Eygerður Ingimundardóttir fæddist á Hrísbrú í Mosfellsdal 13. mars 1938. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 11. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Elínborg Andrésdóttir, f. 3. júní 1900, d. 22. mars 1995, og Ingmundur Ámundason, f. 7. maí 1896, d. 13. janúar 1979. Systkini Eygerðar eru Svava Steinunn, f. 12. september 1932, Ólafur, f. 22. nóvember 1933 og Ólöf Jóna, f. 31. júlí 1941.

Eiginmaður Eygerðar er Henning Kristjánsson, f. 1.8. 1939. Foreldrar hans voru Maria Jensen og Kristjan Jensen.

Eygerður giftist Kristni V. Magnússyni árið 1958. Þau slitu samvistum 1967. Þau eiga tvær dætur, þær eru:

1) Inga Elín Kristinsdóttir myndlistamaður, f. 22. september1957, maki Þórarinn Sigurbergsson, f. 13. apríl 1958.

Börn hennar eru Eygerður, maki Ingi Páll, dóttir þeirra Inga Lilja, Fjóla Dögg og Kristinn Valgeir. Börn Þórarins eru Helga Guðrún og Alexander. 2) Jóna Margrét Kristinsdóttir bóndi, f. 19. desember 1958, maki Gunnar Haraldsson, f. 29. apríl 1958. Börn þeirra eru: Eygerður, maki Óðinn Bragi, dóttir þeirra Valdís Mist, Árni, maki Íris Dögg, dóttir hennar Angela Ósk, Margrét, Haraldur, Auður og Ólöf.

Eygerður hóf sambúð með Kristjáni Ólafssyni 1967. Þau slitu samvistum 1989. Þau eiga þrjár dætur, þær eru:

3) Bóel Kristjánsdóttir bankastarfsmaður, f. 3. maí 1968, maki Geirarður Þórir Long, f. 16. desember 1966. Börn þeirra eru Svandís Ösp og Stefán Óli. 4) Ólöf Kristjánsdóttir, f. 27. apríl 1971, d. 30. maí 1989. 5) Steinunn Kristjánsdóttir lífeindafræðingur, f. 17. febrúar 1975, maki Sigfús Tryggvi Blumenstein, f. 28. maí 1968. Synir þeirra eru Hallur Húmi og Kristján Leifur.

Eygerður ólst upp á Hrísbrú en fluttist 15 ára að aldri að heiman og bjó víða á höfðuborgarsvæðinu. Hún byggði hús að Víði í landi Hrísbrúar en fluttist þaðan 1989. Hún bjó á nokkrum stöðum eftir það, þar til hún fluttist í Reykjabyggð þar sem hún og eftirlifandi eiginmaður hennar bjuggu síðustu níu ár. Eygerður vann við ýmis verslunarstörf, svo sem í Vogue, Æskunni og Gallerí Ingu Elínar. Hún rak eigin verslun á Laugaveginum árið 1985 til ársins 1988. Hún var menntaður sjókokkur frá Hótel- og veitingaskóla Íslands og vann við matreiðslu á ýmsum stöðum, svo sem Bifreiðastöð Íslands, leikskólum Mosfellsbæjar og Íslandsbanka í Mosfellsbæ.

Eygerður hafði yndi af stangveiði, hestum, garðyrkju og hannyrðum, var mjög listræn og mikið náttúrubarn.

Eygerður verður jarðsungin frá Mosfellskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Móðir, dóttir, meyjar.

Það er aðeins ein móðir. Minningarnar hrannast upp, allt lífshlaupið verður eins og hæg löng kvikmynd. Fyrir löngu, mamma og við systurnar í Hafnarfjarðarstrætó að koma úr bæjarferð, önnur steinsofnuð og varla hægt að vekja hana. Það voru ekki bílar á hverju strái á þessum tíma. Allir kjólarnir og fötin sem mamma saumaði, það væri hægt að opna heilt safn væri þetta allt til ennþá. Móðir mín gat saumað nánast hvað sem var, þurfti ekki nein snið, bjó þau bara til. Og öll blómin sem voru alltaf í kringum hana, forlagatréð sem allir vildu fá afleggjara af. Amma var svona líka, þetta var í genunum.

