Jóhann Guðni Reynisson
Jóhann Guðni Reynisson
Jóhann Guðni Reynisson fjallar um gagnaflutninga: "Dreifbýlið ber afar skarðan hlut frá borði samanborið við þéttbýlið hvað varðar aðgengi að háhraðaflutningskerfum."

NÚ ER komin fram hugmynd sem Kristján Möller og Davíð Oddsson virðast hafa brætt með sér að frumkvæði Kristjáns en með reynslu Davíðs. Þetta er hugmyndin um eitt heildstætt hátæknisjúkrahús í Reykjavík. Margir hafa orðið til þess að henda þessa góðu hugmynd á lofti og hampa henni eins og vera ber. Mig langar þó að biðja Kristján Möller, Davíð Oddsson og gjörvallan þingheim og ríkisstjórn að hafa eftirfarandi í huga:

Víða um landið eru sjúkrastofnanir sem vel gætu notað meira fjármagn til þess að veita íbúum landsbyggðarinnar enn betri og tryggari þjónustu auk þess aukna öryggis sem í því fælist. Ekki má gleyma að skjóta styrkari stoðum undir það sem fyrir er, ekki síst í innra starfi heilbrigðisstofnana, áður en enn meiri steypa verður færð á milli staða í höfuðborginni. Svo dæmi sé tekið er enn beðið eftir því að unnt verði að hefja hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Og annað vil ég gjarnan að stjórnvöld muni, þegar rætt er um hvað eigi að gera við peningana sem "frúin í Hamborg" gefur fyrir Símann, og hér skal vitnað í inngangsorð Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, að stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007 þar sem segir m.a.: "Á nokkrum sviðum hefur þróunin þó orðið hægari en væntingar stóðu til. Víða um landið er enn takmarkaður aðgangur að háhraðatengingum við fjarskiptakerfið og í sumum tilvikum enginn. Úr þessu þarf að bæta með markvissum aðgerðum."

Síðar í þessu merka riti segir í almennum texta: "Aðgengi að háhraðatengingum og greiðri og öruggri fjarskiptaþjónustu er lykilatriði fyrir þróun upplýsingasamfélags og byggðar í landinu. Það er langtímamarkmið að allir landsmenn, sem þess óska, eigi möguleika á háhraðatengingu til að geta sem best nýtt sér kosti upplýsingasamfélagsins, rafrænnar þjónustu og annarrar þjónustu sem slíkur aðgangur veitir."

Þetta er gott markmið en það verður að vera komið í framkvæmd innan skamms tíma, ekki langs, og helst "í gær". Mörg dreifbýlissamfélög hafa orðið að þola íbúafækkun, ekki síst vegna þess að íbúarnir láta ekki bjóða sér mismunun í grundvallarlífsgæðum eins og aðgengi að góðum gagnaflutningskerfum - ekki frekar en í heilbrigðisþjónustu eða menntakerfinu. Þetta þarf allt saman og meira til að vera í góðu lagi á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru nokkrar af helstu undirstöðum fjölþætts atvinnulífs sem aftur er ein af meginforsendum fyrir byggð í landinu öllu.

En þetta með gagnaflutningana er einmitt lykilatriði og því ber að fagna framangreindum orðum Davíðs Oddssonar. Og ég man ekki betur en í umræðu um sölu Símans hafi verið alvarlega rætt um að nota fjármagn sem þar félli til, einmitt til þess að byggja upp fjarskiptakerfi sem gerði stefnu ríkisstjórnarinnar um aðgang að háhraðatengingum fyrir íbúa landsbyggðarinnar gerlega. Hér má að auki bæta við áhyggjum undirritaðs af sölu Símans og þeirri þróun sem orðið hefur á fjarskiptamarkaði vegna samkeppnishamlandi rekstrarumhverfis Símans, en það verður ekki rakið frekar hér.

Varðandi gagnaflutninga er hverjum manni ljóst að dreifbýlið ber afar skarðan hlut frá borði samanborið við þéttbýlið hvað varðar aðgengi að háhraðaflutningskerfum fyrir gagnaflutninga og aðgang að Netinu. Og það þrátt fyrir að ljósleiðarar og önnur kerfi liggi fyrir fótum okkar en við megum ekki nota þau! Allir, sem áhuga hafa fyrir að nýta sér Netið og möguleika þess við leik, nám og störf í dreifbýli, nefna einmitt þessa mismunandi stöðu dreifbýlis og þéttbýlis þegar rætt er um framtíðina og núverandi stöðu. Og þess má einnig geta að ef isdn-tenging telst úrelt fyrir íbúa í þéttbýli þá er hún einnig úrelt fyrir íbúa í dreifbýli.

Þingeyjarsveit, Aðaldælahreppur og Húsavíkurbær starfa nú saman í verkefni sem iðnaðarráðuneytið setti á laggirnar undir merkjum Rafræns samfélags. Verkefnið ber heitið Virkjum alla. Þar er von á mörgum skemmtilegum nýjungum í framboði á rafrænni þjónustu á næstu misserum og við erum afar þakklát Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra og Byggðastofnun fyrir þetta góða framtak. En það kemur engum á óvart að íbúarnir nefna undantekningalítið hversu lítill tilgangur er með því að reyna að virkja alla þegar fæstir hafa aðgang að almennilegri tengingu.

Um leið og ég óska íslensku heilbrigðiskerfi allra heilla vonast ég til þess að orð Davíðs Oddssonar og ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu gagnaflutningskerfa á landinu öllu standi, verkefninu verði hrundið í framkvæmd og hafist handa strax á þessu ári.

Jóhann Guðni Reynisson fjallar um gagnaflutninga

Höfundur er sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, formaður Héraðsnefndar Þingeyinga og stýrihóps Virkjum alla - rafrænt samfélag.