EINS og hálf þjóðin lá ég veikur heima með verk í maga fyrr í vikunni og kveinkaði mér mjög. Í slíku ásigkomulagi er fátt meira sefandi en að glápa máttlaus í heila og líkama á imbann allan liðlangan daginn og láta allt yfir sig ganga.

EINS og hálf þjóðin lá ég veikur heima með verk í maga fyrr í vikunni og kveinkaði mér mjög. Í slíku ásigkomulagi er fátt meira sefandi en að glápa máttlaus í heila og líkama á imbann allan liðlangan daginn og láta allt yfir sig ganga. Kemur þá blessað fjölvarpið ansi sterkt inn, eða Digital Ísland, eins og það heitir víst núna. Þá ríður á að maður finni eina stöð sem höfðar til manns en flestar af þeim nærri 40 stöðvum sem boðið er uppá eru ansi sérhæfðar og með allverulega þröng sjónarhorn. Það munar reyndar mjóu að ég finni þar ekki neitt við mitt hæfi, þrátt fyrir allan þennan fjölda. Vissulega eru þær fróðlegar fræðslustöðvarnar, en draga mann þó ekki til sín. Og þótt maður hafi áhuga á íþróttum heilla íþróttastöðvarnar lítið; Eurosport alltaf að sýna hjólreiðar, rallí eða skíðagöngu, jaðarsportstöðin alltof mikið á jaðrinum og uppfull af stælum og Chelsea og Man Utd stöðvarnar einhverra hluta vegna ekkert að gera fyrir Arsenal-manninn.

En í magakveisunni var það ein stöð sem bjargaði deginum og sló á kvalirnar; nefnilega BBC Food. Já, ég veit; afar einkennilegt að maður skuli finna hjá sér þörf til að glápa á mat og matargerð þegar maginn er í ólagi. En málið er að þegar maður hefur fallið fyrir slíku sjónvarpsefni þá hættir maður brátt að líta svo á að þar sé einfaldlega verið að elda mat heldur er þetta miklu fremur listsköpun, fræðsluefni.

Þegar horft er á þessa framúrskarandi góðu þætti sem boðið er uppá á BBC Food sér maður líka hversu aftarlega á merinni íslenskir matreiðsluþættir eru. Það er hreint ekki á færi allra að búa til gott sjónvarpsefni úr þessum efnivið. Þannig er nefnilega að línan er óskaplega fín á milli matreiðslu og eldamennsku. Það getur verið eins hundleiðinlegt að horfa á einhvern óáhugaverðan einstakling malla eitthvað og bulla eins og það er unaðslegt að dást að einverjum matreiða eitthvað af kunnáttu, ástríðu og listfengi. Ég hélt t.d. að ég ætti aldrei eftir að verða spenntur yfir norskri matargerð, ekki fyrr en ég sá snillinginn gamalreynda Keith Floyd sýna með sínum einstaka hætti - sem er í senn látlaus, hrár, upplýsandi og skemmtilegur, nokkurskonar forveri Jamie Olivers - hvernig matreiða skal skandinavískar kræsingar. Merkilegt hvað Tjallinn er góður í sjónvarpseldamennskunni. Það er bara eitthvað sem ekki gengur upp í því dæmi, þegar maður hefur síðan smakkað breskan mat.

Skarphéðinn Guðmundsson