Fallegu garðarnir þínir, fyrst í Grundartanganum og svo eftir að Henning kom þér til liðsauka í Reykjabyggðinni. Þið tvö að spá í plöntur og fræ sem voru ekki í hvers manns garði. Þvílíkur lystigarður, þá sem þangað komu rak í rogastans og útlendingar trúðu ekki sínum eigin augum, að þetta væri hægt á Íslandi. Svona var natni hennar. Vil ég þakka móður minni fyrir að vera alltaf til staðar á erfiðum stundum lífs míns.

Guð geymi þig mamma mín. Þín dóttir

Inga Elín.

Elsku Eyja amma mín.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja, ég á svo margar frábærar minningar um þig. Fyrsta minningin er frá því á gamlárskvöld þegar þið bjugguð í Víði, þá fóru allir að brennunni nema ég, þú og Polli, þú passaðir okkur og leyfðir mér að horfa á brennuna út um gluggann. Þessar stundir eru ógleymanlegar.

Þegar ég var unglingur bauðstu mér að vinna með þér á BSÍ, mér fannst þetta mikill heiður og lærði ég heilan helling af þér þetta sumar. Þetta sumar gisti ég oft hjá þér svo við gætum farið saman í vinnuna og man ég hvað mér fannst notalegt að kúra uppi í hjá þér.

Áður en ég varð 17 ára leyfðir þú mér oft að keyra uppi í sveit, ég man hvað mér fannst þú æðisleg amma, það ætti örugglega enginn í heiminum svona töff ömmu. Einu sinni fórum við tvær á undan hinum upp í sumarbústað, þú leyfðir mér að bakka bílnum ein niður í stæði, en á leiðinni bakkaði ég á stóran stein og rústaði framhurðinni. Þegar ég kom inn hágrátandi og sagði þér hvað hefði gerst fórstu bara að hlæja. Þér fannst þetta nú lítið mál og sagðir öllum að þú hefðir beyglað hurðina.

Elsku amma mín, það verður erfitt að geta ekki leitað til þín með stóra sem smáa hluti, alltaf kunnir þú svör við öllu og varst alltaf til í að spjalla. Ég ætla að vera dugleg að segja Ingu Lilju frá þér, henni fannst alltaf svo gaman að koma til langaömmu eins og hún kallaði þig. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og ég veit þú munt vaka yfir okkur og hjálpa okkur þegar á þarf að halda. Fjóla bað mig fyrir kveðju til þín en hún er stödd í Brasilíu.

Elsku Henning, þú hefur misst ástina í lífi þínu, þið voruð alltaf svo sæt saman og dugleg að rækta garðinn ykkar og fara í veiðiferðir. Ég hef aldrei séð ömmu jafn hamingjusama og eftir að hún kynntist þér, þú varst svo góður við hana og gerðir allt fyrir hana.

Elsku mamma, Jóna Magga, Bóel og Steinunn, nú er amma komin til Ólafar systur ykkar og geta þær nú bætt upp tímann sem þær fengu ekki saman. Þær munu vaka yfir okkur öllum.

Þín Eyja litla.

Eygerður Helgadóttir.

Þegar ég hugsa um ömmu sé ég fyrir mér konu sem orð geta ekki lýst. Amma bjó á hæðinni fyrir neðan mig í níu ár, ég var mjög mikið með henni og það var mjög gaman. Ömmur eins og hana er mjög gott að hafa í lífi sínu.

Ég man eftir því að þegar ég var lítil gat ég ekki sagt amma Eygerður svo ég kallaði hana alltaf amma bóndi, enginn veit af hverju. Á sumrin gróðursettum við blóm en á veturna spiluðum við oft saman á spil. Hún var alltaf góð við mig og vinkonur mínar. Öllum þótti hún rosa góð, vinkonum mínum þótti líka vænt um hana og það er ekkert skrítið því hún var svo æðislega, æðislega æðisleg. Það var ekki erfitt að láta sér þykja vænt um hana því hún var alltaf til staðar ef maður var í vandræðum og hún hjálpaði manni alltaf út úr þeim. Það á eftir að vera tómlegt án hennar. Ég sá hana á næstum hverjum einasta degi en núna get ég ekki séð hana aftur nema á myndum og í huganum.

