VEGAGERÐIN fer nú yfir tilboðin sem bárust í hluta Suðurstrandarvegar og að sögn Rögnvaldar Gunnarssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, má fullyrða að lægsta tilboðinu verði ekki tekið. Það kom frá Vegamönnum ehf.

VEGAGERÐIN fer nú yfir tilboðin sem bárust í hluta Suðurstrandarvegar og að sögn Rögnvaldar Gunnarssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, má fullyrða að lægsta tilboðinu verði ekki tekið. Það kom frá Vegamönnum ehf. í Reykjavík og var 23,6% af kostnaðaráætlun. Rögnvaldur segist aldrei hafa séð slíka tölu áður og fullyrða megi að um óraunhæft tilboð sé að ræða.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær bárust 22 tilboð í verkið, sem er 5,6 km kafli af Suðurstrandarvegi vestanverðum frá Grindavík.

Kostnaðaráætlun var upp á 150 milljónir króna og voru tilboðin frá verktökum alls staðar að af landinu.

Rögnvaldur telur að þegar yfirferð ljúki verði haft samband við þá bjóðendur sem teljast verða með þrjú hagstæðustu tilboðin og þau sem uppfylla kröfur Vegagerðarinnar. Yfirferðin muni taka um vikutíma.

Óvenju mörg tilboð

"Ég man ekki eftir að hafa séð svona mörg tilboð í einu útboði. Það virðist vera einhver skortur á jarðvinnuverkefnum og miðað við stærð þessa verks eru tilboðin líka í lægri kantinum," segir Rögnvaldur, en næst á eftir Vegamönnum voru nokkrir verktakar með tilboð frá 56-70% af áætlun.

Næsta stóra vegagerðarverkefnið er mislæg gatnamót og færsla á Suðurlandsveginum í Svínahrauni. Rögnvaldur segir að fróðlegt verði að sjá niðurstöðu þess útboðs og hvort þátttaka verði jafnmikil og í Suðurstrandarvegi.