Taílendingar söfnuðust víða saman í gær til að minnast þeirra sem fórust í flóðbylgjunni í desember. Í borginni Takua Pa var sleppt upp í loftið fjölda ríspappírsljóskera með logandi kertum í virðingarskyni við fórnarlömbin.
Taílendingar söfnuðust víða saman í gær til að minnast þeirra sem fórust í flóðbylgjunni í desember. Í borginni Takua Pa var sleppt upp í loftið fjölda ríspappírsljóskera með logandi kertum í virðingarskyni við fórnarlömbin. — Reuters
ENN hækkar tala látinna vegna flóðbylgjunnar og jarðskjálftans á Indlandshafi og nú er talið að minnst 220.000 manns hafi farist í hamförunum annan í jólum. Heilbrigðisráðuneyti Indónesíu sagði í gær að 166.000 manns hefðu týnt lífi þar í landi, um 50.

ENN hækkar tala látinna vegna flóðbylgjunnar og jarðskjálftans á Indlandshafi og nú er talið að minnst 220.000 manns hafi farist í hamförunum annan í jólum. Heilbrigðisráðuneyti Indónesíu sagði í gær að 166.000 manns hefðu týnt lífi þar í landi, um 50.000 fleiri en áður var talið. Stjórnvöld í Jakarta segja auk þess að enn sé um 12.000 manns saknað.

Um 1,5 milljónir manna munu nú vera heimilislausar í löndunum þar sem hamfarirnar urðu, að sögn The New York Times. Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, sagði í gær að enn hefðust um 500.000 manns við í bráðabirgðabúðum eftir að hafa misst heimili sín og vitneskja um manntjónið væri ótraust. "Kannski fáum við aldrei að vita nákvæmlega fjölda látinna," sagði hann. Fréttaritari breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að enn séu nokkur svæði sem ekki hafi birt neinar tölur um fjölda látinna.

Stjórn Indónesíu sagðist í gær ætla að verja minnst 4,45 milljörðum dollara, nær 280 milljörðum króna, til uppbyggingar í Aceh og vonast hún til að erlend ríki leggi til helminginn af þeim fjármunum.

Hasan Wirayuda, utanríkisráðherra Indónesíu, hét því í gær að fé sem safnast hefði til aðstoðar við hamfarasvæðin myndi ekki hafna í vösum spilltra embættismanna. Hefði stjórnin ráðið endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young til að fylgjast vandlega með því hvað yrði um peningana.

Miklar olíulindir eru í Aceh og þar hafa lengi verið blóðug átök milli stjórnarherliðs og uppreisnarmanna. Wirayuda sagði í gær að stjórnvöld myndu ef til vill hefja í lok mánaðarins viðræður við uppreisnarmennina en þeir hafa barist fyrir sjálfstæði héraðsins í þrjá áratugi. Ekki hafa farið fram neinar friðarviðræður síðan í maí 2003.

Banda Aceh, Jakarta. AP, AFP.