Úr sýningunni Ég er ekki hommi! í Loftkastalanum.
Úr sýningunni Ég er ekki hommi! í Loftkastalanum.
MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá aðstandendum sýningarinnar Ég er ekki hommi! í Loftkastalanum: "Við sem stöndum að sýningunni Ég er ekki hommi!

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá aðstandendum sýningarinnar Ég er ekki hommi! í Loftkastalanum:

"Við sem stöndum að sýningunni Ég er ekki hommi! í Loftkastalanum viljum leiðrétta þá kolröngu staðhæfingu Maríu Kristjánsdóttur, gagnrýnanda Morgunblaðsins, að við séum að "plata fólk til að hlæja að tíu ára gömlu barni sem leikur annað tíu ára gamalt barn sem fannst bara allt í lagi að láta beita sig kynferðislegu ofbeldi!" eins og birtist orðrétt í Morgunblaðinu hinn 24. janúar síðastliðinn.

Fyrst og fremst viljum við lýsa yfir undrun okkar á þeim vinnubrögðum sem gagnrýnandi Morgunblaðsins viðhefur. Sú staðhæfing að leikarinn ungi sé tíu ára gamalt barn er algerlega röng; leikarinn sem um ræðir er í raun fjórtán ára gamall unglingur. Þessu hefði verið hægt að fletta upp í þjóðskrá eða hreinlega spyrja aðstandendur sýningarinnar að áður en gagnrýnin var birt. Við hefðum aldrei látið tíu ára gamalt barn fara með þetta hlutverk. Við hefðum ekki einu sinni látið tólf ára gamalt barn fara með þetta hlutverk. Hinsvegar fannst okkur táningur í gagnfræðaskóla betur í stakk búinn hvað varðar aldur og þroska fyrir hlutverk af þessu tagi. Við vitum ekki hvaðan gagnrýnandinn fékk upplýsingar um aldur leikarans sem um ræðir, því þær eru blátt áfram rangar.

Auk heldur segir í gagnrýninni að barninu í sýningunni "finnist allt í lagi að láta beita sig kynferðislegu ofbeldi". Þetta er að okkar mati gróf mistúlkun. Drengurinn Tommi, sem leikarinn ungi túlkar í verkinu, veit hreinlega ekki betur. Líkt og svo mörg börn í raunveruleikanum, hefur Tommi ekki hlotið fræðslu um hvað það er að vera kynferðislega misnotaður og gerir sér þar af leiðandi ekki grein fyrir því að það er rangt. Eins og Tommi segir sjálfur í leikritinu, þá telur hann að misindismaðurinn "hafi kennt sér fullt af sniðugum hlutum". Harmleikurinn liggur í fáfræði barnsins, bæði í verkinu sem og í mörgum raunverulegum tilfellum um barnamisnotkun.

Við, aðstandendur sýningarinnar, vorum í framhaldi af villunni sem gagnrýnandi Morgunblaðsins fór með, spurð af blaðamönnum hvort við hefðum útskýrt fyrir leikaranum unga um hvað þátttaka hans í sýningunni snerist. Svarið er: Að sjálfsögðu. Með því að ræða við börn á opinskáan hátt um kynferðislega misnotkun gerum við barnaníðingum erfiðara fyrir að blekkja börn og misnota. Að okkar mati hefðu öll börn gott af fræðslu um þessi málefni, því það eykur þeirra eigið öryggi. Síðast en ekki síst kom leikarinn ungi okkur á óvart með eigin vitneskju um kynferðislega misnotkun, og má þar nefna hneykslismál innan kaþólsku kirkjunnar í Ameríku. Þessar upplýsingar hafði hann sjálfur viðað að sér í fjölmiðlum á borð við Morgunblaðið.

Við lítum á það alvarlegum augum að vera ásökuð um að nota barn í sýningunni sem ekki hefur aldur eða þroska til að skilja um hvað ræðir. Strangt tólf ára aldurstakmark er á sýninguna, og hefur leikarinn ungi náð þeim aldri og gott betur. Þessu hefði auðveldlega mátt komast að áður en málið var haft í flimtingum á síðum Morgunblaðsins.

Í framhaldi hvetjum við fólk til að koma á sýninguna, og fullvissum alla um að það var hvorki takmark höfundarins né nokkurs aðstandanda að gera lítið úr þeim málefnum sem þar eru sett á svið, hvorki hvað varðar kynferðislegt ofbeldi né málefni minnihlutahópa.

Virðingarfyllst, fyrir hönd aðstandenda sýningarinnar Ég er ekki hommi! í Loftkastalanum, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir þýðandi verksins."