Bob Dylan
Bob Dylan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BANDARÍSKI kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur unnið að kvikmynd um tónlistarmanninn Bob Dylan í tvö ár. Þó hefur hann ekki rætt við Dylan sjálfan um myndina. "Ég hef forðast að þurfa að eiga beint við manninn," sagði Scorsese í...

BANDARÍSKI kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese hefur unnið að kvikmynd um tónlistarmanninn Bob Dylan í tvö ár. Þó hefur hann ekki rætt við Dylan sjálfan um myndina.

"Ég hef forðast að þurfa að eiga beint við manninn," sagði Scorsese í vikunni. "Fyrst vil ég búa til söguna, finna söguna, og síðan útfæra hana eins og ég tel réttast."

Í myndinni ætlar Scorsese að einblína á fyrstu árin á tónlistarferli Dylans, árin 1961 til 1966. Til stendur að sýna myndina sem hluta af myndaröð PBS-ríkissjónvarpsstöðvarinnar "American Masters". Scorsese hefur töluverða reynslu af gerð tónlistarmynda og gerði m.a. The Last Waltz, sem fjallar um lokatónleika fyrrverandi hljómsveitar Dylans, kanadísku sveitarinnar The Band. Scorsese hefur aðgang að tíu klukkustundum af nýjum viðtölum við Dylan, sem umboðsmaður söngvarans tók, en Scorsese útilokar ekki að hann muni sjálfur spyrja Dylan nokkurra vel valinna spurninga.

"Ég er að reyna að búa til eins heiðarlega mynd og mögulegt er án óþarfa takmarkana. Það verður samt erfitt því ég er auðvitað á hans bandi og því gæti myndin allt eins endað sem stuðningsyfirlýsing."