Roðasalir er nýtt  700 fermetra hús, sérhannað fyrir þá starfsemi sem í því verður.
Roðasalir er nýtt 700 fermetra hús, sérhannað fyrir þá starfsemi sem í því verður. — Morgunblaðið/Jim Smart
Kópavogur | Nýtt heimili og dagþjálfun fyrir einstaklinga með minnissjúkdóma var opnað formlega í gær, og munu fyrstu íbúarnir flytja í húsið um næstu helgi.

Kópavogur | Nýtt heimili og dagþjálfun fyrir einstaklinga með minnissjúkdóma var opnað formlega í gær, og munu fyrstu íbúarnir flytja í húsið um næstu helgi. Húsið hefur fengið nafnið Roðasalir, en þar er aðstaða fyrir átta íbúa, auk þess sem dagþjálfun verður á staðnum fyrir fólk sem enn býr í eigin húsnæði.

Roðasalir er nýtt 700 fermetra hús sem er sérhannað fyrir þá starfsemi sem í því verður. Starfsemin þar verður tvennskonar, segir Svanhildur Þengilsdóttir, forstöðumaður heimilisins.

"Roðasalir eru ætlaðir til að mæta þörfum einstaklinga með minnissjúkdóma. Annars vegar erum við með sambýli fyrir átta einstaklinga. Þar eru átta einstaklingsherbergi þar sem fólk dvelur, allt í mjög heimilislegum anda. Hins vegar er það svokölluð dagdvöl. Þá kemur fólk til okkar klukkan 8 á morgnana og dvelur fram til klukkan 16 á daginn."

Dagdvölin er ætluð þeim sem enn geta búið á eigin heimili, en þurfa ef til vill aðstoð og umönnun á daginn. "Fólkið kemur hingað og borðar hjá okkur morgunverð, og er svo hjá okkur við ýmiskonar tómstundaiðju og afþreyingu. Hér fær það ýmsa þjónustu, aðstoð við böðun og annað slíkt, og fær alla málsverði hér," segir Svanhildur. Hún segir mjög mikilvægt fyrir fólk að geta búið eins lengi á eigin heimili og hægt er, og þar hjálpi dagvist eins og boðið verður upp á í Roðasölum vissulega mikið til.

Hlutverk heimilisins er að auka lífsgæði þeirra einstaklinga sem þangað koma, og fá íbúar og gestir í dagvist bæði andlega uppörvun og líkamlega þjálfun. Einnig léttir dagvistin undir með aðstandendum, sem eru þá öruggir um maka eða foreldri á daginn.

Umhverfi Roðasala hentar mjög vel til útivistar og segir Svanhildur mikils vert að íbúar og fólk sem kemur í dagvist eigi greiða leið á göngustíg og geti fengið fjölbreytta hreyfingu. "Allt aðgengi hér er mjög þægilegt til gönguferða og almennrar hreyfingar. Svo erum við með leikfimi, létta stólaleikfimi þar sem við hreyfum bæði hendur og fætur, lítil lóð, teygjur og ýmiskonar þjálfun."

Svanhildur segir mikilvægt að hafa heimilisbrag á starfseminni. Allur matur er eldaður á staðnum, og íbúar hjálpa gjarnan til eftir getu, t.d. við að leggja á borð, skræla grænmeti, hella upp á kaffi eða annað við hæfi. Markmiðið er að standa vörð um sjálfsmynd og sjálfsvirðingu allra einstaklinga sem dvelja innan veggja hússins, og munu starfsmenn fá sérstaka fræðslu um sjúkdóminn, þróun hans og eðli, sem og um umönnun og samskipti við einstaklinga með minnissjúkdóma.