PRENTSMIÐJAN Oddi hefur stöðvað dreifingu nokkur þúsund dagbóka og fargað þeim eftir að viðskiptavinur benti á að í dagbókinni þetta árið væri að finna málshætti sem þættu niðrandi fyrir konur.

PRENTSMIÐJAN Oddi hefur stöðvað dreifingu nokkur þúsund dagbóka og fargað þeim eftir að viðskiptavinur benti á að í dagbókinni þetta árið væri að finna málshætti sem þættu niðrandi fyrir konur. Bækurnar voru innkallaðar úr verslunum um land allt í byrjun janúar og þær teknar úr sölu.

Er fjárhagslegt tjón fyrirtækisins nokkrar milljónir vegna þessa að sögn Jósafats Björnssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Odda.

Viðhorf sem ekki samræmast nútímanum

Aldrei er kvennastjórn affaragóð, sá flytur gott hlass í garð sem góða konu fær, kona er karlmanns fylgja og þrætugjörn kona er sem sífelldur leki, eru dæmi um málshætti sem finna mátti í bókinni.

"Í þessum fornu málsháttum birtast viðhorf sem samræmast alls ekki nútímanum og ganga þvert á yfirlýsta fjölskyldu- og jafnréttisstefnu Odda," segir í tilkynningu sem birt var á heimasíðu fyrirtækisins 11. janúar sl. "Einhverjir notendur dagbókarinnar kunna að telja að í málsháttunum felist tiltekinn boðskapur af hálfu útgefandans. Því fer fjarri og ákvörðun okkar um að stöðva dreifingu bókarinnar staðfestir það. Við biðjumst velvirðingar á yfirsjóninni og munum sjá til þess að forneskjuleg viðhorf setji ekki mark sitt á dagbækur okkar fyrir árið 2006," segir ennfremur í tilkynningunni.

"Þetta voru auðvitað ekki málshættir sem við vorum að búa til heldur gamlir málshættir sem eru góðir og gildir sem sagnfræðiheimild og eiga heima í málsháttabókum," sagði Jósafat í samtali við Morgunblaðið. "Okkar mistök liggja í því að láta þessa málshætti rata inn á síður dagbókar fyrir árið 2005."

Margir vildu eignast bókina sem minjagrip

Jósafat segir að eftir að það spurðist út að dagbókin hefði verið innkölluð vegna málsháttanna hafi síminn vart stoppað og tölvubréfum rignt inn. Margir hafi áhuga á bókinni í sagnfræðilegu tilliti, ekki síst konur. Ýmist finnist fólki að brugðist hafi verið of harkalega við og óþarfi hafi verið að innkalla bókina, en aðrir þakka fyrirtækinu fyrir skjót viðbrögð. "Þetta fólk er þakklátt fyrir að þessum málsháttum hafi verið hent á haugana, í bókstaflegri merkingu. Það má því kannski segja að á endanum leiði þetta til einhvers góðs," segir Jósafat.

Hann segir að búið sé að breyta vinnuferlinu við bókina svo að mistök sem þessi eigi ekki að geta endurtekið sig. "Við látum okkur þetta að kenningu verða," segir Jósafat.