Þegar rósir deyja, þá er hægt að sá nýjum, en það er ekki hægt með ömmur.

En það er hægt að sá þeim í hjartað sitt og þar getur þú munað eftir henni allt þitt líf.

Svandís Ösp.

Elsku amma.

Það eru ótal minningar sem rifjast upp þegar ég sit hér og hugsa um liðnar stundir. Samt er svo skrítið hvað það er erfitt að koma þeim á blað. Margar fallegar minningar um þig hafa streymt um huga minn síðustu daga. Meðal þeirra eru allar veiðiferðirnar sem við fórum í, það var eitt af fáum sameiginlegum áhugamálum okkar.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku amma, að lokum kveð ég þig með söknuði. Minning þín er ljós í lífi okkar allra. Takk fyrir allt.

Þinn dóttursonur,

Kristinn.

Mig langar til að minnast Eyju mágkonu minnar með nokkrum orðum.

Okkar samskipti hafa verið mjög góð þau 39 ár sem við höfum þekkst. Fyrstu árin eftir að ég flutti að Hrísbrú bjó hún í Reykjavík en árið 1974 flutti hún aftur í dalinn sinn þegar hún og Kristján byggðu upp á Víði. Þá urðum við nágrannar næstu 15 árin og gerðum margt saman, við áttum börn á svipuðum aldri og dætur okkar urðu miklar vinkonur. Það var alltaf jafn notalegt að skreppa og fá kaffisopa við eldhúsborðið hjá Eyju og spjalla saman því hún hafði gott lag á því að láta manni líða vel.

Eyja var ein af þeim sem allt lék í höndunum á, hvort sem það var handavinna, matargerð eða annað og hún lét ekkert frá sér nema það væri fyrsta flokks, enda bar heimili hennar alla tíð vott um mikla smekkvísi og alúð. En lífið var ekki alltaf dans á rósum, Eyja varð fyrir mörgum áföllum um ævina. Þó að þyngsta áfallið hafi verið þegar hún missti Ólöfu dóttur sína af slysförum vorið 1989 aðeins 18 ára gamla. En það átti eftir að rofa til á ný í hennar lífi, þegar hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum Henning Kristjánssyni en þau áttu saman mjög góðan tíma þótt hann yrði alltof stuttur. Þau höfðu bæði mikinn áhuga á garðrækt og hönnuðu í sameiningu frábæran garð í Reykjabyggðinni svo ekki sé talað um veiðiferðirnar sem voru þeirra líf og yndi.

Snemma á síðasta ári fór svo að draga ský fyrir sólu er hún fór að kenna þess meins sem að lokum hafði betur. Eyja barðist eins og hetja og aldrei heyrði ég hana segja æðruorð. Eyja dvaldi lengst af heima þar sem Henning og dætur hennar gerðu allt sem hægt var til að henni gæti liðið sem best, en þar kom að hún þurfti að leggjast inn á líknardeild Lsp. í Kópavogi þar sem hún dvaldist síðustu vikurnar og naut frábærrar umönnunar góðs starfsfólks.

Elsku Henning, Inga, Magga, Bóel, Steinunn og fjölskyldur, ég og fjölskylda mín vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Þið hafið misst mikið en minningin um góða konu lifir. Þér, Eyja mín, vil ég þakka samfylgdina.

Ása.

Ég var á unglingsaldri þegar ég fyrir hartnær fjörutíu árum kynntist Eygerði Ingimundardóttur. Hún var þá orðin konan hans Kristjáns bróður míns og átti tvær dætur, Ingu Elínu og Jónu Margréti, sem voru kátir krakkar. Brátt bættust í hópinn þær Bóel, Ólöf og Steinunn, dætur Kristjáns og Eyju. Þetta var fríður hópur mannvænlegra dætra og vorið framundan virtist ekki aðeins fullt fyrirheita heldur jafnvel endalaust. Svo var það að minnsta kosti í mínum huga á þessum dögum. En í vorgróanda ársins 1989 voru þau Eyja og Kristján minnt á það hversu hverfulir dagar jarðlífsins eru þegar Ólöf dóttir þeirra var í miðjum æskublóma sínum fyrirvaralaust kölluð á brott héðan úr heimi.

