Aðalbjörn Þorsteinsson gerir athugasemdir við skrif Helgu Dísar Sigurðardóttur um verkjameðferð í fæðingu: "Skrif Helgu Dísar eru því miður þess eðlis að þau geta hrætt konur sem virkilega þurfa verkjastillingu í fæðingu frá því að fá hana."

Í 5. TÖLUBLAÐI tímaritsins Uppeldis á sl. ári skrifar Helga Dís Sigurðardóttir grein sem hún nefnir Mænurótardeyfing. Þessi grein olli talsverðri umræðu. Meðal annars var viðtal við Hildi Harðardóttur, yfirlækni á fæðingardeild Landspítalans, í Ríkissjónvarpinu þar sem hún leiðréttir margar af þeim rangfærslum sem voru í fyrrnefndri grein. Af einhverjum ástæðum sér Helga Dís ástæðu til að halda áfram með skrif sín í Morgunblaðinu hinn 18. janúar og enn eru rangfærslur. Þetta er bagalegt og verður ekki komist hjá því að svara þótt eðlilegast hefði verið að leiðrétta vitleysuna áður en hún var birt. Ég vil byrja á því að benda Helgu Dís á að mænurótardeyfing er ekki rétt nafn á þeirri deyfingu sem notuð er til verkjastillingar hjá fæðandi konum. Mænurætur liggja að hluta til í mænuvökvanum og að hluta til utan við poka þann sem umlykur mænuvökvann. Svokölluð mænudeyfing, þar sem deyfingunni er sprautað í mænuvökvann, er líka mænurótardeyfing og er ekki notuð hérlendis til verkjastillingar í fæðingu. Deyfing sú sem er notuð sem verkjastilling er almennt kölluð utanbastsdeyfing og er deyfingunni sprautað að taugarótunum þar sem þær liggja utan við áðurnefndan mænupoka. Efnin sem eru notuð til deyfingar eru mjög mismunandi og hafa breyst í gegnum árin. Það sem er notað annars staðar getur því verið mjög frábrugðið því sem er notað hér. Það getur því verið alrangt og villandi að vitna til rannsókna og ráðlegginga sem gefnar eru annars staðar og heimfæra upp á það sem er verið að gera hér á fæðingardeild Landspítalans. Á þeim áratugum sem liðið hafa síðan byrjað var að nota utanbastsdeyfingar við hríðarverkjum hafa orðið miklar breytingar á framkvæmd deyfingarinnar. Að vitna í rannsóknir án þess að kanna hvort þær eru gerðar með þeim lyfjum og aðferðum sem hér tíðkast getur því gefið og gefur kolranga mynd. Það er því leiðinlegt að Helga Dís skuli ekki hafa haft beint samband við Hildi Harðardóttur, yfirlækni fæðingardeildar, eða við lækna svæfingadeildar Landspítalans sem leggja utanbastsdeyfingar hjá fæðandi konum áður en hún skrifaði aftur um þessa deyfingu. Skrif Helgu Dísar eru því miður þess eðlis að þau geta hrætt konur sem virkilega þurfa verkjastillingu í fæðingu frá því að fá hana. Í grein sinni í Morgunblaðinu segir Helga og vitnar í norskar heimildir: mænurótardeyfing sé árangursríkasta deyfingin sem boðið er upp á í fæðingu, en um leið sú sem hefur flestar aukaverkanir í för með sér. Þetta síðasta er ekki satt. Það eru til aðrar deyfingar og aðferðir sem virka jafn verkjastillandi og eru hættulegri. Öryggi er hugtak sem er hægt að teygja á ýmsa vegu, fátt er 100% öruggt. Ég tek undir með Hildi Harðardóttur að utanbastsdeyfing er öruggasta og áhrifaríkasta aðferðin gegn hríðarverkjum sem boðið er upp á í dag. Eins og hún er framkvæmd á Landspítalanum eykur hún sennilega ekki á tíðni keisaraskurða eða sogklukku/tangarfæðinga og eykur ekki líkur á því að höfuð barns snúist ekki eðlilega í fæðingu. Viss væg óþægindi geta fylgt deyfingunni en alvarlegar aukaverkanir eru sem betur fer mjög sjaldgæfar. Undirritaður er ávallt reiðubúinn að gefa upplýsingar um þessa deyfingu, bæði Helgu Dís og sérstaklega þeim konum sem eru þungaðar og hafa fyllst áhyggjum vegna þeirra skrifa og umræðu sem þeim hafa fylgt. Þunguðum konum sem vilja vita meira um verkjameðferð svipaða þeirri sem notuð er á fæðingardeild Landspítalans vil ég benda á vefsíðuna http://painfreebirthing.com. Eins er á vef samtakanna Obstetric Anaesthetist's Association: http://www.oaa-anaes.ac.uk upplýsingaslóð fyrir verðandi mæður og má þar finna bækling um verkjastillingu í fæðingu. Ég hvet allar verðandi mæður til að skoða þessar vefslóðir til að fá hlutlausar upplýsingar um verkjameðferð í fæðingu, hvernig utanbastsdeyfing fer fram og hvaða vandamál eru tengd henni. Því miður er ekki enn aðgengileg slóð um þetta efni á íslensku. Þá má benda á að þessi deyfing er ekki bara notuð hjá fæðandi konum. Hún er einnig notuð, og meira notuð, hjá meirihluta þeirra sjúklinga sem fara í opna skurðaðgerð á kviðarholi og hjá sjúklingum sem fara í lungnaaðgerðir. Ég vil ítreka að læknar svæfingadeildar Landspítalans eru ávallt reiðubúnir að veita upplýsingar um utanbastsdeyfingu.

Aðalbjörn Þorsteinsson gerir athugasemdir við skrif Helgu Dísar Sigurðardóttur um verkjameðferð í fæðingu

Höfundur hefur doktorsgráðu í læknisfræði og er yfirlæknir við svæfingadeild Landspítalans.