BÆJARSTJÓRN Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vikunni að boða til íbúaþings þar sem kynna á fyrir bæjarbúum niðurstöður vinnuhóps umhverfisráðs um framtíðarlegu tengibrauta í og við Lundarhverfi.

BÆJARSTJÓRN Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vikunni að boða til íbúaþings þar sem kynna á fyrir bæjarbúum niðurstöður vinnuhóps umhverfisráðs um framtíðarlegu tengibrauta í og við Lundarhverfi. Í tillögu Jakobs Björnssonar formanns bæjarráðs, er lagt til að óháður aðili verði fenginn til samstarfs um almenna kynningu en markmið þeirrar vinnu er samráð við íbúa og hagsmunaaðila í þeim tilgangi að ná fram sem mestri sátt um lausn málsins þegar til endanlegrar ákvarðanatöku bæjarstjórnar kemur.

Vinnuhópur umhverfisráðs hafði lagt til að vegna uppbyggingar í Naustahverfi sé nauðsynlegt að Dalsbraut verði lögð sem fyrst. Jafnframt þurfi að gera ráð fyrir Miðhúsabraut sem framtíðarmöguleika, miðað við væntanlega þróun byggðar samkvæmt núgildandi aðalskipulagi. Umhverfisráð hafði lýst sig sammála niðurstöðum vinnuhópsins en með samþykkt bæjarstjórnar er tillögu umhverfisráðs frestað.

Jakob sagði að hugmyndin væri að kynna málið fyrir íbúum á svipaðan hátt og gert var á íbúaþingi verkefnisins Akureyri í öndvegi sl. haust. Hann sagði ná þyrfti sem víðtækastri sátt við umhverfið og fá menn til að skoða málin í eðlilegu samhengi. "Oft þegar skipulagsmál eru til umfjöllunar eru þau rædd út frá mjög þröngum sjónarmiðum. Þarna stendur bæjarstjórn m.a. frammi fyrir því að leysa tengingu 6.000 manna byggðar við athafna- og þjónustusvæði, þegar Naustahverfi verður fullbyggt."

Jakob sagði að KA-menn myndu t.d. vilja vita hvernig þeim yrði bætt skerðing á þeirra æfingasvæði, ef af lagningu Dalsbrautar verður. Einnig hafa íbúar á þessu svæði mótmælt áformum um lagningu Dalsbrautar. "Það er stefnt að því að leggja niðurstöður fyrir bæjarstjórn við endanlega ákvarðanatöku eftir þrjá og hálfan mánuð. Vonandi verður þessi vinna til þess að menn nái bærilegri sátt við íbúa og hagsmunaaðila um það sem endanlega verður ákveðið."