21. janúar 2005 | Innlendar fréttir | 559 orð

Hefur gefið okkur meira en orð fá lýst

Akureyri. Morgunblaðið.

"UMRÆÐAN er að opnast og það er gott.
"UMRÆÐAN er að opnast og það er gott. Barnsins vegna er betra að tala um hlutina af hreinskilni og það hef ég ákveðið að gera þótt það geti verið óþægilegt fyrir stelpuna mína," segir móðir á Akureyri en hún og eiginmaður hennar hafa ættleitt tvær stúlkur frá Indlandi. Þær eru fjögurra og sex ára gamlar auk þess sem þau eiga einnig 15 ára dóttur. Þau hjónin fengu eldri stúlkuna heim fimm mánaða gamla og þá yngri sex og hálfs mánaða. Eldri stúlkan hefur verið greind með ódæmigerða einhverfu og ofvirkni með athyglisbrest en móðir hennar segir það þó samdóma álit þeirra sem með hana hafa haft að gera að hún sé ekki einhverf, heldur sé hún með svonefnda tengslaröskun.

Tengslaröskun lýsir sér m.a. á þann veg að ættleidd börn eiga í erfiðleikum með að tengjast foreldrum sínum, "að gefa þá skilyrðislausu ást sem börn öllu jöfnu sýna foreldrum sínum". Hún segir þetta hafa komið í ljós strax og heim var komið. "Sá möguleiki hvarflaði aldrei að okkur að hún myndi eiga í vandræðum með að taka á móti allri þeirri ást og umhyggju sem við áttum handa henni." Hún segir telpuna hafa átt erfitt með svefn, oft vakað heilu næturnar og verið mjög kröfuhörð á foreldra sína, vildi hafa stjórn mála á sinni hendi. Þá hafi hún einnig iðulega vaknað upp með martraðir, en ekki þáð snertingu nema þá á sínum forsendum, setti olnbogann á öxl þess sem tók hana upp til að forðast of náið faðmlag. "Hún fór illa í fangi, eins og við sögðum," segir móðir hennar, en þó hafi foreldrunum verið ljóst að hún þráði ást og hlýju en leyfði sér ekki að njóta. Foreldrunum fannst stúlkan því ekki haga sér eins og önnur börn og fóru með hana til barnalæknis. Hann kvað hana vera óþæga og best færi á að hún yrði sett á leikskóla þar sem hún myndi læra að haga sér almennilega.

Áfall að eignast systur

Móðir hennar segir það einnig hafa verið henni áfall að eignast systur, þá hafi hún fengið samkeppni sem hún þoldi illa, ekki verið tilbúin að deila athygli foreldranna með öðrum. Um líkt leyti flutti fjölskyldan til Bretlands og ætlaði að búa þar um tíma vegna starfa eiginmannsins, en það voru mikil mistök, það má segja að við það hafi fótunum verið kippt undan henni, nýtt umhverfi, hús, leikskóli, annað tungumál, allt hafi orðið til þess að barninu leið verulega illa. Dvölin ytra varð því styttri en ætlað var í fyrstu, en þegar heim var komið var strax farið með hana á Barna- og unglingageðdeild, BUGL, "og þar fyrst heyrði ég talað um tengslaröskun," segir móðir stúlkunnar en hún segir fjölskylduna hafa fengið mikla aðstoð hjá Valgerði Baldursdóttur barnalækni. Hún segir að foreldrar ættleiddra barna séu í flestum tilvikum að fá langþráðan draum sinn uppfylltan "og þegar barnið kemur á allt að vera frábært," segir hún, en upplifun margra sé á annan veg.

"Hún er allt annað barn nú en fyrir tveimur árum, þá hefði hún ekki getað sagt okkur að henni þætti vænt um okkur. Nú vefur hún handleggjunum utan um okkur og segir að hún elski okkur. Þetta er frábær stelpa, eldklár og skemmtileg. Hún hefur gefið okkur meira en orð fá lýst og kennt okkur margt. Við erum lánsöm að hafa fengið að eyða lífinu með henni og hefðum aldrei viljað missa af því," segir móðirin.

Akureyri. Morgunblaðið.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.