HÖFRUNGURINN, sem ítalski fiðlusmiðurinn Antonio Stradivari smíðaði árið 1714, er ein af frægustu fiðlum heims. Hún er þekkt fyrir einstök hljómgæði og var m.a. í eigu hins víðfræga einleikara Jascha Heifetz, sem af mörgum er talinn besti fiðluleikari...

HÖFRUNGURINN, sem ítalski fiðlusmiðurinn Antonio Stradivari smíðaði árið 1714, er ein af frægustu fiðlum heims. Hún er þekkt fyrir einstök hljómgæði og var m.a. í eigu hins víðfræga einleikara Jascha Heifetz, sem af mörgum er talinn besti fiðluleikari 20. aldarinnar. Eigandi fiðlunnar seint á 19. öld, George Hart, nefndi fiðluna Höfrunginn vegna þess að óvenjuleg efnissamsetning hennar og litur baksins minnti hann á höfrung. Höfrungurinn er gjarnan talinn sem ein af þremur bestu fiðlum Stradivari, ásamt "Alard", sem meistarinn smíðaði 1715 og "Messíasi", sem var smíðuð 1716, en flestir sérfræðingar eru sammála um að á árunum 1700 og 1720 hafi Stradivari verið á algerum hátindi ferils síns. Hljóðfærið hefur verið í eigu Nippon Music Foundation (NMF) síðan í mars 2000.

Hans Jóhannsson fiðlusmiður segir fiðluna merkilega fyrir það að Stradivari breytir til í stíl. "Hann er farinn að byggja fiðlurnar dálítið "karlmannlegri", aðeins þyngri í smíðinni. Hann er að fikra sig frá fínlegri útfærslum. Höfrungnum svipar dálítið í útliti til annarrar fiðlu sem er líka mjög fræg, en hún heitir Soil, sem ég held að þýði silki."

Hans segir nöfn fiðla oft koma til á áhugaverðan hátt. "Stundum eru þau dregin af nöfnum eigenda, en stundum af einhverjum spaugilegum kringumstæðum. Til dæmis er fiðlan "Messías" svo nefnd vegna þess að kaupandi hennar þurfti að bíða svo lengi eftir henni. Hann hét Vuillaume og var mikill kaupsýslumaður og hljóðfærasmiður. Hann keypti mikið af hljóðfærum af Ítala sem hét Tarisio, en sá gekk frá Ítalíu til Frakklands og sagði oft frá þessari einstöku fiðlu sem hann ætti en tímdi ekki að láta frá sér og væri í frábæru ásigkomulagi. Hann kom hins vegar ekki með hana fyrr en eftir dúk og disk og þá höfðu þeir byggt upp slíkar væntingar eftir henni að hún var eftir það kölluð Messías."

Að sögn Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar, er "Höfrungurinn" að sjálfsögðu ómetanlegur, en NMF tryggir fiðluna og lánar hana virtum hljóðfæraleikurum einungis í því skyni að styðja við bakið á þeim. Þröstur segir sér ekki myndu koma á óvart þó iðgjöld af tryggingum vegna fiðlunnar hlypu einhvers staðar yfir milljón króna á ári.