Í umsögn segir m.a. að það sé "erfitt að vinna leiksigra á sviði í verki þar sem ekki er ljóst hvort maður er staddur í amerískum eða íslenskum veruleika, hvort maður er staddur í sjónvarpsþætti eða leikriti, hvort maður er brandaraspúandi fatafella e
Í umsögn segir m.a. að það sé "erfitt að vinna leiksigra á sviði í verki þar sem ekki er ljóst hvort maður er staddur í amerískum eða íslenskum veruleika, hvort maður er staddur í sjónvarpsþætti eða leikriti, hvort maður er brandaraspúandi fatafella e
Eftir Daniel Guyton. Þýðing: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Leikstjóri: Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Leikmynd og lýsing: Sigurður Kaiser. Búningar: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Tónlistarstjóri: Ásmundur Angantýsson. Hárgreiðsla og förðun: Kristín Thors. Gervi: Helga Lúðvíksdóttir. Leikarar: Friðrik Friðriksson, Gunnar Helgason, Höskuldur Sæmundsson. Loftkastalinn, 22. janúar kl. 20.

ÞAÐ kann að vera að í bandaríska biblíubeltinu miðju - í miðri hræsninni og djöfulskapnum sem þar er hafður í frammi gegn hommum, konum og "kommum" (kommar er hér notað sem samheiti yfir alla þá sem anda frá sér gagnrýni á ríkjandi hugsunarhátt og valdhafa) - og í miðju því hneyksli sem reið yfir bandaríska kaþólikka þegar hver topphúfan af annarri innan kirkjunnar var sökuð um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, hafi svartur húmor einþáttungsins "Ég er ekki hommi!" eftir Daniel Guyton átt einhvern rétt á sér.

Það kann líka að vera að ef menn hefðu í Loftkastalanum leikið einþáttunginn eins og leika á farsa, sem sé hratt, en ekki reynt að teygja hann upp í sýningu í fullri lengd með söngatriðum og ýmiss konar innskotum og staðfærslu - þá hefðu annmarkar og merkingarleysi verksins í íslensku samhengi ekki orðið eins augljósir.

Það kann líka að vera að ég sé alls ekki rétta manneskjan til að fjalla um þetta verk því ég er ekki af South Park- eða Simpson-kynslóðinni. Ég er ekki einu sinni viss um að ég viti hver sú kynslóð er, en einn leikarinn í sýningunni lýsti því yfir að lengi hefði vantað verk fyrir þá kynslóð í íslensku leikhúsi og því meðal annars hafi þetta verk verið valið. Mér er þó minnsta kosti ljóst eftir að hafa séð sýninguna að það er kynslóð sem vill láta ganga fram af sér.

Það er ekkert nýtt í leiklistarsögunni að leikhúsfólk reyni að ganga fram af fólki, allt frá því Aristofanes var og hét hafa Evrópubúar ástundað í alþýðuleikjum að slá um sig með klúrum bröndurum og dónaskap til að hneyksla og fá menn til að hlæja og hugsa. Það hefur hins vegar lítt einkennt íslenskt leikhús gegnum tíðina, frekar að tepruskapurinn hafi verið því fjötur um fót. Það var því með opnum huga sem ég mætti í Loftkastalann á laugardaginn. Og þegar Gunnar Helgason upphóf leikinn sem heftur lítill karlmaður, Garðar, sem efast um kynhneigð sína, þá hélt ég nokkuð lengi að Gunnar myndi þetta kvöld vinna stóran leiksigur. Það gerði hann hins vegar ekki, hvorki í þessu hlutverki né hommans Jörgens. Hann lék þá báða alveg ágætlega svo sem og Friðrik Friðriksson var líka ágætur í hlutverki íþróttafríksins, lögreglumannsins og hommans Markúsar, sem verður fyrir stöðugu áreiti frá Garðari, en það er erfitt að vinna leiksigra á sviði í verki þar sem ekki er ljóst hvort maður er staddur í bandarískum eða íslenskum veruleika, hvort maður er staddur í sjónvarpsþætti eða leikriti, hvort maður er brandaraspúandi fatafella eða leikari.

Og það er líka erfitt að vera áhorfandi og hafa gaman af bröndurum, og þeir eru margir í þessu verki, en vita loks ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta. Því hér er verið að plata áhorfandann undir því yfirskyni að höfundur sé algjörlega fordómalaus gagnvart hommum. Plata fólk til að hlæja að tíu ára gömlu barni sem leikur annað tíu ára gamalt barn sem fannst bara allt í lagi að láta beita sig kynferðislegu ofbeldi! Plata fólk til að hlæja að offitusjúklingum. Og plata fólk til að hlæja að hommum í því niðurlægjandi hlutverki sem konur alla jafna taka að sér í afþreyingarklámiðnaðinum.

María Kristjánsdóttir