Blóðbankinn hefur nú hafið skráningu á sjálfboðaliðum í stofnfrumugjafaskrá, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Blóðbankinn hefur nú hafið skráningu á sjálfboðaliðum í stofnfrumugjafaskrá, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Skráin er unnin í samstarfi við norsku stofnfrumugjafaskrána, en alþjóðleg tengsl eru á milli slíkra skráa sem þýðir að hægt er að leita um heim allan að heppilegum gjafa fyrir hvern sjúkling.

Þeir sem einkum þurfa á slíkri gjöf að halda eru sjúklingar með illkynja blóðsjúkdóma eða eitlaæxli, auk þeirra sem eru með meðfædda ónæmisgalla. Á heimasíðu Blóðbankans kemur fram að besti stofnfrumugjafinn er systkini sjúklingsins sem er með sömu vefjaflokkun. Almennt eru líkurnar á því að finna gjafa í fjölskyldu sjúklingsins þó ekki nema um það bil 30%. Margir hafa því þörf fyrir gjöf frá óskyldum einstaklingi en möguleikar á að finna réttan gjafa aukast í hlutfalli við fjölda þeirra sem finnast í stofnfrumugjafaskrám. Á því sviði er til mikils að vinna því á vef Blóðbankans kemur fram að gjafir úr óskyldum einstaklingum fyrir tilstilli slíkra skráa skipta sköpum fyrir marga sjúklinga og segir þar að ef "gjöf með stofnfrumum stæði þessum sjúklingum ekki til boða væru engin sambærileg úrræði tiltæk fyrir þá".

Blóðbankinn greinir ennfremur frá því að mikil þörf sé á fleiri gjöfum á skrá "því breytileiki vefjaflokka er mikill og fjöldi samsetninga þeirra skiptir milljónum". Ennfremur er bent á að "meiri líkur eru á að finna gjafa meðal fólks af sama uppruna, og því er mikilvægt fyrir íslenska sjúklinga að hægt sé að leita að gjafa á meðal Íslendinga og auka þannig líkurnar á að gjafi finnist. [...] Með stofnun skrár á Íslandi aukast líkur enn frekar á því að sjúklingar hér á landi geti fengið stofnfrumur ef á þarf að halda".

Þessi tækni í læknavísindum hefur þegar sannað sig sem mikilvægt úrræði við mjög þungbærum og illvígum sjúkdómum. Þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði, stuðlar ekki einungis að því að líkurnar á að sjúklingar hér á landi fái bót meina sinna eins og rakið var hér að ofan, heldur einnig að því að stofnfrumugjafar héðan geti lagt sitt af mörkum til að bjarga mannslífum annarsstaðar. Slík þátttaka er því ekki einungis hluti af nauðsynlegri framþróun læknavísinda hér á landi, heldur einnig liður í því að axla ábyrgð á þessu sviði í alþjóðasamfélaginu. Hún sýnir að afrakstur framþróunar í læknisfræði er loks orðinn hnattrænn - að því marki sem þjóðir hafa efni á að njóta hans, en það höfum við sem betur fer.

Það eru blóðgjafar á aldrinum 18-45 ára sem geta látið skrá sig á stofnfrumuskrá Blóðbankans, en ákveðið var að skráin yrði einskorðuð við blóðgjafa, þar sem "þeir eru heilsuhraustir og vitað er að þeir eru tilbúnir til að gefa í þágu sjúkra", eins og segir í upplýsingum um þetta ferli. Vonandi munu sem flestir er fullnægja skilyrðunum láta skrá sig, því rétt eins og við líffæragjöf munar um hvern einasta einstakling sem er tilbúinn til að leggja sitt af mörkum til að bjarga mannslífi. Milljónir einstaklinga þarf á skrá til að finna stofnfrumugjafa fyrir viðkomandi sjúklinga - og hver veit hvenær þeirra vefjaflokkun færir einhverjum óvænta von.