Hápunktar | Veggjald Hvalfjarðarganga, fasteignaskattar, holræsagjald og Stjörnubíósreitur voru hápunktar umræðunnar í borgarstjórn á þriðjudaginn.

Hápunktar | Veggjald Hvalfjarðarganga, fasteignaskattar, holræsagjald og Stjörnubíósreitur voru hápunktar umræðunnar í borgarstjórn á þriðjudaginn.

Hörundsárir | Í upphafi var borgarfulltrúum R-listans skemmt yfir tillögu sinni að skora á samgönguráðherra að leita leiða til að lækka veggjald ganganna. Fannst þeim sjálfstæðismenn full hörundsárir fyrir hönd ráðherra síns.

Spölur | Sjálfstæðismenn sögðu það í hlutverki stjórnar Spalar að lækka veggjaldið og færðu rök fyrir því. Einnig að það væru ekki göngin sem skæru stór-höfuðborgarsvæðið í sundur, eins og sagt væri í tillögu R-listans, heldur sjálfur fjörðurinn.

Minnisblað | Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, sagðist hafa velt fyrir sér hvort Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, eins og hún kallaði hann, hefði verið með minnisblað úr samgönguráðuneytinu þegar hann talaði.

Titlar | Vilhjálmur reiddist og sagði meginregluna að ávarpa fólk í borgarstjórn sem borgarfulltrúa. Varla vildi borgarstjóri ávarpa Stefán Jón Hafstein sem formann framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar og ritstjóra Flugu.is eða Helga Hjörvar sem alþingismann og formann hússtjórnar ÖBÍ.

Hattar | "Ég bið borgarfulltrúana afsökunar á því að hafa ekki titlað þá sem borgarfulltrúa," sagði Steinunn Valdís og kannski væri það vegna þess að ekki væri alltaf alveg ljóst hvaða hatt menn bæru í umræðunum í borgarstjórn.

Hissa | Sjálfstæðismenn voru sem sagt hlessa á tillögu R-listans, að ekki væri skorað á Spöl, en á móti voru borgarfulltrúar R-listans hissa á tillögu sjálfstæðismanna um að hækkun fasteignaskatta og holræsagjald miðaðist við launavísitölu.

Gapandi | "Þeir sveitarstjórnarmenn sem ég hef talað við, svo dæmi sé tekið úr Sjálfstæðisflokknum, eru hreint gapandi yfir þessum tillöguflutningi Sjálfstæðisflokksins," sagði borgarstjóri.

Loforð | Hanna Birna Kristjánsdóttir, D-lista, rifjaði upp orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þá borgarstjóra, að borgin hefði lækkað fasteignaskatt þegar fasteignamat hækkaði til að auka ekki álögur á borgarbúa. Nú aukist álögur sjálfkrafa þvert á öll loforð R-listans.

Fjárhagstengsl | Kjartan Magnússon, D-lista, sagði að alltof hátt verð hefði verið greitt Jóni Ólafssyni fyrir Stjörnubíósreitinn á sínum tíma. Sagði hann að borgarfulltrúar yrðu að horfast í augu við fjárhagsleg tengsl Jóns við R-listann í þessu samhengi frá árinu 1994.

Spilling | Bæði Stefán Jón og Steinunn Valdís mótmæltu því harðlega, sem gefið var í skyn, að um spillingu væri að ræða. Stefán sagði Kjartan hafa orðið sér til skammar og spurði hvort hann stæði við það að þetta mál tengdist spillingu.

Grunsemdir | "Ég stend að sjálfsögðu við hvert orð sem ég sagði," svaraði Kjartan. "Ég verð að segja að ég hafði að minnsta kosti illar grunsemdir á þessu stigi málsins."

Hrakið | Borgarstjóri sagði búið að hrekja þennan endurtekna málflutning. "Það er með hreinum ólíkindum að háttvirtur borgarfulltrúi í Reykjavík skuli leyfa sér að ganga fram með þessum hætti."