* ANITA Kulcsar frá Ungverjalandi , ein besta handknattleikskona heims, lést í fyrradag eftir að hafa lent í bílslysi í heimalandi sínu.

* ANITA Kulcsar frá Ungverjalandi , ein besta handknattleikskona heims, lést í fyrradag eftir að hafa lent í bílslysi í heimalandi sínu. Kulcsar var 28 ára gömul, hafði skorað 402 mörk í 165 landsleikjum fyrir Ungverjaland og var talin einn besti línumaður heims. Hún var í lykilhlutverki í liði Ungverja sem fékk bronsverðlaunin á Evrópumótinu á heimavelli sínum í síðasta mánuði. Kulcsar lék með ungverska liðinu Dunaferr .

* BJÖRGVIN Björgvinsson og Kri stján Uni Óskarsson kepptu báðir í svigi í Mellau í Austurríki í fyrradag, en mótið var liður í Evrópubikarkeppninni . Þeim tókst ekki að ljúka fyrri ferðinni og voru þar með úr leik.

* MARK Schwarzer , markvörður Middlesbrough , hefur gert þriggja ára samning við félagið, en núverandi samningur rennur út í vor. Þar með er endi bundinn á vangaveltur um að Schwarzer rói á önnur mið í sumar, en Manchester United var nefnt í því sambandi.

* ENSKA liðið Manchester United mun leika við kínverska liðið Peking Hyundai þegar liðið fer í æfingaferð í Asíu næsta sumar. Leikið verður á Verkamannaleikvanginum , sem er einn þeirra sem notaður verður á Ólympíuleikunum 2008 og fer fram 26. júlí.

* LOMANA Lua Lua , framherji Portsmouth hefur verið ákærður fyrir óíþróttamannlega framkomu þegar hann var rekinn af leikvelli síðasta laugardag í viðureign við Blackburn . LuaLua skallaði þá mótherja í andlitið.

* FREDDIE Ljungberg á í viðræðum við Arsenal um framlengingu á núverandi samningi sem rennur út eftir hálft annað ár. Ljungberg segir að þrátt fyrir áhuga félaga á meginlandi Evrópu hafi hann eindreginn vilja til að vera áfram í herbúðum ensku meistaranna þar sem honum líkar vel lífið í norður London og veran hjá Arsenal .