— Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimildarmynd um Gerði Helgadóttur myndhöggvara eftir Andrés Indriðason. RÚV 2005.

ÞAU eru mörg verkin sem listakonan Gerður Helgadóttir skildi eftir sig og bera list hennar frábært vitni. Ég held að óhætt sé að fullyrða að varla nokkur annar íslenskur listamaður hafi áorkað eins miklu á sinni starfsævi og hún gerði, þó ævi hennar hafi verið allt of stutt. Það er alltaf afar ánægjulegt þegar gert er sjónvarpsefni um íslenska myndlistarmenn en myndlistin er auðvitað upplögð til slíks. Það segir sig sjálft að sjónvarpið hlýtur að vera sá fjölmiðill sem getur gert hvað mest til þess að opna myndlistinni dyr út í samfélagið og þyrfti tæpast mikið til, enda er áhugi almennings á myndlist mikill á Íslandi.

Hvernig standa skal að gerð efnis um myndlist eða myndlistarmenn er síðan annað mál og sýnist þar sitt hverjum. Þó hlýtur að skipta miklu máli að gæða viðfangsefnið lífi, nýta sér möguleika miðilsins. Þetta getur verið miklum vandkvæðum bundið þegar myndefni er af skornum skammti, ekki síst þegar um er að ræða, eins og í þessu tilfelli, heimildarmynd um listakonu sem fallin er frá fyrir þremur áratugum.

Andrés Indriðason hefur unnið myndina um Gerði af mikilli vandvirkni og í henni er gefin ítarleg og raunsönn mynd af verkum hennar og þróun þeirra. Einnig er leitast við að veita áhorfandanum innsýn í listaumhverfi staðar og stundar á ferli Gerðar og tekst það mjög vel, allt frá námi hennar hér heima til síðustu stundar. Sagt er ítarlega frá allmörgum verkefnum hennar og ekki laust við að maður taki andköf þegar umfangi þeirra og vinnuferli er lýst, td. þegar sagt er frá 142 fermetrum á Tollhúsinu og þremur tonnum af mósaíkflísum - hver um sig u.þ.b. einn fersentimetri að stærð.

Verk Gerðar voru nær undantekningarlaust þrekvirki, andlega og líkamlega, og augljóst að hún gaf aldrei eftir. Heimildarmyndin beinir sjónum sínum fyrst og fremst að list Gerðar, en einkalíf hennar er í bakgrunni. Myndin er nokkuð löng og ekki laust við að hún beri keim af nokkurri upptalningu þegar líða tekur á og kirkjugluggunum fjölgar. Ef til vill hefði verið í lagi að leyfa sér örlítið léttari nálgun við viðfangsefnið og viðmælendur hefðu að ósekju mátt tala blaðalaust en hinir flugmælsku og skemmtilegu listfræðingar Guðbjörg Kristjánsdóttir og Halldór Björn Runólfsson voru hér nær óþekkjanleg er þau lásu upp texta sína. Elín Pálmadóttir náði einna helst að gæða Gerði lífi, enda sagði hún frá lífi hennar sem náin vinkona. Í myndinni er minnst einni setningu á andlegan lærimeistara Gerðar Helgadóttur, George Ivanovitch Gurdjeff, en Gerður aðhylltist kenningar hans og lagði stund á fræði hans. Gurdjeff hélt því fram að óeðlilegar kringumstæður nútímalífs væru þess valdandi að líf okkar væri ekki lengur í jafnvægi. Hann sagði að til þess að öðlast jafnvægi ættum við að þróa með okkur nýja hæfileika - eða virkja dulda hæfileika - með því að "vinna" með okkur sjálf. Hann setti kenningar sínar fram á þrennan hátt, í skrifum sínum, í tónlist og hreyfingum sem tengjast hugsun okkar, tilfinningum og líkama. Gerður lagði stund á þessar hreyfingar a.m.k. um tíma. Forvitnilegt hefði verið að fá að vita meira um þessa andlegu hlið listakonunnar en hún var augljóslega mjög andlega sinnuð. Myndin er eiginlega of vandvirknislega unnin og frjálslegri efnistök hefðu ef til vill náð að grípa áhorfandann fastari tökum, í samræmi við list Gerðar.

Ég get of auðveldlega séð þessa mynd fyrir mér rúllandi sem fræðsluefni unnið fyrir Gerðarsafn, hún er bæði fræðandi og upplýsandi eins og vera ber en skortir dálítið á lífskraftinn sem áhorfandinn nær þó að geta sér til um að hafi einkennt Gerði og líf hennar. En ekki má gleyma því að myndin gefur fróðlega og glögga mynd af ævistarfi Gerðar og er þar að öllum líkindum takmarkinu að mestu leyti náð.

Ragna Sigurðardóttir