Sælan er mikil þegar Heiða bragðar á sviðakjamma í Melabúðinni: Síldin í seilingarfjarlægð að baki.
Sælan er mikil þegar Heiða bragðar á sviðakjamma í Melabúðinni: Síldin í seilingarfjarlægð að baki. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveitastúlkan Heiðrún Kristinsdóttir Meldal eða Heiða eins og hún er oftast kölluð, er engin tepra. Henni þykir fátt betra en þorramatur og súrmetið er í uppáhaldi. Eftir að hún flutti til borgarinnar hefur hún fundið út hvar besta þorramatinn er að fá.

Sveitastúlkan Heiðrún Kristinsdóttir Meldal eða Heiða eins og hún er oftast kölluð, er engin tepra. Henni þykir fátt betra en þorramatur og súrmetið er í uppáhaldi. Eftir að hún flutti til borgarinnar hefur hún fundið út hvar besta þorramatinn er að fá. "Hákarlinn og harðfiskinn kaupi ég alltaf í Svalbarða, því þeir eru með svo vel verkaðan fisk. Súrmetið kaupi ég aftur á móti í Melabúðinni, því þar er það oftast nægilega súrt fyrir minn smekk."

Rækilega súrt er eina vitið

Þegar komið er að kjötborðinu segist Heiða fá vatn í munninn við það eitt að berja þorramatinn augum. Hún krefst þess að fá að smakka hvert einasta fyrirbæri sem hún ætlar að kaupa. "Ég kaupi aldrei ósmakkaðan súrmat því ég hef engan áhuga á að borða það sem er ekki almennilega súrt, þá er það bara ónýt ánægja." Hrútspungarnir, hvalurinn, lifrarpylsan, bringukollarnir og lundabaggarnir voru nægilega súrir fyrir hana en blóðmörinn fannst henni ekki rífa nógu kröftuglega í. Heiða lét sig hafa það að kaupa nýja sviðasultu en ekki súra, af tillitssemi við vinkonu sína sem hún ætlaði að bjóða til sín í þorramat, en sú hin sama hefur ekki eins mikla reynslu og Heiða í að snæða súrmeti.

Brennivínið borið fram í sokk

"Vegna þess hvað maður drekkur mikið vín á þorrablótum er svo gott að borða allan þennan feita mat, því fitan fóðrar magann svo vel að innan. Með hákarlinum verð ég að hafa íslenskt brennivín og alveg ískalt, beint úr frysti og borið fram í sokk, það er mjög mikilvægt."

Flatbrauð má ekki vanta í trogið en Heiða segir það ævinlega hafa verið heimagert í hennar æsku. "Þá komu þær allar saman kellurnar og gerðu sitt flatbrauð sjálfar, sem mér finnst auðvitað betra en allt annað flatbrauð. En nú hafa þær lagt þennan sið af og ég sé það í hendi mér að ég þarf að nálgast uppskriftina og fara að tileinka mér þessa flatbrauðsgerð, svo ég geti haldið alvöru þorrablót." Rúgbrauð verður hún líka að kaupa og velur þéttan hlunk, en ekki kerlingabrauð í sneiðum. "Rúgbrauðið er ómissandi með síldinni, en síldin finnst mér best án aukabragða, ég hef einfaldan smekk og vel þessa klassísku marineruðu. En ég verð líka að kaupa karrýsíld fyrir hana vinkonu mína, ég veit að henni þykir hún svo góð og líka rauðrófusalat." Rófustappan er ómissandi og síðan rekur Heiða augun í laufabrauð að norðan með kúmeni og afræður að bæta því í trogið hjá sér.

Lifrarpylsa er rómantísk

"Heima á Molastöðum í Fljótum í Skagafirði var þorrablótið alltaf mikil hátíð og þegar fullorðna fólkið fór með sín trog á dansiballið fengum við krakkarnir okkar þorramat í sértrog og svo gæddum við okkur á þessu fram eftir öllu. Ég á mjög góðar bernskuminningar tengdar þorra og þorramat og eiginlega er þorramatur minn jólamatur, því ég er minna fyrir hangikjöt og reyktan jólamat."

Heiða segist þó enn vera að bæta við sig tegundum í þorramatnum og hún segist nýlega vera farin að borða augun úr sviðunum og bringukollana hefur hún líka nýlega lært að borða. Hráverkaður ærvöðvi sem heitir Græningi, heillar Heiðu og hún laumar honum í körfuna.

Að lokum segist Heiða alltaf eiga ósúra lifrarpylsu í ísskápnum heima og borða hana daglega. "Ég býð hana líka í morgunmat ef ég er með næturgesti, því mér finnst lifrarpylsa eitthvað svo rómantísk."

khk@mbl.is