REYKJAVÍKURMÓTIÐ í meistaraflokki karla í knattspyrnu hefst í kvöld en í ár eru 90 ár síðan það var fyrst haldið. Fyrsta mótið fór fram árið 1915 og þar báru Framarar sigur úr býtum en auk þeirra tóku KR og Valur þátt í mótinu.

REYKJAVÍKURMÓTIÐ í meistaraflokki karla í knattspyrnu hefst í kvöld en í ár eru 90 ár síðan það var fyrst haldið. Fyrsta mótið fór fram árið 1915 og þar báru Framarar sigur úr býtum en auk þeirra tóku KR og Valur þátt í mótinu. Þetta voru jafnframt einu liðin sem tóku þátt í Íslandsmótinu um þetta leyti en það hófst þremur árum áður, 1912.

Víkingar bættust fljótlega í hópinn og langt fram eftir síðustu öld voru það þessi fjögur félög sem tóku þátt í mótinu ár hvert. KR hefur unnið 37 sinnum, Fram 23svar, Valur 18 sinnum, Víkingur 5 sinnum, Fylkir þrisvar og Þróttur einu sinni.

KR-ingar áttu frumkvæði að stofnun mótsins en þeir létu gera verðlaunagrip sem leikið var um, Reykjavíkurhornið, og buðu til keppni.

Það eru Víkingur og KR sem eigast við í fyrsta leik mótsins en hann hefst í Egilshöllinni kl. 19.

Tíu lið taka þátt í Reykjavíkurmótinu í ár, níu Reykjavíkurfélög og svo Íslandsmeistarar FH sem var boðin þátttaka að þessu sinni. Þeir eru aðeins annað félagið utan Reykjavíkur sem tekur þátt í mótinu í 90 ára sögu þess. Hitt var ÍBV árið 1973, þegar lið Eyjamanna var allt á höfuðborgarsvæðinu vegna eldgossins í Vestmannaeyjum.

Liðunum er skipt í tvo riðla. Í A-riðli leika FH, KR, Leiknir, Víkingur og Þróttur en í B-riðli leika Fjölnir, Fram, Fylkir, ÍR og Valur.

Fyrsti leikur B-riðils er annað kvöld þegar ÍR mætir Val kl. 19

Reykjavíkurmót kvenna hefst á laugardag en þar leika KR, Valur, Fjölnir, Fylkir, HK/Víkingur og ÍR. Fyrsti leikur er á milli Fylkis og Vals kl. 15 á laugardag. Mótið hefur farið fram í 23 skipti, Valur hefur unnið 15 sinnum og KR 8 sinnum.