Ingi Vigfús Guðmundsson fæddist á Selfossi 28. júlí 1957. Hann andaðist á heimili sínu 16. desember síðastliðinn og fór útför hans fram í kyrrþey.

Þegar ég nú sest niður og ætla að minnast bróður míns Inga Vigfúsar Guðmundssonar, þá grætur hjarta mitt góðan dreng sem allt of snemma féll frá og minningarnar hellast yfir. Þegar þú vars níu mánaða fékkstu heilahimnubólgu sem markaði spor þín upp frá því. En glettni þín, smitandi hláturinn og góða skapið var það sem allir tóku eftir. Þú bræddir hjörtu allra sem kynntust þér. Þegar þú varst 3 ára fluttumst við að Arnarbæli í Ölfusi og það var eins og við fengjum vængi, þú kannski fullstóra því erfitt gat verið að passa þig. Ef þú sást traktor eða bíl á ferð í sveitinni varstu rokinn og þó að ég væri þremur árum eldri en þú, átti ég fullt í fangi með að ná þér. Ég reyndi mikið að smita þig af veiðibakteríu en það tókst ekki sem skyldi, manstu þegar ég lánaði þér nýju veiðistöngina mína? Þú grettir þig bara og hentir henni út í skurð og tókst svo bara sprettinn heim. Ég mátti gjöra svo vel og fara úr öllu og vaða eftir stönginni. Manstu þegar við fórum í feluleik og þú áttir að leita? Þá varstu fljótur að finna okkur, þú söngst bara "kalli kalli kúluhaus" og við sprungum úr hlátri, já þú varst sannarlega með húmorinn í lagi. Við áttum mörg góð ár í Arnarbæli en þaðan fluttir þú á Kópavogshælið þar sem þú varst hrókur alls fagnaðar, síðar fluttir þú á sambýlið að Skagaseli 9 fyrir tveimur árum þar sem þér leið mjög vel, en því miður var það allt of skammur tími. Þú kemur ekki lengur á móti manni með faðminn þinn hlýja og yndislega brosið þitt, maður heyrir ekki alla gullhamrana þína, "bara fínn", "ný peysa", "flottur", "nýklipptur", þú tókst eftir öllum breytingum ef einhverjar voru. Nú verða bíltúrarnir ekki fleiri á kaffihús eða austur fyrir fjall til Valeyjar eða í Fljótshlíðina til Kollu og Unnar, en minningarnar lifa um góðan dreng sem minna mátti sín en allir elskuðu. Og eins og Þóroddur sagði "nú er gleðipinninn í Skagaseli 9 farinn".

Þegar Halldór bróðir hringdi í mig og sagði mér að nú værirðu dáinn var ég nýkominn inn frá því að keyra Ólínu út á flugvöll en hún ætlaði að sitja hjá þér um nóttina en því miður náði hún ekki í tíma en heklaða borðann sem hún lagði á sængina þína, veit ég að þér þótti vænt um.

Elskulega starfsfólk á Kópavogshæli og í Skagaseli 9 hafið Guðs þökk fyrir allt.

Elsku Ingi minn, ég þakka Guði fyrir að hafa átt þig fyrir bróður, það var sannarlega mannbætandi að hafa fengið að kynnast þér. Og nú ertu kominn til pabba og mömmu og Guðna bróður þar sem ég veit að þér líður vel.

Guð geymi þig vinur

Guðmundur.

