Hrefna Guðmundsdóttir
Hrefna Guðmundsdóttir
Hrefna Guðmundsdóttir fjallar um náttúruvernd: "Það er ljóst að náttúruverndarnefndir gegna viðamiklu hlutverki í náttúruverndarmálum."

Náttúruverndarnefndir hafa lögbundnum hlutverkum að gegna samkvæmt náttúruverndarlögum. Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar starfar 3-7 manna náttúruverndarnefnd sem er kosin af sveitarstjórn eða héraðsnefnd til fjögurra ára.

Hlutverk náttúruverndarnefnda er að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um náttúruverndarmál, að stuðla að náttúruvernd, hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir sem líkleg er til að hafa áhrif á náttúruna og að gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Stofnun náttúruverndarnefnda byggir á nálægðarsjónarmiði, það er að taka eigi ákvarðanir eins nálægt vandanum og hægt er þar sem þeir sem búa á svæðinu vita best hvar úr má bæta og hvar mestar líkur eru á að ná fram jákvæðum breytingum.

Að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um náttúruverndarmál

Náttúruverndarnefndunum er ætlað almennt ráðgjafarhlutverk um náttúruverndarmál. Ákvæðið er mjög opið en gert er ráð fyrir að sveitarstjórn geti bæði leitað til náttúruverndarnefnda en einnig að náttúruverndarnefndir geti komið fram með beinar tillögur eða ábendingar t.d. um stofnun eða um stuðning við útivistarsvæði.

Kynna almenningi réttindi sín og skyldur

Náttúruverndarnefndir eiga að stuðla að fræðslu um efni náttúruverndarlaganna með sérstaka áherslu á réttindi og skyldur almennings. Dæmi um efni sem ávallt er mikilvægt að kynna er almannarétturinn og þá bæði fyrir þeim sem eiga réttinn til óheftrar farar um landið en einnig til þeirra sem eiga landið. Hér er rétt að hafa í huga mismunandi reglur sem gilda þegar um er að ræða ræktað og óræktað land og að almannarétti fylgir einnig skyldan um að ganga vel um landið.

Gera tillögur til úrbóta til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar

Náttúruverndarnefndir hafa einnig rétt á að koma með beinar tillögur til úrbóta til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Byggist þessi tillöguréttur á að náttúruverndarnefndunum ber að hafa virkt eftirlit með ástandi lands og vita því hvar ástæða er til að taka til hendinni t.d. varðandi fegrun nánasta umhverfis. Náttúruverndarnefndirnar hafa hér mikið svigrúm til að láta til sín taka en verða þó að hafa í huga að fara ekki inn á valdsvið annarra nefnda á vegum sveitarstjórnar.

Skylda til að veita umsagnir

Náttúruverndarnefndum ber að gefa umsagnir vegna tillagna að svæðis- og aðalskipulagi og vegna úrskurða um mat á umhverfisáhrifum. Þeim ber einnig að veita umsögn áður en framkvæmda- og byggingarleyfi er veitt til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa. Að lokum ber náttúruverndarnefndum að veita umsögn um framkvæmdarleyfi vegna efnistöku á landi, af eða úr hafsbotni innan netlaga. Mjög mikilvægt er að náttúruverndarnefndir sinni þessu hlutverki sínu og komi fram ábendingum á sínu sviði. Þessi skylda sem hvílir á náttúruverndarnefndum setur einnig nokkrar skorður á heimildir sveitarstjórna til að sameina nefndir þar sem sömu nefndinni getur ekki bæði verið falið að veita leyfi til framkvæmda og gefa umsögn um það með hagsmuni náttúrunnar í huga í samræmi við náttúruverndarlög.

Samráð við Umhverfisstofnun

Gert er ráð fyrir að náttúruverndarnefndirnar séu tengiliðir Umhverfisstofnunar við sveitarfélögin og íbúa þess hvað varðar náttúruvernd.

Stuðningur við útivist í sveitarfélaginu

Náttúruverndarnefndum ber að styðja við útivist með því að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum, öðrum stígum o.s.frv.

Það er ljóst að Náttúruverndarnefndir gegna viðamiklu hlutverki í náttúruverndarmálum. Til þess að aðstoða þær við að sinna við því mikilvæga starfi hefur Umhverfisstofnun nú opnað upplýsingaveitu á heimasíðu sinni www.ust.is/Natturuvernd/natturuverndarnefndir sem tileinkuð er náttúruverndarnefndum. Þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi almannarétt, umsagnir, verklag, kynningarefni og fleira.

Hrefna Guðmundsdóttir fjallar um náttúruvernd

Höfundur er fræðslu- og upplýsingastjóri hjá Umhverfisstofnun.