Jón Snæbjörnsson
Jón Snæbjörnsson
Jón Snæbjörnsson fjallar um Seltjarnarnes: "Það, að fá að búa í þessu samfélagi okkar, er forréttindi. Að vera borinn hér og barnfæddur er sérréttindi."

Allnokkrir aðilar víðsvegar að af landinu hafa komið sér upp eignum á Seltjarnarnesi og telja að við það eitt hafi þeir gerst Seltirningar. Þar með hafi þeir talsvert um það að segja hvernig byggja á upp byggðarlagið.

Þessir aðilar fara mikinn og skrifa greinar, líkt og þeir og þeirra kynslóðir hafi mikið hertogadæmi að verja. Ljósastaur fær ekki rætur þótt hann sé fluttur á milli garða. Hann verður áfram ljósastaur og getur borið ljós.

Ég á því láni að fagna að vera Seltirningur borinn og barnfæddur, reyndar í nokkra ættliði, er og hef að sjálfsögðu verið stoltur af. Börnin mín eru fædd hér á Nesinu og uppalin. Nú er vá fyrir dyrum; veit ekki hvort börnin mín og þeirra afkomendur fái hér að búa. Hópur manna, sem sumir hverjir kalla sig Seltirninga og eru hér í raun sem tímabundnir íbúar, hafa lagst gegn því að börnin mín - og annarra sem í mínum sporum eru - fái tækifæri til að byggja sér bú í okkar góða byggðarlagi.

Þeir hinir sömu hafa sem sagt lagst gegn því að hér verði byggt frekar, að minnsta kosti ekki í nágrenni við þá. Hvað með unga fólkið sem hér býr og hefur talið sér sóma að að vera í vari í foreldrahúsum á Seltjarnarnesi en vill gjarnan halda hér áfram búsetu? Hvað á það að gera? Þetta unga fólk hefur nú undanfarið horft vonaraugum til Hrólfsskálamels sem hugsanlegs upphafs að frekari byggð og með þá von að þar væri hægt að byggja samfélag sem þau hefðu "efni" á að stofna til. Þann vonarneista reyna menn nú að slökkva vegna einhverra dularfullra eiginhagsmuna, sem erfitt er að festa hendi á.

Mér er umhugsunarefni sá málaflutningur í pólitískum stíl að "fagna" að ekki verði byggt. Og að "við" Seltirningar sem og aðrir íbúar fáum í hausinn himinháar greiðslur vegna ímyndaðra skuldbindinga núverandi stjórnenda Seltjarnarnesbæjar, sem til stjórnunar voru löglega kosnir af íbúum samfélagsins. Hugmynd sá ég um að nýta mætti stærri lóðir sem í dag standa á "lítil" (?) hús og byggja á þeim t.d. fjölbýlishús (mbl.is 12.1. '05). Hér er e.t.v. átt við Nýlendu, Pálsbæ, Hauksstaði, Sólvang, Sæból, Berg, Bollagarða, Hrólfsskála, Reyn, Fagurhól, Höfn, Breiðablik, Sætún, Akra, Lambastaði, sem og fjölda annarra eldri húsa á Seltjarnarnesi.

Er verið að ýja að einhvers konar eignarnámi? Mín ósk er að við Seltirningar, sem og aðrir íbúar þessa góða bæjarfélags, tökum höndum saman og búum í haginn fyrir niðja okkar, gefum okkur sjálfum eða þeim sem það kjósa möguleika á að fara í gönguferð til barnanna okkar á heimili þeirra innan Seltjarnarnesbæjar. Það, að fá að búa í þessu samfélagi okkar, er forréttindi. Að vera borinn hér og barnfæddur er sérréttindi.

Jón Snæbjörnsson fjallar um Seltjarnarnes

Höfundur er Seltirningur og íbúi á Seltjarnarnesi.