Þeim sem hefur orðið fyrir svo sárri reynslu mun veitast auðvelt að skilja orð Davíðssálmsins nítugasta þar sem því er lýst að dagar okkar mannanna ,,líða í skyndi og vér fljúgum burt", en þau eru sögð í aðdraganda og undanfara hinnar vel þekktu bænar: ,,Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta." Mér veitist hins vegar stundum erfitt að átta mig á því að viska hjartans þurfi endilega að vera tengd því sérstaklega að gera sér grein fyrir hverfulleik lífsins. Einkum finnst mér þetta torskilið þar sem Eygerður mágkona mín átti í hlut, því að ég hygg hana hafa verið fædda með viturt hjarta. Henni þurfti því ekki að kenna að telja daga sína til þess að hún öðlaðist hina dýrmætu visku hjartans. Að minnsta kosti er þessu svo varið ef í vitru hjarta er sá hæfileiki fólginn að kunna að hlusta á það sem tæpast er sagt og skilja það djúpum skilningi. Ég á í minningunni margar slíkar stundir í nærveru Eyju þegar ég varð þess áskynja að hún af stakri næmni sinni skynjaði og skildi hvað mér leið án þess um það væru höfð mörg orð. Þeim sem er þess megnugur hefur verið gefið viturt hjarta.

Eygerður Ingimundardóttir var grannvaxin kona, gekk óvenju teinrétt í baki og var nánast tiginmannleg í fasi en þó full hógværðar og kurteisi. Hún var gædd miklum hæfileikum, handlagni og listrænu auga svo af bar og fékk hvort tveggja að njóta sín í hönnun og gerð fatnaðar svo og við framreiðslu og matargerð. Dagfarsprúða tel ég hana hafa verið og svo oft sem fundum okkar bar saman man ég ekki til þess að hún legði illt orð til nokkurs manns en átti það til að aumka reiði og vanstillingu annarra.

Ég var á viðkvæmu skeiði æskunnar þegar ég kynntist Eyju fyrst og átti allnána samleið með henni næstu árin eða allt þar til þau Kristján slitu samvistir og ég tók upp á því að dvelja langdvölum í öðrum héruðum og jafnvel löndum. Mér var Eyja samt ætíð vinur og það var mér afar dýrmætt að fá að nálgast hana á nýjan leik síðustu mánuðina sem hún lifði og finna að ég átti ennþá ákveðið rúm í huga hennar. Þessar síðustu samvistir okkar varð ég þess enn á ný áskynja að visku hjartans átti Eyja ekki aðeins óskerta í lok allt of stuttrar ævi, heldur var henni orðið enn auðveldara en áður að deila henni með öðrum. Of skjótt er hún kvödd á brott frá ástvinum sínum, Henning manni sínum, dætrunum fjórum og þeirra fjölskyldum. Þeim öllum votta ég mína innilegustu samúð og bið þeim styrks í sorginni sem kvatt hefur dyra.

Trausti Ólafsson.

Elsku Eyja mín, mig langar að færa þér mína hinstu kveðju.

Minningarnar streyma um huga mér nú og ég trúi vart að þú sért ekki lengur á meðal okkar. Hugurinn reikar að bernskuárum mínum, þegar ég var nær daglegur gestur á heimili þínu. Gestur er nú kannski ekki rétta orðið, heimagangur væri nærri lagi. Sem lítil stelpa skoppaði ég ósjaldan yfir skurðinn sem lá á milli Hrísbrúar og Víðis. Þegar yfir skurðinn var komið var ég komin inn í stelpnahópinn þinn og voru uppátæki okkar æði mörg. Sundlaugin kemur þá fyrst upp í huga mér og ég minnist þess hversu vel þú naust þess að vera í heitasta hluta laugarinnar en þaðan hafðir þú vökult auga á stelpnaskaranum svo lítið bar á.

Minningarnar eru óteljandi sem ekki verða frekar raktar hér, en nú veit ég að þú ert komin til hennar Ólafar okkar sem kvaddi þennan heim fyrir aldur fram. Að lokum langar mig að þakka þér fyrir að fá að vera ein af stelpnahópnum þínum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Hjartans þakkir fyrir allt og allt.

