Blár og bólginn Árni Þór er bæði nefbrotinn og með myndarlegt glóðarauga eftir æfingaleikinn við KA.
Blár og bólginn Árni Þór er bæði nefbrotinn og með myndarlegt glóðarauga eftir æfingaleikinn við KA. — Morgunblaðið/Kristján
ÁRNI Þór Sigtryggsson stórskytta Þórs í handbolta nefbrotnaði illa í æfingaleik gegn KA á mánudagskvöld og er ljóst að hann verður frá keppni næstu 6 vikur í það minnsta.

ÁRNI Þór Sigtryggsson stórskytta Þórs í handbolta nefbrotnaði illa í æfingaleik gegn KA á mánudagskvöld og er ljóst að hann verður frá keppni næstu 6 vikur í það minnsta. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Þór og ekki síður fyrir Árna sjálfan en til stóð að hann færi á morgun föstudag til reynslu í vikutíma hjá þýska handknattleiksliðinu Göppingen. Einnig hafa borist fyrirspurnir frá mörgum öðrum erlendum liðum í vetur. Árni hefur verið lykilmaður í liði Þórs á yfirstandandi keppnistímabili og er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar, með 91 mark í 12 leikjum.

Árni sagðist hafa fengið þungt högg í andlitið frá leikmanni KA með fyrrgreindum afleiðingum, "hvort sem það var viljandi eða óvart en ég ætla að láta leikmanninn njóta

vafans á því hvort þetta var viljandi eða óvart. Nefið brotnaði illa og flattist út á hlið. Ég fór strax upp á slysadeild til skoðunar en var svo sendur heim og fór í aðgerð daginn eftir. Aðgerðin heppnaðist vel og vonandi fæ ég mitt rétta andlit," sagði Árni sem er bólginn í andliti og með myndarlegt glóðarauga. "Eftir þetta brot leystist leikurinn upp í tóma vitleysu og var hætt í kjölfarið."

Árni sagði ekki lengur leyfilegt að nota andlitsgrímu í handboltaleik og hann er alls ekki sáttur við þá breytingu. "Ef ég ekki fæ undanþágu frá þeirri reglu, verð ég frá í 6 vikur og missi af 3-4 leikjum Þórs í úrvalsdeildinni. Við megum heldur ekki fá nýja menn til liðs við okkur, þannig að útlitið er alls ekki gott. Við spilum 8 leiki í úrvalsdeildinni og þurfum að vera í einu af sex efstu sætunum til að vera öruggir í úrslitakeppnina."

Þetta er í fyrsta skipti sem Árni slasast á sínum handboltaferli og hann sagði að þetta hefði alls ekki verið skemmtilegasta tímasetningin, miðað við það sem var framundan. "Forsvarsmenn Göppingen höfðu samband við mig í vikunni og buðu mér að koma út síðar í vetur og er líklegast að ég heimsæki liðið um páskana."