Heima Anna Lára Hertervig getur nú látið fara vel um sig heima með tuskukisunni sem hún fékk í jólagjöf.
Heima Anna Lára Hertervig getur nú látið fara vel um sig heima með tuskukisunni sem hún fékk í jólagjöf. — Morgunblaðið/Örn Þórarinsson
Siglufjörður | "Ég held að þeir hjá bænum hefðu ekki sagt mér upp," segir Anna Lára Hertervig á Siglufirði. Hún er komin yfir áttrætt og ákvað að eigin frumkvæði að láta af störfum við ræstingar á bæjarskrifstofunum eftir tíu ár í starfi.

Siglufjörður | "Ég held að þeir hjá bænum hefðu ekki sagt mér upp," segir Anna Lára Hertervig á Siglufirði. Hún er komin yfir áttrætt og ákvað að eigin frumkvæði að láta af störfum við ræstingar á bæjarskrifstofunum eftir tíu ár í starfi. En hún situr ekki aðgerðarlaus, starfar mikið að félagsmálum og spilar brids.

"Mér líkaði þetta alveg prýðilega. Launin voru ágæt og vinnutíminn síðdegis hentaði mér vel. Og svo vinnur skínandi fólk á skrifstofunni," segir Anna Lára. Henni fannst eðlilegt að láta af störfum þar sem hún er orðin 81 árs og telur ekki að þeir hjá bænum hafi haft hug á að segja henni upp. "Þegar starfið var auglýst árið 1994 sótti ég um ásamt fleirum og heyrði að það hefði orðið umræða um hvort ég væri ekki orðin of gömul í starfið. Þá mun þáverandi bæjarstjóri hafa sagt að fyrst ég gæti mokað hálfa Aðalgötuna með skóflu hlyti ég að geta skúrað bæjarskrifstofuna og ég var ráðin. Þá var ég með verslun hérna í Aðalgötunni og þeir gátu fylgst með mér af bæjarskrifstofunni þegar ég var að moka mig inn í búðina á morgnana," segir Anna Lára.

Vill hafa allt á fullu í kringum sig

Þó svo að Anna Lára hætti hjá bænum er langt frá því að hún setjist í helgan stein. Hún hefur í mörg ár starfað með félagi eldri borgara í bænum og var formaður þess í nokkur ár. Hún fer tvo daga í hverri viku og heimsækir íbúana á öldrunardeildinni í bænum og spilar við fólkið eða situr hjá gömlum kunningjum sem sumir eru orðnir rúmfastir og rabbar við þá. Einnig starfar hún með bridsfélaginu og er í stjórn þetta árið. Hún mætir á öll spilakvöld hjá félaginu og fer jafnvel á mót utanbæjar. Þá er talsvert spilað í heimahúsum þegar tækifæri gefst. Þá er ótalið að Anna hefur í meira en áratug fært bókhald fyrir verslun í Reykjavík.

Hún segist alltaf hafa haft gaman af því að vinna, alltaf viljað hafa allt á fullu í kringum sig og fundist flest störf skemmtileg. Hún segist hafa byrjað að vinna í bakaríi föður síns sem smátelpa. Eftir nám í Verslunarskólanum sneri hún aftur heim til Siglufjarðar þar sem hún vann á pósthúsinu næstu fjögur ár. Næstu sjö sumur voru hún og maður hennar, Sveinbjörn Tómasson, með rekstur á Raufarhöfn en voru alltaf á Siglufirði yfir veturinn. Árið 1958 keyptu þau fataverslun í Siglufirði og næstu 36 árin varð Diddabúð aðalstarf hennar auk hefðbundinna húsmóðurstarfa. Sveinbjörn lést árið 1975 og eftir það sá hún ein um verslunina, allt þar til hún hætti árið 1994 og fór að ræsta bæjarskrifstofurnar.

Anna Lára segist munu sakna þess að fara ekki í vinnuna á daginn. Hún á ekki bíl en segir að leiðin á bæjarskrifstofuna hafi verið hæfilegur göngutúr fyrir sig en stundum hafi kunningjar og vinir tekið sig upp í bílinn á leiðinni. Anna segist yfirleitt hafa farið á milli á reiðhjóli á sumrin. Hún segir að það hafi aldrei verið neitt mál að fá frí þegar hana langaði að fara eitthvað úr bænum eins og til dæmis í ferðalög með eldri borgurum eða heimsækja ættingja sína í Reykjavík um jólin. "En það var líka enginn veikindadagur hjá mér þessi tíu ár á bæjarskrifstofunni," bætti hún við.