Á hefðbundinni ævi kynnist hefðbundinn einstaklingur aragrúa af hefðbundnu fólki og öðru eins af óhefðbundnu fólki. Þetta hefð- og óhefðbundna fólk hefur mismikil áhrif á mann og áhrifin eru af öllum toga. Ingi Vigfús Guðmundsson hafði á sinn óhefðbundna hátt alveg sérstaklega góð áhrif á mig. Ég kynntist honum haustið 1996, vann með honum í þrjá mánuði og hef hugsað reglulega til hans síðan þá. Ég er maður sem á til að gleyma nánustu ættingjum en einhverra hluta vegna höfðu þessi stuttu kynni okkar Inga meiri áhrif á mig en ég hafði áður vanist og ég get með sanni sagt að ég mun aldrei gleyma honum. Ég held að það hafi einkum verið þessi óbeislaða lífsgleði hans sem beinlínis þvingaði mig til að sýna lífinu meira þakklæti en ég hafði áður gert. Ég veit að Ingi Vigfús er fullkomlega sáttur þar sem hann er núna og það er huggun harmi gegn að þegar matarbíllinn kemur loks og nær í mig þá fæ ég að hitta aftur fólk eins og Inga Vigfús.

Með saknaðarkveðju

Vernharð Þorleifsson.

"Einstakur" er orð

sem notað er þegar lýsa á

því sem engu öðru er líkt,

faðmlagi

eða sólarlagi

eða manni sem veitir ástúð

með brosi eða vinsemd.

"Einstakur" lýsir fólki

sem stjórnast af rödd síns hjarta

og hefur í huga hjörtu annarra.

"Einstakur" á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir

og hverra skarð verður aldrei fyllt.

"Einstakur" er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez.)

Elsku Ingi Vigfús. Nú ertu sofnaður svefninum langa, elsku yndið mitt ...ég sit í bílnum á leiðinni til Akureyrar til að komast í flug... til að komast til þín...

"Ó vertu alltaf hjá mér, þú mátt aldrei fara frá mér" hljómar í útvarpinu... ooooo elsku Ingi minn hvað á ég að segja? Hvað er hægt að segja... ekkert... það er bara hægt að gráta gráta gráta. Mér finnst lífið ósanngjart! já ósanngjarnt! loksins þegar ég er búin að fá nýja nýrað mitt og farið að líða betur, veikist þú, elsku hjartagullið mitt. Fyrir tveimur árum fluttir þú af Kópavogshæli í Skagaselið, þarna varstu búinn að eignast þitt eigið heimili ásamt sambýlingum þínum. Þú varst svo stoltur og ánægður, lífið lék við þig, Ingi minn.

Ég vildi óska að ég hefði getað tekið þennan ljóta sjúkdóm sem tók sér bólfestu í þér fyrir þig.

Þótt þú værir kominn á fimmtugsaldurinn varstu samt og ert stóra barnið okkar allra. Stóra barnið sem gaf okkur svo mikið og kom með svo mikla hlýju og gleði inn í líf okkar allra. Manstu bílferðina okkar í jeppanum, þegar við vorum að skoða jólaskrautið? Manstu þegar þú varst hjá okkur á aðfangadag? Manstu þegar þú komst til Húsavíkur til að heimsækja ömmu? Manstu þegar þú sagðist vera ástarpungurinn minn? Manstu þegar við sungum hástöfum með Bubba í bílnum?

Manstu, Ingi minn, allar yndislegu stundirnar - ég geymi þær í hjarta mínu.

Hjartanu mínu sem grætur...

Jæja, elsku fallegasti engillinn minn, nú ertu loksins kominn til ömmu, afa og Guðna, amma og afi eru búin að fá litla barnið sitt til sín - litla barnið sem líður núna miklu miklu betur.

Það er sko veisla í himnaríki núna, STÓR veisla og rauða skyrtan Ingi... ha, hún klikkar ekki! - Í hjarta mínu ég geymi allar minningarnar, minningar svo margar og fallegar minningarnar okkar - alltaf.

Elsku Þóroddur, starfsfólk í Skagaseli og sambýlingar Inga, ástarþakkir fyrir frábæra umönnun og ástúð í gegnum tíðina. Ég bið algóðan Guð að vera með ykkur. Ingi minn horfir að ofan og vakir yfir ykkur.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum í trú

á að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)Sofðu rótt, elsku ástarpungurinn minn, þín frænka

Guðný Þóra.