Íslenzk erfðagreining og SÁÁ hafa tekið höndum saman um rannsóknir á erfðafræði áfengissýki og hefur ÍE fengið 330 milljóna króna styrk til verkefnisins frá ESB.

Íslenzk erfðagreining og SÁÁ hafa tekið höndum saman um rannsóknir á erfðafræði áfengissýki og hefur ÍE fengið 330 milljóna króna styrk til verkefnisins frá ESB. Þetta verkefni er liður í evrópsku samstarfsverkefni um rannsóknir á líffræðilegum orsökum áfengisfíknarinnar. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að markmiðið með rannsókninni væri að öðlast nýjan skilning og þekkingu á tilurð áfengissýki og hvernig sá sjúkdómur fer á milli kynslóða.

Af þessu tilefni sagði Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, í samtali við Morgunblaðið í gær:

"Við höfum ekki komizt nákvæmlega að því, hvað það er í erfðunum, sem gerir menn veikari, en ef við komumst nær um það, þá mun það auðvitað nýtast okkur í forvörnum og meðferð."

Þetta er spennandi verkefni. Sú skoðun hefur lengi verið almenn á meðal alþýðu manna á Íslandi, að áfengissýki erfist. Margir eru þeirrar skoðunar, að þetta fari ekki á milli mála. Kynslóð eftir kynslóð í sömu fjölskyldum er veik fyrir víni og kann ekki með það að fara. Aðrir bregðast við vitneskju um áfengissýki í eigin fjölskyldu með strangri bindindissemi, sem er skynsamlegt.

Áfengi er böl. Þær fjölskyldur eru fáar á Íslandi, sem hafa ekki kynnzt því böli. Sennilega er ekkert, sem hefur valdið jafn mikilli eyðileggingu í fjölskyldum og skaðað einstaklinga jafn mikið og áfengi og í mörgum tilvikum eyðilagt líf þeirra, sem hafa orðið háðir því.

Það væri mikill áfangi í baráttunni gegn áfengisbölinu, ef hægt væri að sýna fram á það með rannsóknum, sem alþýða manna telur vera satt og rétt, að áfengissýki liggi í ættum. Að ekki sé talað um, ef takast mætti að finna leiðir til þess að yfirvinna áfengissýkina.

Bezt fer á því að bragða ekki áfenga drykki en ofneyzla áfengis hefur lengi fylgt þjóðum á norðurhjara veraldar. Ef rannsóknir Kára Stefánssonar, Þórarins Tyrfingssonar og samstarfsmanna þeirra geta orðið til þess, að bæði Íslendingum og öðrum þjóðum takist að ná stjórn á drykkju sinni hafa þeir félagar lagt grunn að einhverjum mestu þjóðfélagsumbótum á síðari tímum.