BRASILÍSK kona var tekin með hátt í tvö þúsund skammta af hinu stórhættulega ofskynjunarlyfi LSD af tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir jól.

BRASILÍSK kona var tekin með hátt í tvö þúsund skammta af hinu stórhættulega ofskynjunarlyfi LSD af tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir jól. Eiturlyfin höfðu verið falin í leggöngum hennar, en auk þess var hún tekin með 800 grömm af kókaíni sem falin höfðu verið með því að líma pakkningarnar ofarlega á innanverð læri hennar. Sprenging varð í haldlagningu á LSD á síðasta ári en þá voru teknir meira en 4.000 skammtar samanborið við einn skammt 2003.

Margir orðið mjög skelkaðir

Konan var tekin við venjubundið eftirlit á Keflavíkurflugvelli, en hún lagði upp í ferðina frá Brasilíu og millilenti í Kaupmannahöfn áður en hún kom hingað til lands. Hún var úrskurðuð í þriggja vikna gæsluvarðhald vegna kókaínsmyglsins, en einungis nýverið fékkst staðfest að efnið sem fannst falið í leggöngum hennar væri LSD.

Síðustu árin hefur verið lagt hald á sáralítið magn af LSD eða einungis einn skammt árið 2003 og engan skammt árið áður. Árin þar á undan var lagt hald á ívið meira magn og þó mest á árinu 1999 eða 338,5 skammta. Í fyrra var hins vegar lagt hald á 2.035 skammta samanlagt í tveimur haldlagningum samkvæmt bráðabirgðatölum ríkislögreglustjórans. Þar er um að ræða um 2.000 skammta sem voru í póstsendingu frá Hollandi og nú bætast aðrir 2.000 skammtar við eða samanlagt um fjögur þúsund skammtar á árinu.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ á Vogi, sagði að LSD hefði komið inn aftur hér á landi um miðjan tíunda áratuginn með e-töflufaraldrinum. Það hefði hins vegar ekki verið áberandi allra síðustu árin eftir því sem hann best vissi. Hins vegar hefði dálítið borið á því inni í fangelsum, enda væri mjög erfitt að greina LSD í þvagi og blóði.

Þórarinn sagði að LSD breytti verulega skynjun. Fólk gæti komist í einkennilegt ástand sem væri jafnvel hættulegt. Margir hefðu orðið mjög skelkaðir í þessu ástandi og leitað inn á bráðamóttökur.