— Morgunblaðið/Ásdís
BÓNDADEGINUM verður fagnað með virktum á Hótel Búðum í Staðarsveit komandi helgi, en þá verður blásið til tveggja daga bóndadagsfagnaðar. Það eru þeir Kormákur og Skjöldur sem hafa veg og vanda af þeim fagnaði.

BÓNDADEGINUM verður fagnað með virktum á Hótel Búðum í Staðarsveit komandi helgi, en þá verður blásið til tveggja daga bóndadagsfagnaðar. Það eru þeir Kormákur og Skjöldur sem hafa veg og vanda af þeim fagnaði. Lögð verður áhersla á að karlmönnum líði sem best og þess vegna eru konur hvattar til þess að koma með sína menn á Búðir og hlúa að þeim í anda bóndadagsins. Á laugardagskvöld verður sameiginlegur kvöldverður og skemmtun. Ekki er hægt að upplýsa um matseðilinn fyrirfram því veitt verða verðlaun fyrir þá sem geta grafið upp innihald þeirra rétta sem fram verða bornir.

Að loknum snæðingi mun polkahljómsveitin Hringir grípa í hljóðfærin og dansinn duna fram eftir nóttu. Að sögn skipuleggjenda er jafnvel viðbúið að bændur úr nágrenninu smelli sér í spariskóna og láti sjá sig. "Við höfum verið þarna mikið í gegnum tíðina," segir Kormákur Geirharðsson, trommuleikari Hringja, en stór hópur fólks úr ýmsum áttum í íslensku samfélagi hefur tekið ástfóstri við þetta sögufræga hótel. "KK-bandið æfði t.d. þarna áður en Bein leið var tekin upp og þar sömdum við síðustu lögin. Við eigum þaðan ýmsar minningar."