Í heimahöfn Valur GK 6 er nú gerður út frá Sandgerði á nýjan leik.
Í heimahöfn Valur GK 6 er nú gerður út frá Sandgerði á nýjan leik. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
Sandgerði | "Það hefði mátt vera betra en það má heldur ekki vera fullt í fyrsta túr," segir Sævar Ólafsson, skipstjóri á Val GK 6, 170 brúttórúmlesta skipi sem landaði í byrjun vikunnar í fyrsta sinn í Sandgerði eftir langa fjarvist.

Sandgerði | "Það hefði mátt vera betra en það má heldur ekki vera fullt í fyrsta túr," segir Sævar Ólafsson, skipstjóri á Val GK 6, 170 brúttórúmlesta skipi sem landaði í byrjun vikunnar í fyrsta sinn í Sandgerði eftir langa fjarvist.

Guðmundur Jónsson útvegsbóndi á Rafnkelsstöðum í Garði lét smíða skipið sem nú heitir Valur í Svíþjóð árið 1963 fyrir Eggert Gíslason aflakóng á Víði II. Ekki fékkst leyfi til að nota Víðisnafnið á nýja skipið og fékk það þá nafnið Sigurpáll GK. Eggert fiskaði vel á Sigurpáli sem fyrr. Síðar fékk skipið nafnið Sigþór og var selt norður í land en fram að því hafði það verið gert út frá Sandgerði. Það hefur gengið á milli útgerða, hét um tíma Þorvarður Lárusson SH og síðan Straumur RE þar til útgerðarfélagið Stakkar keypti það í haust og hefur nú flaggað því til Sandgerðis.

Segir Sævar að eigendurnir stefni að því að landa þar framvegis. Sama útgerð hefur átt Hauk EA í nokkur ár og var Sævar skipstjóri þar og hefur orð á sér fyrir að vera fengsæll skipstjóri á togbátum. "Ég hef lengi verið að og alltaf á fiskitrolli," segir Sævar. Hann var lengi skipstjóri á Reyni frá Sandgerði en einnig Þór Péturssyni og var seldur með honum til Grundarfjarðar, að eigin sögn, þar sem skipið hét Helgi SH.

Vonast eftir eðlilegri vertíð

"Þetta eru kvótalausir bátar. En við reynum að sprikla til þess að hafa vinnu," segir Sævar. Útgerðin nær sér í kvóta með því að semja við fiskvinnslufyrirtæki um föst viðskipti.

Valur var á veiðum á Búrbanka vestur af landinu í fyrstu veiðiferðinni frá sinni gömlu heimahöfn. Sævar segir að áhöfnin sé að fá virkni á trollið og laga til aðstæður um borð. Það taki alltaf sinn tíma að venjast nýju skipi. Sævar segist hafa orðið töluvert var við ýsu á Búrbanka en sáralítið af þorski í þessum túr. "Mér sýnist þó ástandið vera að lagast, hef trú á að þorskurinn fari að sýna sig meira þannig að þetta fari fljótlega að líkjast vertíðarástandi," segir Sævar Ólafsson.