt nýrri myndbandsinnsetningu fyrir sýningarrýmið.

Í myndbandsinnsetningum sínum vinnur Ásdís með skynvíkkun, ljóðrænu, drasl og gersemar en verk hennar sameina kvenlega, ljóðræna hryggð og norrænan gálgahúmor. Ásdís er að eigin sögn m.a. undir áhrifum frá impressjónistum og Quentin Tarantino. "Vídeóin sem ég geri eru undir áhrifum mynda eins og Kill Bill þar sem ferðast er í gegnum mismunandi stíla og mikið frelsi ríkir í klippingu og slíku og svo impressjónistamálverkanna, sem búa yfir mikilli ró og litagleði. Myndböndin eru þannig hægð niður, ég hugsaði þau svolítið eins og málverk sem væru á hreyfingu," segir Ásdís. "Það er í raun ekkert eitt viðfangsefni í myndböndunum, heldur meira nokkurs konar stemmningar eða sjónræn ljóð." Myndböndin eru öll til sölu, en þeim fylgja litlir skúlptúrar.

Á opnuninni flytur Ásdís m.a. gjörning sem heitir Völvan 2005, með aðstoð Ragnars Kjartanssonar.

Sýningin stendur til 18. febrúar. Opið er á tímum Smekkleysu Plötubúðar; virka daga frá 12-18 föstudaga 12-19 og laugardaga frá 12-17.