TALSMAÐUR enska úrvalsdeildarliðsins Birmingham segir að gengið verði frá sölu Robbies Savage til Blackburn Rovers í dag en velski landsliðsmaðurinn óskaði eftir að verða settur á sölulista hjá félaginu.

TALSMAÐUR enska úrvalsdeildarliðsins Birmingham segir að gengið verði frá sölu Robbies Savage til Blackburn Rovers í dag en velski landsliðsmaðurinn óskaði eftir að verða settur á sölulista hjá félaginu. Savage er þrítugur að aldri og hefur leikið 39 landsleiki með Wales en hann gerði samning til fjögurra ára við Birmingham sl. sumar. Hann segir ástæðuna fyrir því að hann vill fara frá Birmingham þá að hann vilji búa nær foreldrum sínum í Wrexham sem eru báðir alvarlega veikir. Forráðamenn Birmingham bentu leikmanninum á að skoða landakort af Englandi betur þar sem styttra væri frá Birmingham til Wrexham en frá Blackburn.

Barry Ferguson, leikmaður Blackburn, er líklega á leið til Glasgow Rangers á ný en hann hefur formlega óskað eftir að verða seldur. Blackburn keypti skoska landsliðsmanninn sumarið 2003 frá Rangers. Ferguson er 26 ára gamall og var keyptur fyrir um 750 millj. kr. en Blackburn skuldar enn um helming þeirrar upphæðar.