Guðmundur Þ. Ragnarsson
Guðmundur Þ. Ragnarsson
Guðmundur Þ. Ragnarsson fjallar um kjarasamning sjómanna: "Því miður vantar allar röksemdir fyrir þeim breytingum til launalækkana sem þessi samningur boðar."

Segja má að það hafi verið mikið lán hjá íslensku launafólki að hin nýja samningatækni þeirra félaga, Árna Bjarnasonar og Sævars Gunnarssonar, hafi ekki verið notuð fyrr við gerð kjarasamninga. Að semja um sambærileg réttindi og aðrir launþegar hafa verið að fá inn í sína kjarasamninga í þessu landi er vissulega gott, en að láta viðkomandi launþega borga það sjálfa af þegar umsömdum tekjum telst nú tæpast til afreka á þessu sviði. Samningurinn hlýtur að hafa orðið til vegna óttans um að þeir fengju á sig enn einu sinni þann stimpil að við þá væri ekki hægt að semja. Ekki var að skella á verkfall, þeir voru ekki einu sinni búnir að óska eftir verkfallsheimild. Hvað þá hóta því.

Við vélstjórar hljótum að hafa misskilið þá miklu gagnrýni sem kom frá hinum sjómannafélögunum um hversu lélegur síðasti samningur okkar við LÍÚ var, það sem þeir voru að meina og við skildum ekki var að hann var of góður fyrir þá. Það er alltaf gott þegar misskilningur er leiðréttur.

Það er skrítið að eftir að við vélstjórar gerðum tímamótasamning við LÍÚ, þar sem loksins náðist þokkaleg sátt um verðmyndun á bolfiski og viðurkennt var, að með aukinni tæknivæðingu og afkastagetu skyldi útgerðin njóta réttilega aukins hlutar af aflaverðmætinu vegna fjárfestingarinnar, þá fara þeir félagar í krossferð, nú skal flotinn endurnýjaður og þar sem útgerðin er skuldum vafin skal það vera hlutverk umbjóðenda þeirra að gefa eftir óafturkræfan hluta launa sinna til þess að fjármagna ný skip.

Útgerðarmenn munu örugglega skíra eitthvert sinna nýju skipa í höfuðið á þeim félögum til að sýna þakklæti sitt í verki.

Þessi mikla lækkun á hlut ef keypt er nýtt skip er það sem ég á erfiðast með að skilja, vegna þess að þetta eru bara einhverjar tölur og ekki stuðst við neinar rekstrarlegar forsendur, sem virðast ekki til, að minnsta kosti fáum við ekki að sjá þær hjá LÍÚ.

Þegar fullyrt er að launakostnaður sé að sliga viðkomandi útgerðarflokk og krafa gerð um að launakostnaður lækki hlýtur það að vera lágmarkskrafa að lagðir séu fram rekstrarútreikningar til að rökstyðja það, en ekki notaðar einhverjar huglægar tölur út í loftið.

Því miðað við afkomutölur þessara fyrirtækja eru þau ekkert verr sett en annar atvinnurekstur í landinu til að taka á sig hækkun á framlagi í lífeyrissjóð og 2% mótframlag

í séreignarsjóð.

Sú þróun að menn fari að sækjast eftir því að fara á gömlul skip með lélegum aðbúnaði til að fá hærri laun er þróun sem maður hafði ekki látið sér til hugar koma. Ef búið væri að laga aðbúnað áhafnar á viðkomandi skipi er það ekki lengur góður kostur því þá er líka hægt að lækka launin. Hver trúir þessu?

Svo farið sé aðeins inn á pólitísku hliðina á þessu máli þá er framkvæmd kvótakerfisins enn að bitna á sjómönnum. Ef skoðuð er staðan eins og hún er í dag eru eignir útgerðarinnar um 300 milljarðar en skuldir um 200 milljarðar, þessi 100 milljarða eignastaða er eftir því sem mér er sagt að mestu kvótaeign svo ekki er staðan glæsileg. Kvótinn er eftir því sem ég best veit sameign þjóðarinnar þótt sumir geti fært sér hann til eignar í bókhaldi.

Hvernig hafa svo þessi mál verið að þróast t.d. frá árinu 1995? Þá voru skuldir fyrirtækja í sjávarútvegi 93 milljarðar en árið 2004 um 200 milljarðar. Í hvað þessi rúmlega 100 milljarða skuldaaukning hefur farið á síðustu tíu árum geta menn sjálfsagt rifist um endalaust, en eitt held ég að sé ljóst; að lítill hluti þeirra fór í að endurnýja flotann.

Þetta er að gerast á meðan okkur er talin trú um það, að við séum með besta kvótakerfi og best rekna sjávarútveg í heimi, einnig hefur góðæri ríkt í hafinu.

Er það ekki eitthvað annað sem farið hefur úrskeiðis í þessum rekstri og kerfinu kringum hann en það að launakostnaðurinn sé að sliga hann? Sjómenn eru í raun og veru ekki á svo háum launum miðað við unnar vinnustundir.

Það er með öllu óviðunandi að sjómenn eigi að fara að borga reikninginn fyrir mistök annarra. Þeir eiga að borga það sjálfir stjórnmálamennirnir sem mesta ábyrgðina bera á því hvernig staðan er í dag, með því að leiðrétta misgjörðir sínar.

En þeir félagar telja það nú ekki eftir sér að lækka laun umbjóðenda sinna um 12% svo hægt sé að fara að endurnýja atvinnutækin. Ekki fengu þeirra umbjóðendur hluta af öllum þeim milljörðum, sem búið er að skuldsetja sjávarútveginn fyrir, þegar menn voru að selja sig út úr greininni. Selja eign sem þjóðin á!

Ég set inn hér eina samlíkingu svo hægt sé tengja þetta við raunveruleikann: Þá hefði t.d. starfsfólk Orkuveitunnar lækkað í launum um 12% við það að flytja í nýju aðalstöðvarnar og væri með skert laun næstu sjö árin, á meðan væri verið að borga niður fjárfestinguna, ef þeir félagar hefðu samið fyrir starfsfólk Orkuveitunnar.

Við vélstjórar höfum alltaf verið tilbúnir að laga okkur að eðlilegum breytingum í sjávarútvegi svo hann sé samkeppnishæfur á erlendum mörkuðum. Allar breytingar, ekki síst þær sem leiða af sér launalækkun, verða að vera vel rökstuddar til þess að hægt sé að verða við þeim. Því miður vantar allar röksemdir fyrir þeim breytingum til launalækkana sem þessi samningur boðar.

Guðmundur Þ. Ragnarsson fjallar um kjarasamning sjómanna

Höfundur er varaformaður VSFÍ.