Guðborg Auður Guðjónsdóttir
Guðborg Auður Guðjónsdóttir
Frá Guðborgu Auði Guðjónsdóttur:: "ÞEGAR KOM að því að finna nafn á yngri dóttur okkar hjóna gerðum við eins og kannski flestir foreldrar, hugsuðum um nöfn sem okkur þykja falleg, fólk sem okkur þykir vænt um og hvernig viðkomandi nafn ætti við barnið."

ÞEGAR KOM að því að finna nafn á yngri dóttur okkar hjóna gerðum við eins og kannski flestir foreldrar, hugsuðum um nöfn sem okkur þykja falleg, fólk sem okkur þykir vænt um og hvernig viðkomandi nafn ætti við barnið. Eftir umhugsun vorum við sammála um að nefna barnið í höfuðið á föðurömmu sinni en það er býsna algeng hefð á Íslandi að skíra börn í höfuðið á ömmum sínum og öfum.

Nú barnið var skírt eftir kúnstarinnar reglum, við fengum skírnarvottorð í hendurnar og allt var klappað og klárt, það héldum við að minnsta kosti. Nokkur tími leið en þá fengum við upplýsingar frá Hagstofunni um að ekki væri hægt að færa nafnið inn í þjóðskrá þar sem það væri ekki á mannanafnaskrá, en það er skrá yfir leyfð mannanöfn á Íslandi og er það hlutverk mannanafnanefndar að semja þessa skrá samkvæmt lögum um mannanöfn nr. 45/1996.

Þegar okkur bárust þessar upplýsingar sendum við inn erindi til mannanafnanefndar þar sem við skýrðum mál okkar og bentum á að tvær konur bæru nú þegar þetta nafn í þjóðskrá og að önnur þeirra væri amma barnsins. Níu mánuðum síðar eða í janúar 1999 þegar stúlkan var orðin 14 mánaða og hafði gengið undir því nafni sem hún var skírð rúmu ári fyrr fengum við svar frá mannanafnanefnd um að ekki væri hægt að leyfa þetta nafn þar sem það bryti í bága við lög um mannanöfn, væri samsett úr tveimur nöfnum og það bæri að forðast.

Samsett nafn? Já það er að vísu rétt en hvað með öll hin samsettu nöfnin sem hlotið hafa náð hjá mannanafnanefnd og prýða nú mannanafnaskrá?

Af hverju má ekki heita Annalísa en í fínu lagi að heita Annabella? Jú ef hefð hefur skapast fyrir nafni sem annars brýtur í bága við lögin má nota það nafn áfram!

Til þess að hefð teljist hafa stofnast þarf nafnið að fullnægja a.m.k. einu eftirfarandi skilyrða:

a)Það er nú borið af a.m.k. 20 Íslendingum.

b)Það er nú borið af 15-19 Íslendingum og sá elsti þeirra er a.m.k. 30 ára.

c)Það er nú borið af 10-14 Íslendingum og sá elsti þeirra er a.m.k. 60 ára.

d)Það er nú borið af 5-9 Íslendingum og kemur fyrir í manntalinu 1910.

e)Það er nú borið af 1-4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1845.

f)Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi, en nafnið kemur fyrir í manntalinu 1845 og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð telst rofin ef nafnið kemur hvorki fyrir í manntalinu 1910 né síðar.

Þessi upptalning hljómar dálítið eins og spilareglur í nýju spili sem var gefið út fyrir jólin, jú þú færð þetta mörg stig fyrir að geta svo og svo mikið, enda ganga svona spil út á að búnar eru til reglur sem leikmennirnir þurfa að fara eftir eins og flestir þekkja. En eiga svona klausur heima í íslenskum lögum? Hverjum datt þetta eiginlega í hug? Hvert er markmið þessarra laga? Hefur einhver velt því fyrir sér?

Er einhver öðrum hæfari í að ákveða hvað börnin okkar eiga að heita? Er foreldrum ekki treystandi fyrir því? Eru nokkurs staðar annars staðar í heiminum starfandi mannanafnanefndir?

Hver skyldi kostnaðurinn vera við að starfrækja þessa nefnd? Hún er jú skipuð af dómsmálaráðherra til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum frá heimspekideild Háskóla Íslands, lagadeild Háskóla Íslands og Íslenskri málnefnd, allt eftir kúnstarinnar reglum, en hver er tilgangurinn?

Að lokum má velta fyrir sér hvort þetta stæðist fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

(Nafnið Guðborg er samsett úr guð annars vegar og borg hins vegar, og er leyfilegt samkv. mannanafnaskrá.)

GUÐBORG AUÐUR

GUÐJÓNSDÓTTIR,

Brekkubyggð 30, Garðabæ.

Frá Guðborgu Auði Guðjónsdóttur: