Jón Kjartansson fæddist í Pálmholti í Arnarneshreppi í Eyjafirði 25. maí 1930. Hann lést á heimili sínu 13. desember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Fossvogskirkju 20. desember.

Ég var í Afríku í desember þegar mér barst fregnin um að Jón Kjartansson frá Pálmholti væri dáinn. Þessi fregn kom mér á óvart því rétt áður en ég fór frá Íslandi á leið minni til Afríku, rúmri viku áður, hafði ég verið með Jóni Kjartanssyni í góðra vina hópi á Afríkukvöldi eins og við kölluðum það, heima hjá mér og Rönnu sambýliskonu minni. Ég gladdist yfir því að hafa átt svo indæla stund með Jóni áður en ég lagði upp í ferð mína til Sambíu, en hún tengdist sameiginlegu verkefni okkar húmanista í samtökunum Vinir Afríku. Það var glatt á hjalla hjá okkur þarna um kvöldið og Jón var glaður og reifur að vanda, hann las úr nýútkominni ljóðabók sinni við góðar undirtektir og það var einnig tekin góð rispa á aðalhugðarefni hans; húsnæðismálunum. Ég virti hann stundum fyrir mér þetta kvöld og velti því fyrir mér hvaðan honum kæmi þessi kraftur, þessi eldur sem alltaf logaði í brjósti hans, þessi afdráttarlausa afstaða sem hann tók með manneskjunni í hrjúfum og firrtum heimi. Þessi afstaða hans kom fram í ljóðum hans og störfum. Ef til vill var Jón Kjartansson tímaskekkja, en hvort hann var aldamótamaður einum aldamótum of seint eða hvort hann var framan úr framtíðinni með sýn sinni á betri heim sem enn hefur ekki litið dagsins ljós er ekki gott að segja.

Jón átti frumkvæði að stofnun Leigjendasamtakanna árið 1978 og var lengstan partinn formaður og aðaldriffjöður þeirra samtaka. Það segir sína sögu um hugsjónaeldinn sem knúði Jón að eftir að hann komst á eftirlaun þá vann hann kauplaust fullt starf hjá Leigjendasamtökunum um árabil. Ég átti þess kost að vinna með Jóni Kjartanssyni í Leigjendasamtökunum um nokkurra ára skeið en lengst var þó samstarf okkar í Húmanistahreyfingunni en þar fylgdumst við að óslitið frá árinu 1983 eins og áður sagði. Jón var mér stöðug fyrirmynd og hvatning og ég get sagt að það að kynnast honum hefur gert mig að betri manni. Ég sakna míns góða vinar, en ég gleðst um leið því ég er ekki í neinum vafa um að hann flýgur nú frjáls og glaður til annars tíma. Ég sendi honum allt mitt besta og ég þakka honum samfylgdina.

Ég sendi börnum hans, barnabörnum og fjölskyldu allri mínar dýpstu samúðarkveðjur. Ég veit að þau sakna hans sárt því hann lét sér annt um sitt fólk og börnum þótti gott að vera nálægt honum.

Júlíus Valdimarsson.