Héðinn Unnsteinsson segir að samvinna allra aðila í geðheilbrigðismálum sé mjög mikilvæg.
Héðinn Unnsteinsson segir að samvinna allra aðila í geðheilbrigðismálum sé mjög mikilvæg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það vakti mikla athygli hve margir fulltrúar komu frá borgaralegu samfélagi á þessa ráðstefnu," segir Héðinn Unnsteinsson, ráðgjafi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), um ráðherraráðstefnu WHO um geðheilbrigðismál sem haldin var í Helsinki í...

Það vakti mikla athygli hve margir fulltrúar komu frá borgaralegu samfélagi á þessa ráðstefnu," segir Héðinn Unnsteinsson, ráðgjafi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), um ráðherraráðstefnu WHO um geðheilbrigðismál sem haldin var í Helsinki í síðustu viku. "Það er ljóst að fulltrúar borgaralegs samfélags settu mikinn svip á hana," bætir hann við. Héðinn hefur unnið að undirbúningi ráðstefnunnar sl. ár. Um fjögur hundruð manns frá 51 Evrópulandi sóttu ráðstefnuna, þar af var 31 heilbrigðisráðherra.

Sjö manna sendinefnd frá Íslandi tók þátt í ráðstefnunni, þeirra á meðal voru Sigurður Guðmundsson landlæknir, Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss og lektor við Háskólann á Akureyri, og Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra.

Undir lok ráðstefnunnar var undirrituð yfirlýsing um geðheilbrigðismál, en henni fylgdi aðgerðaráætlun í þessum málaflokki fyrir Evrópulöndin. Svæðisstjóri WHO í Evrópu og finnski heilbrigðisráðherrann undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd heilbrigðisráðherra Evrópulandanna.

Héðinn segir að rauði þráðurinn í yfirlýsingunni og aðgerðaráætluninni sé samvinna allra aðila, þ.e. borgaralegs samfélags, yfirvalda og fleiri, enda hafi þessir aðilar komið að samningu þeirra. "Þetta er í fyrsta sinn sem svona yfirlýsing og áætlun er ekki bara samin af WHO og ríkisstjórnum heldur einnig af fulltrúum borgaralegs samfélags."

Hann segir einnig athyglisvert hve ólíkar þjóðir hafi komið að yfirlýsingunni og áætluninni, t.d. þjóðir á borð við Túrkmenistan og Úsbekistan.

Áætlun í tólf liðum

Að sögn Héðins er bæði yfirlýsingin og áætlunin byggð upp á tólf meginpunktum. Til dæmis er þar farið inn á mikilvægi þess að efla geðheilbrigði allra, mikilvægi þess að berjast gegn fordómum í garð geðsjúkra, mikilvægi þess að efla forvarnir gegn sjálfsvígum og mikilvægi þess að tryggja aðgang geðsjúkra að heilsugæslunni, svo dæmi séu nefnd. Einnig er þar lögð áhersla á menntun heilbrigðisstarfsfólks og nægjanlegt fjármagn til geðheilbrigðismála. "Tólf prósent allrar sjúkdómabyrði heimsins eru til komin vegna geðsjúkdóma," segir hann, "en aðeins tvö prósent af meðaltali fjármuna til heilbrigðismála fara til geðheilbrigðismála." Hann segir að þetta bil verði að brúa.

Héðinn segir að aðgerðaráætlunin sé hugsuð sem eins konar skapalón fyrir þær þjóðir sem þátt tóku í ráðstefnunni; þær eigi að fara eftir henni þegar geðheilbrigðisstefnan er mótuð. "Hugsunin er ekki; ein stærð á að passa öllum," segir hann enda séu aðstæður mismunandi í hverju landi fyrir sig.

Þegar Héðinn er spurður hvaða þýðingu ráðstefnan hafi þegar allt kemur til alls fyrir Íslendinga segir hann: "Mér fyndist réttast að heilbrigðisráðherra settist niður með þessi tvö plögg, sem heilbrigðisráðherra Finnlands skrifaði undir fyrir hans hönd og allra Evrópuráðherranna, og setti saman geðheilbrigðisstefnu fyrir landið og miðin. Hann ætti þó alls ekki að gera það einn, heldur ætti hann að setja saman breiðan vinnuhóp, ekki bara sérfræðinga, heldur einnig fulltrúa frá borgaralegu samfélagi, frá t.d. Geðhjálp eða öðrum félögum, fulltrúa frá ráðuneytinu, frá landlæknisembættinu, frá verkalýðsfélögunum og samtökum eldri borgara, svo dæmi séu nefnd." Þessi hópur, ítrekar Héðinn, ætti að setja saman geðheilbrigðisstefnu út frá aðgerðaráætluninni sem samþykkt var á ráðstefnunni í Helsinki. "Og það er ekki nóg að setja þessa stefnu heldur verður að hrinda henni í framkvæmd."

Vilji til að fylgja áætluninni eftir

Sigurður Guðmundsson landlæknir efast ekki um að vilji sé til þess hér á landi að fylgja aðgerðaráætluninni eftir. "Ég fullyrði að það er vilji til þess hér á landi," segir hann en bendir þó á að Íslendingar þurfi ekki að sækja eins mikið í hana og ef til vill aðrar þjóðir. Áætlunin sé þó Íslendingum mjög gagnleg. Hann segir hugmyndir uppi um það að efna til ráðstefnu á næstu vikum um geðheilbrigðismál þar sem farið yrði yfir stöðu þeirra hér á landi í ljósi þeirra plagga sem samþykkt voru í Helsinki.

Sigurður lætur vel af ráðstefnunni í Helsinki; segir umræðurnar þar hafa verið afar gagnlegar og góðar. Þar hafi m.a. verið lögð áhersla á að fjórðungur fólks fái einkenni einhvers konar geðrænna vandamála á lífsleiðinni. Tíðni slíkra vandamála sé því ekkert minni en t.d. tíðni kransæðasjúkdóma eða krabbameina. "Og við getum dáið úr geðrænum sjúkdómum eins og hinum sjúkdómunum." Hann segir að menn séu í auknum mæli farnir að átta sig á þessum staðreyndum.

Notendur taka þátt í stefnumótun

Elín Ebba Ásmundsdóttir segir að sér hafi fundist hvað merkilegast að á ráðstefnunni hafi verið viðurkenndur réttur notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og aðstandenda þeirra til að taka þátt í stefnumótun þjónustunnar og þróun. "Þetta er það sem ég hef verið að berjast fyrir í mörg ár," segir hún og leggur áherslu á að notendur og aðstandendur séu með allt aðra sýn og allt aðra nálgun en fagfólk. "Það hefur vantað þessa sýn notenda og aðstandenda þeirra inn í umræðuna og stefnumótunina." Elín Ebba kynnti verkefnið Geðrækt á ráðstefnunni, ásamt Guðrúnu Guðmundsdóttur hjá Geðrækt, og verkefnið Notandi spyr notanda, sem Hugarafl stóð að. Frumkvæði að verkefnunum kom frá notendunum sjálfum.

Elín Ebba segir að margir á ráðstefnunni, einkum notendur, hafi verið hræddir um að niðurstaða ráðstefnunnar yrði bara falleg orð á blaði. Hún segir þó ekki ástæðu til að ætla annað en að farið verði eftir þeim hér á landi. "Mér finnst farvegur vera að skapast til þess hér á landi," segir hún bjartsýn að síðustu.