Elsku Henning og þið stelpur mínar og fjölskyldur, Guð gefi ykkur styrk í ykkar miklu sorg.

Elínborg Ólafsdóttir.

Góður vinur er horfinn yfir móðuna miklu. Kynni mín af Eygerði hófust 1957 er ég kynntist konu minni Ernu Haraldsdóttur. Fylgdi Eygerður með, því þær voru miklar vinkonur, það var þannig í þá daga. Hafa því kynni okkar staðið í tæp 50 ár og aldrei borið skugga á. Að öðrum ólöstuðum tel ég Eygerði og Kristján hafa verið bestu og traustustu vini sem ég hef átt. Eygerður var greiðvikin og alltaf var opið hús á Víðinum. Greiðvikni Eygerðar kom best í ljós árið 1977 er kona mín lést og yngsta dóttir mín aðeins tæplega 9 ára. Kom þá ekki annað til greina en að hún fengi að hafa hana hjá sér og leið henni þar eins og hún væri ein af stelpunum á Víði. Fyrir þennan stóra greiða er ég óendanlega þakklátur. Eygerður var mikill hestamaður og voru þær ófáar hestaferðirnar bæði stuttar og langar sem við fórum í á okkar yngri árum. Kom þá í ljós dugnaður Eygerðar, þá var hægt að segja að margur er knár þótt hann sé smár. Vinátta okkar Eygerðar og dætra minna stóð óslitin þar til leiðir skildu. Ég votta ættingjum öllum mína dýpstu samúð, það er erfitt að kveðja góða konu. Guð gefi ykkur styrk til að standast þessa miklu sorg.

Reynir Kristinsson.

Elsku Eyja.

Nú er baráttunni lokið. Baráttunni þinni við þetta hryllilega krabbamein sem við misstum mömmu mína og bestu vinkonu þína úr fyrir nærri 28 árum síðan. Ég veit að þið hittist núna hinum megin ásamt Ólöfu þinni. Mig langar bara að þakka fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, ekki síst þegar ég bjó hjá ykkur á Víðinum árið eftir að mamma dó. Þá var ég ein af stelpunum ykkar Stjána og fann aldrei fyrir því að ég væri annað en ein af fjölskyldunni. Þú kenndir okkur svo margt um lífið og tilveruna og það sem stendur alltaf uppúr er hvað þú lagðir mikla áherslu á að enginn væri skilinn útundan og að allir fengju að vera með.

"Alltaf til skiptis," sagðirðu alltaf þegar við Bóel vildum ekki hleypa Ólöfu með okkur í rólurnar. Þú varst með svo sterka réttlætiskennd sem þú kenndir okkur öllum, stelpunum þínum. Ég vil þakka fyrir allar góðar stundir, sérstaklega kvöld eitt fyrir nokkrum mánuðum þegar ég skaust yfir til þín með nokkrar flíkur í viðgerð en endaði svo með bjórglas í fjörugum samræðum við eldhúsborðið - á mánudagskvöldi! Þannig vil ég minnast þín, það var svo gaman hjá okkur þá. Ég er svo þakklát fyrir að eiga fallegan trefil sem þú prjónaðir á prjónavélina og ég keypti af þér þetta kvöld. Hann mun alltaf minna mig á þig.

Elsku Bóel, Steinunn, Inga og Magga, ég veit að missir ykkar er mikill. Við Herbert og stelpurnar vottum ykkur, fjölskyldum ykkar og Henning okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Þú ert ljósið sem lýsir í myrkri

og leiðir mig um lífsins braut.

Stendur stolt, með hendi styrkri

sættir og linar hverja þraut.

Erna Reynisdóttir.

Mín kæra vinkona, Eygerður, er látin. Hennar er sárt saknað eftir hálfrar aldar kynni sem aldrei slitnuðu. Hún var traust vinkona. Það lýsir því best þegar hún kom til mín eftir stóran dag í mínu lífi, þá orðin mjög sjúk, og færði mér gjöf sem verður mér afar kær. Við saumaklúbbsvinkonur Eygerðar söknum hennar mjög, en minningarnar um hana eru perlur.

Þér kæra sendi kveðju, með kvöldstjörnunni blá.

Margrét.