Gunnar Einarsson hefur leikið lykilhlutverk hjá Keflavík.
Gunnar Einarsson hefur leikið lykilhlutverk hjá Keflavík. — Víkurfréttir/Hilmar Bragi
ÍSLANDSMEISTARALIÐ Keflavíkur í körfuknattleik karla mætir svissneska liðinu Olympic Fribourg á fimmtudaginn á heimavelli sínum í Keflavík en um er að ræða síðari viðureign liðanna í bikarkeppni Evrópu.

ÍSLANDSMEISTARALIÐ Keflavíkur í körfuknattleik karla mætir svissneska liðinu Olympic Fribourg á fimmtudaginn á heimavelli sínum í Keflavík en um er að ræða síðari viðureign liðanna í bikarkeppni Evrópu. Keflvíkingar töpuðu fyrri leiknum, sem fram fór í Sviss, 103:95, en samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur gilda og þurfa heimamenn því að sigra með meira en átta stiga mun en sá munur dugir Keflavík nái liðið að halda gestaliðinu undir 95 stigum í leiknum. Leikurinn hefst kl. 20:30 á fimmtudagskvöld.

Það hefur í raun allt snúist um Evrópukeppnina hjá okkur í vetur og þessi leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur öll sem komum að meistaraflokki karla í Keflavík. Ef við fáum fullt af áhorfendum í "Sláturhúsið" okkar sé ég ekki annað en við sigrum þetta svissneska lið með meira en átta stiga mun," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, við Morgunblaðið.

"Þetta er gott lið engu að síður en við áttum að mínu mati ekki stórleik gegn þeim á útivelli og eigum að geta gert miklu betur. Það eru margir áhugaverðir leikmenn í þeirra röðum, t.a.m. skotbakvörður frá Króatíu, Slaven Smiljanic, en við réðum illa við hann í fyrri leiknum og hann skoraði mikið fyrir utan þriggja stiga línuna. Að auki eru þeir með tvo skemmtilega bandaríska leikmenn sem geta reynst okkur erfiðir."

Miðað við stigaskorið í fyrri leiknum má búast við að leikurinn í Keflavík verði opinn og skemmtilegur og er Sigurður sammála því. "Þeir vilja leika hratt og skora mikið, líkt og við höfum lagt áherslu á í okkar leikjum. Það má því búast við miklum látum í leiknum og við ætlum okkur að komast í gegnum þessa rimmu. Hraðinn hefur verið okkar helsta vopn og við ætlum að beita því eins og við getum."

Sigurður sagði að í fyrri leiknum hefðu leikmenn Keflavíkur alls ekki hitt nógu vel úr langskotunum og Anthony Glover og Jón Nordal Hafsteinsson haldið liðinu inni í leiknum með sóknarfráköstum. "Þeir gátu komist framhjá sínum varnarmönnum og barist um fráköstin, Glover var sagður vera með 46 stig samkvæmt tölfræði FIBA en ég tel að hann hafi fengið of mikið af stigum skráð á sig - var með 40 stig, sem er að sjálfsögðu glæsilegt engu að síður."

Mikið í húfi

Ef Keflvíkingar leggja svissneska liðið að velli með meira en átta stiga mun er liðið komið í fjögurra liða úrslit í vestur- og miðriðli bikarkeppni Evrópu. "Ef við vinnum Fribourg komumst við í fjögurra liða úrslit í mið- og vesturriðli. Þar með erum við ansi nálægt því að komast í fjögurra liða úrslit keppninnar. Við höfum því sett markið á að leggja Fribourg að velli og fá tvær viðureignir til viðbótar. Ef við færum í gegnum þá leiki með hagstæðum úrslitum leikum við til úrslita í keppninni ásamt þremur öðrum liðum helgina 9. og 10. apríl.

Í raun hefur þátttaka okkar í Evrópukeppninni komið aðeins í bakið á okkur á öðrum vígstöðvum hér heima en ég ætla ekki að nota það sem afsökun, við tókum ákvörðun um að vera með og vissum að ferðalög og þétt dagskrá gætu haft áhrif þegar lengra liði á keppnistímabilið. En það er markmiðið hjá okkur að njóta þess að vera í Evrópukeppninni, hafa gaman af því og leggja okkur alla í verkefnið."

Heimavöllurinn skiptir máli

Að mati þjálfarans hefur stuðningur við liðið á heimavelli verið nokkuð góður í þeim leikjum sem voru fyrir áramót. "En ég væri að skrökva ef ég óskaði ekki eftir að sjá fleiri áhorfendur. Við höfum lagt mikla vinnu á okkur til þess að geta verið með og vonum að stuðningsmenn okkar sjái sér fært að styðja við bakið á okkur á fimmtudaginn. Að auki teljum við okkur vera að koma íslenskum körfuknattleik á framfæri og ég hvet því alla áhugamenn um körfuknattleik til að mæta - ég get lofað því að þeir verða ekki fyrir vonbrigðum. Þetta verður hraður og skemmtilegur leikur, allir okkar leikmenn eru frískir og ég er bjartsýnn á hagstæð úrslit í leiknum," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson