Staða kvenna á vinnumarkaði "Margir virðast eiga erfitt með að horfast í augu við að kyn skipti máli, samt telur meirihluti þjóðarinnar að staða karla sé almennt betri en staða kvenna á íslenskum vinnumarkaði." Verk á sýningu Valgerðar Guðlaugsdó
Staða kvenna á vinnumarkaði "Margir virðast eiga erfitt með að horfast í augu við að kyn skipti máli, samt telur meirihluti þjóðarinnar að staða karla sé almennt betri en staða kvenna á íslenskum vinnumarkaði." Verk á sýningu Valgerðar Guðlaugsdó — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skiptir kyn máli í stjórnmálum og viðskiptum - eða ekki? Jafnréttismál voru ofarlega á baugi árið 2004 og tókust kynin töluvert á. Hér er snert á helstu álitamálum ársins og spurt m.a. hvort kyn skipti máli í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum og hvers vegna völdin lendi oftast karlamegin. Í greininni er því haldið fram að á árinu hafi "sérstökum aðgerðum" verið beitt til að bola konum burt og koma körlum að.

Völd voru eftirsótt verðmæti árið 2004 eins og öll önnur ár í mannkynssögunni, og í þeirri viðleitni að halda völdum og tryggja sér völd virðist kyn vega ansi þungt. Skál karlanna er a.m.k. þung á voginni, reyndar svo þung að hún situr á föst borðinu, en skál kvenna svífur sem endranær létt í loftinu. Núna á þessu afmælisári íslenskrar jafnréttisbaráttu, en 90 ár eru frá því að konur öðluðust kosningarétt, 1915, langar mig til að renna huganum yfir síðastliðið ár, kanna hvað skýtur upp kollinum í viðureign kynjanna hér á landi, og greina umræðuna.

Þeir sem hafa völdin, og margir aðrir, eru oft tregir til að viðurkenna að kyn skipti máli og halda því iðulega fram að það séu aðrir þættir sem skipti meira máli eins og áhugi, aldur, hæfni, gáfur, þrautseigja, þekking, frumkvæði, búseta, reynsla, útlit og hvaðeina annað svo lengi sem það er ekki kyn. Svo lítið var gert úr kyni sem áhrifaþætti á liðnu ári að því var jafnvel líkt við álíka þætti og að vera sköllóttur. Heiðrún Lind Marteinsdóttir pistlahöfundur skrifaði t.d. í vefritið Tíkin.is: "Einstaklingur á ávallt að vera metinn út frá verðleikum sínum, en ekki þeim þjóðfélagshópum sem hann tilheyrir, hvort sem um er að ræða konu eða karl, svartan eða hvítan, rauðhærðan eða sköllóttan" (11.08.04). Heiðrún notar því sömu mælistiku á kyn, húðlit, háralit og hárleysi, og kemur ekki auga á kynjaskekkjuna í samfélaginu. 1

En ef kyn skiptir ekki máli, þá er nokkuð augljóst að karlmenn eru marfalt hæfileikaríkari en konur. Líkindareikningur sýnir að gæði jarðar, ríkidæmi og völd myndu dreifast jafnt á milli kynjanna ef kyn væri ekki áhrifaþáttur. Skýrsla Hagstofunnar, Konur og karlar 2004, opinberaði áhrif kynsins með eftirminnilegum hætti: "Konur eru í minnihluta í áhrifastöðum næstum hvert sem litið er. Þær eru tæpur þriðjungur þingmanna og sveitarstjórnarmanna, fjórðungur ráðherra og tæplega fimmtungur framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Þá eru konur 29% þeirra sem sitja í opinberum nefndum og ráðum ríkisins og um fimmtungur forstöðumanna ríkisstofnana. Konur koma lítt við sögu við stjórnun samtaka atvinnulífsins og helstu fyrirtækja á markaði, og stjórnir launþegasamtaka endurspegla almennt ekki þá kynjaskiptingu sem er meðal félagsmanna." (bls. 1.). 2

Ef kyn skiptir ekki máli, þá voru konur nánast vanhæfar í viðskiptalífinu árið 2004, því í riti Hagstofunnar stendur: "Í Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands eru 15 félög. Í júní 2004 voru 87 manns í stjórnum þessara félaga, 85 karlar og tvær konur sem svarar til 2,3% stjórnarmanna." (bls. 68). Konur eru a.m.k. ekki eftirsóttar í stjórnir fyrirtækja, og hljóta því að teljast fremur léttvæg auðlind í augum þeirra sem stjórna viðskiptalífinu, eða hvernig á að skilja útilokun þeirra frá peningum og völdum á annan hátt? Eignakarlar og viðskiptamenn virðast meta konur einskis eftir þessari tölu að dæma: 2,3%. Þeir sem vilja ekki hækka þetta hlutfall, vilja heldur ekki viðurkenna að kyn skipti máli.

Óbreytt hlutfall í Hæstarétti

Svo virðist sem ekki megi grípa til neinna aðgerða til að leiðrétta kynjaskekkjuna á valdasviði samfélagsins, a.m.k. ekki í stjórnmálum. "Það hlýtur líka að vera takmark okkar allra að ekki þurfi að koma til neinna sérstakra aðgerða til að tryggja jafnrétti í samfélaginu. Það verði einfaldlega sjálfsagt og engin þörf á að ræða það sérstaklega," skrifaði Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar, þá utanríkisráðherra í Morgunblaðið 22. maí 2004. 3 Sérstakar ráðstafanir hafa þó verið gerðar til að tryggja hlut karla í jafnréttisráði, því einu kynjakvótarnir sem skráðir eru í lög á Íslandi falla undir þau svið þar sem konur eru oft í meirihluta. Í lögum um jafnréttisráð stendur í 7. grein jafnréttislaga: "Tilnefningaraðilar skulu tilnefna einn karl og eina konu til setu í Jafnréttisráði." Þetta er sannkallaður karlakvóti. 4

Enda var ekki gripið til neinna sérstakra ráðstafana til að bæta hlut kvenna í Hæstarétti árið 2004 fremur en 2003, en aðeins tveir af níu dómurum við Hæstarétt eru konur. Þegar konur sækja um embætti í þann háa rétt, er ekki einu sinni mælt með þeim sterklega þótt þær séu jafnhæfir ef ekki hæfari umsækjendur en þeir sem settir eru efst á óskalistann eða þeir sem eru skipaðir. Jafnréttislög og stjórnsýslulög eru jafnvel brotin til að koma heppilegasta eða hæfasta karlinum í embættið eða karli með tiltekna sérþekkingu eða reynslu. Gengið var fram hjá konu árið 2003 og 2004 við skipun í Hæstarétt, því hvorki hæfnisnefnd Hæstaréttar sjálfs né Björn Bjarnason dómsmálaráðherra eða Geir H. Haarde töldu það ómaksins vert að jafna hlut kynjanna í Hæstarétti með því að meta starfskrafta Hjördísar Hákonardóttur hrl., sem sótti um embættið, að verðleikum. Miklar umræður spunnust um þetta mál á árinu og gerðu bæði umboðsmaður Alþingis og kærunefnd jafnréttismála alvarlegar athugasemdir við skipunina 2003. Frægasta setningin í því máli var að jafnréttislög væru barn síns tíma (Morgunlaðið, 7. apríl 2004), höfð eftir Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. 5 Segja má með fullum rétti að "sérstökum aðgerðum" hafi verið beitt til að skipa karlana Ólaf Börk Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson í Hæstarétt, því hvorugur var talinn heppilegastur í umsögn Hæstaréttar og í báðum tilfellum hefði átt að skipa Hjördísi samkvæmt jafnréttislögum.

Karlanefndir ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin stendur nú fyrir átaki til að jafna hlut kynjanna í nefndum á vegum hins opinbera, en ný jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára var samþykkt einróma á Alþingi Íslendinga á árinu. Hutfall kynjanna er einnig fremur slæmt í ráðuneytum eftir samantekt Hagstofunnar að dæma en er það misslæmt, t.d. er staða kvenna í þremur ráðuneytum afleit. Af æðstu embættismönnum þar eru þær aðeins 10% í samgönguráðuneytinu og 14% í landbúnaðarráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu. Oft er hlutfallið 30% konur 70% karlar í nefndum og ráðum. Samt vilja ráðamenn alls ekki setja kvóta til að jafna hlut kynjanna, aðeins er sagt að ávallt skuli á það minnt að í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera ættu að sitja jafnmargir karlar og konur, þannig er það a.m.k. orðað í jafnréttislögunum. 6

Þrjár slíkar nefndir urðu víðfrægar á árinu og var engin kona í þeim þrátt fyrir áminninguna í jafnréttislögum og jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar. Fyrst ber að nefna fjölmiðlanefndina sem gerði úttekt á fjölmiðlamálum og skrifaði um það skýrslu, í nefndinni sat engin kona, aðeins Davíð Þór Björgvinsson prófessor, Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, Guðmundur Heiðar Frímannsson, deildarforseti kennaradeildar Háskólans á Akureyri, og Pétur Gunnarsson, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins.

Þetta var vægast sagt mjög þýðingarmikil nefnd sem fjallaði um hvort setja ætti lög um eignarhald fjölmiðla. Þetta mál varðaði þjóðina alla, almannaheill og tjáningarfrelsið, en þó var ekki talið mikilvægt að hafa fulltrúa beggja kynja í nefndinni. Þar sem fjórir karlar koma saman til að ráða ráðum sínum, hvarflar ekki að þeim að eitthvert sjónarmið skorti, enginn holur rómur, þeir sakna einkis. En ef kyn skiptir engu máli, hvers vegna var þá engin kona í nefndinni?

Nefnd fullskipuð körlum virðist vera svo ákaflega heppileg eining að formenn stjórnarflokkanna settu aðra karlanefnd á fót. Þeir skipuðu starfshóp lögmanna til að undirbúa lagasetningu um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Þeir skipuðu fjóra karla í nefndina og einn karl til viðbótar til að aðstoða þá. Þjóðaratkvæðagreiðsla hlýtur að varða bæði kynin, því konur fengu kosningarétt fyrir 90 árum og teljast þær á hátíðarstundum vera helmingur þjóðarinnar, ennfremur kjósa fleiri konur en karlar í almennum kosningum. Hefði ekki verið rökrétt að skipa tvær konur í nefndina og tvo karla til að endurspegla þessa tvo meginþætti og höfuðeinkenni þjóðarinnar? Hvers vegna er þessi oftrú á lögmönnum, hefði ekki verið kjörið að skipa t.d. stjórnmálafræðing í nefndina, sagnfræðing eða iðnaðarmann?

Karlarnir í þessari nefnd voru Karl Axelsson, hrl. og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og hæstaréttarlögmennirnir Andri Árnason, Jón Sveinsson og Kristinn Hallgrímsson, auk Kristjáns Andra Stefánssonar, deildarstjóra í forsætisráðuneytinu. Aftur fjórir karlar og einn aðstoðarkarl. Einsleitnin sýnir að kyn virðist vega þungt, þetta nær út fyrir allan líkindareikning. Slík karllæg nefndarskipan er að mínu mati líkleg til að viðhalda völdunum karlamegin, því í þessari skipan felst ákveðin virðing, viðurkenning og ávísun á völd. Skipan í slíka nefnd getur leitt til þess að viðkomandi verði skipaður í fleiri nefndir og öðlist meiri áhrif og aðgang að völdum, auk ágætra nefndarlauna. Útilokun kvenna í áhrifamiklum nefndum er engin tilviljun.

Þriðja fræga karlanefndin er framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins og hana starfrækir fjármálaráðuneytið. Í hana voru fjórir karlar skipaðir og engin kona, þrátt fyrir framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um "Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum" frá 28. maí. 7 Í nefndinni eru Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri, Halldór Árnason, skrifstofustjóri, Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri og Gísli Þ. Magnússon, deildarstjóri. Starfsmaður nefndarinnar er einnig karl og heitir Arnar Þór Másson, stjórnmálafræðingur, gaman hjá þeim. Fjögurra karla nefndir eru því mjög vinsælar með fimmta karlinum til aðstoðar. Ef kyn skiptir engu máli, hvers vegna eru þá aðeins karlar og engar konur í nefndunum? Erla Hulda Halldórsdóttir skrifaði um þessa nefndaskipan og sagði t.d.: "Auðvitað skiptir kyn máli. Kyn er grundvallarbreyta í samfélaginu og það skiptir okkur öll máli, konur og karla, að bæði kyn komi að stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu." 8 Einmitt af þeim sökum eru einungis karlar skipaðir.

Sigrar og ósigrar

Kynin sitja greinilega ekki við sama borð í samfélaginu, því í skýrslu Hagstofunnar kemur t.d. fram að tekjur kvenna eru aðeins tæp 62% af tekjum karla (bls. 45). Þetta sýnir að það er ekki nóg að eyða lagalegum hindrunum fyrir jafnrétti, því þá á eftir að glíma við duldar tilhneigingar til að útiloka konur frá völdum. Dr. Nasrin Shahinpoor sem flutti erindi hér á árinu ráðlagði fólki eindregið frá því að taka mark á orðum valdamanna, aðeins á verkum þeirra; að lesa í verkin. Það er afar snjöll og gagnleg ráðlegging. 9

"Hvað er málið? Þurfa karlar, sem standa vörð um valdið í óbreyttri mynd, ef til vill hjálp?" spurði Malin Rönnblom sem einnig hélt hér erindi á liðnu ári um þessa tregðu karla til að dreifa völdunum. "Ekki dugar að sannfæra þá um að víkja sæti í nafni réttlætisins, það hefur verið reynt," sagði hún og nefndi þá leið að telja körlum trú um að jafngildi kynjanna í stjórnmálum sé efnahagslega hagkvæmt. Hvort sem það er fær leið eða ekki, er staðreyndin sú, að þeir karlar sem sniðganga sjónarmið kvenna í stjórnmálum, fyrirtækjum og í vísindum leggja ekki stund á jafnrétti, jafnvel þótt þeir segist gera það. Það er málið! 1 0

"Jafnréttismálin byggjast á langtímamarkmiðum og sífelldri vinnu en ekki átaksverkefnum," skrifaði Árni Magnússon félags- og jafnréttismálaráðherra í Morgunblaðið 24. september 2004 í tilefni af 30 ára afmæli norræns samstarfs á sviði jafnréttismála, en af því tilefni efndu jafnréttisráðherrar Norðurlandanna til sérstaks hátíðarfundar í Borgarleikhúsinu. Árni skipaði konu í embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytis. Það er Ragnhildur Arnljótsdóttir og sagði hún í viðtali við Morgunblaðið 12. september: "Mér finnst ánægjulegt að sífellt fleiri konur skuli sækja fram og verða áberandi í umræðunni." 1 0 Þær sækja vissulega fram, en fæstar fá það sem þær vilja, sökum mikilla "hæfileika" karlanna og mikilvægrar"sérþekkingar".

Kona tók við embætti menntamálaráðherra 1. janúar 2004, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og var því fagnað, en aftur á móti urðu nokkrar sviptingar þegar Siv Friðleifsdóttir þurfti að hverfa úr ráðherraliði Framsóknarflokksins 15. september 2004. Siv hefur reynslu og er með flest atkvæði á bak við sig samanborið við aðra þingmenn flokksins þegar atkvæðamagni kjördæma er skipt niður á þingmenn þeirra, svo það þurfti "sérstakar aðgerðir" til að koma henni frá. Flestar framsóknarkonur voru óánægðar með brottvikningu Sivjar. "Okkur er alveg nóg boðið," sagði Hildur Helga Gísladóttir, formaður Félags framsóknarkvenna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, í samtali við Morgunblaðið 23. ágúst af þessu tilefni, en Hildur var ein af 40 framsóknarkonum sem skoruðu á þingflokk Framsóknarflokksins að virða eigin lög um jafnrétti og standa undir "væntingum kjósenda" við val á ráðherrum þegar Framsóknarflokkurinn tæki við forsæti í ríkisstjórn. Konum fækkaði þó ekki í ríkisstjórninni, því Sigríður Anna Þórðardóttir varð umhverfisráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Siv varð aftur óbreyttur þingmaður, hinsvegar er körlum sem víkja úr ráðherrastólum iðulega boðið eitthvað bitastætt í staðinn eins og í seðlabankastjórastöðu (Finnur Ingólfsson) eða sendiherrastöðu (Tómas Ingi Olrich).

Reykjavíkurborg lét aftur á móti verkin tala í jafnréttismálum, og eftir að Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð borgarstjóri 1. desember skipa konur 10 af 14 æðstu stöðum innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar. Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum var mjög öflug á árinu og hélt ráðstefnur, málþing og stóð fyrir fyrirlestrum og erindum allt árið, t.d. "Möguleikar karlmennskunnar: karlmennskur í fortíð, nútíð og framtíð" í mars 2004 og forsætisráðuneytið stóð fyrir þremur málþingum um jafnrétti í tilefni af afmæli heimastjórnarinnar, t.d. "Hvar er jafnréttið?" í mars 2004. Feministafélag Íslands var vakandi á verðinum allt árið með ýmsar uppákomur og harða gagnrýni, einnig Kvennréttindafélag Íslands, sem brýndi t.d. ríkisstjórn Íslands til að jafna hlut kynjanna í æðstu stjórnarstöðum þjóðarinnar, og gaf út ársrit sitt 19. júní.

Konur og fjölmiðlar

Í rannsókn sem Þorgerður Þorvaldsdóttur, kynja- og sagnfræðingur í Reykjavíkurakademíunni, gerði á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum og birti í janúar 2004 kom fram að verulegur munur var á þátttöku karla og kvenna í umræðuþáttum í ljósvakamiðlum í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2003. Þannig voru konur aðeins 24% þeirra sem tóku þátt í umræðuþáttum í sjónvarpi á móti 76% körlum. "Fjarvera kvenna í pólitískum umræðuþáttum, bæði sem þátttakendur og stjórnendur, gerir það að verkum að þeir ná ekki að endurspegla á trúverðugan hátt þá þjóð sem í landinu býr, og jafnrétti í víðasta skilningi nær ekki að vera eðlilegur hluti af hinni pólitísku orðræðu," sagði hún í samtali við Morgunblaðið í janúar. 1 2 Æskilegt er að fleiri konur yrðu þáttastjórnendur eins og t.d. Katrín Jakobsdóttir í Sunnudagsþættinum á Skjá einum.

Karlar halda reyndar um stjórnartaumana á fjölmiðlum. Sú óvenjulega staða var þó á árinu að fréttastjórar beggja fréttastofa sjónvarps, RÚV og Stöðvar 2 voru konur, Elín Hirst og Sigríður Árnadóttir. Sigríði var að vísu sagt fyrirvaralaust upp störfum á Stöð 2 núna á fyrsta mánuði afmælisársins. Enginn skilur ástæðuna, því í tíð Sigríðar jókst áhorf á fréttirnar sem var markmiðið. "Nú eru komnir nýir herrar þarna við stjórnvölinn," sagði Sigríður við fjölmiðla í tilefni af uppsögninni og má segja að "sérstökum aðgerðum" hafi verið beitt til að koma henni frá. U.þ.b. 34% félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna eru konur. Konurnar voru 191 og karlarnir 371 árið 2003.

Kennaraverkfallið sem jafnréttisbarátta

Í ljós kom á árinu að meirihluti Íslendinga er þeirrar skoðunar að staða karla sé almennt betri en staða kvenna í íslensku samfélagi í dag. 91% kvenna og 76% karla eru þessarar skoðunar samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar um jafnréttismál, sem kynntar voru á málþingi um viðhorf til jafnréttismála sem fram fór í Háskóla Íslands. Könnunin var unnin af Gallup fyrir Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og fleiri aðila. Þessi niðurstaða bendir sterklega til þess að þjóðin telji að þegar allt komi til alls skipti kyn verulegu máli. Valda(karl)kynið á Íslandi "bætti" nefnilega hlut sinn á helstu vígstöðvum á fyrsta tug þessarar aldar miðað við tíunda tuginn á öldinni, samkvæmt skýrslu Hagstofunnar. Skekkjan væri ekki svona áberandi ef kyn væri áhrifalaus þáttur, skekkjan er einmitt til staðar vegna þess að kyn vegur þungt í "baráttunni" um völdin.

Jafnréttisbaráttan birtist í kennaraverkfallinu árið 2004, því samkvæmt skilgreiningu er sú stétt þar sem annað kynið fer yfir 60% kennd við það kyn. Konur eru 80% grunnskólakennara (Konur og karlar 2004, bls. 32). Þessu er öfugt farið hjá viðsemjendum þeirra, því karlar eru 70% sveitarstjórnarmanna. Bæjarstjórar, sveitarstjórar og oddvitar sveitarfélaga eru 82% skipaðir karlar og teljast því karlastétt. Það var stál í stál í deilunni, karlastétt gegn kvennastétt. Karlar eins og Gunnar I. Birgisson, sveitarstjórnarmaður og formaður menntamálanefndar Alþingis, og Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, virtust eiga erfitt með að horfast í augu við þessa kvennauppreisn sem verkfallið var og vildu kveða hana niður. "Það var hörmulegt að íslensk sveitarfélög skyldu rata í þessa ógæfu," sagði Einar Oddur á þingi um kennarasamninginn. Báðir töldu mikinn voða á ferðum í efnahagsmálum vegna kröfugerðar kennara, og þeir höfðu ekki vilja til að meta grunnskólakennarastarfið sem raunverulegt starf. Samningurinn var þó ekki talinn neitt sérstaklega góður og alls enginn sigur.

Kennarasamningar voru í raun ágætt tækifæri til að að draga úr kynbundnum launamun, en það er markmið sem hefur verið sett á oddinn, og er í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar 2004-2008. En eins og svo oft áður, þá fylgja verkin ekki alltaf í kjölfar fagurra orða á blaði, sennilega vegna þess að kyn skiptir máli.

Kvennaknattspyrnan og verðlaunafé

Kyn skiptir líka máli í boltanum. Fréttir bárust af því að Íslandsmeistarar kvenna í knattspyrnu fengju aðeins einn fimmta þeirrar upphæðar í verðlaunafé sem Íslandsmeistarar karla fá, og var það m.a. sterklega gagnrýnt í ritstjórnargrein Morgunblaðins 16. maí. Helena Ólafsdóttir, þá landsliðsþjálfari kvennaliðsins í knattspyrnu, lenti síðan upp á kant við forystu Knattspyrnusambands Íslands þegar hún gagnrýndi skiptingu þessa verðlaunafjár í Landsbankadeildum karla og kvenna í Kastljósþætti 2. júní. Síðar sagði hún: "Ég sé ekki eftir neinu en það má kannski leiða að því líkur að ég væri í annarri stöðu í dag ef ég hefði þagað og verið þæg," sagði Helena í samtali við DV og bætti við að fljótlega eftir þessa uppákomu hefði hún skynjað ákveðna kúvendingu í samskiptum hennar við forystuna. "Menn hættu að heilsa mér og nánast sniðgengu mig. Það sem ég gerði var þeim ekki að skapi og þeir létu mig svo sannarlega finna fyrir því." 1 3

"Það er alfarið ákvörðun KSÍ og aðildarfélaga hvernig verðlaunaféð skiptist og kemur Landsbanki Íslands eða VISA Ísland þar hvergi nærri," sagði í fréttatilkynningu frá KSÍ í kjölfar gagnrýni Helenu. Hún tapaði embættinu sem landsliðsþjálfari en Landsbankinn knúði KSÍ þó til að leiðrétta þessa alvarlegu misskiptingu fjár og varð það gert 20. júní 2004. Þetta dæmi sýnir að það þarf hugrekki til að gagnrýna yfirmenn sína, og það virðist krefjast fórna eins og Helena varð að færa. Hugrökk, gagnrýnin kona á ekki upp á pallborðið. 1 4

Félagslegt óréttlæti

Margir virðast eiga erfitt með að horfast í augu við að kyn skipti máli, samt telur meirihluti þjóðarinnar að staða karla sé almennt betri en staða kvenna á íslenskum vinnumarkaði. Í könnun um jafnréttismál á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ í samstarfi við IMG Gallup og fleiri aðila kom í ljós að 88% kvenna telja að karlar hafi hærri laun en konur með sambærilega menntun, en þó telja aðeins 19% kvenna að kynferði sitt sé hindrun í launamálum í sínu núverandi starfi. 75% kvenna telur að karlar hafi meiri möguleika á vinnumarkaði en konur, en aðeins 4% þeirra telur kynferði sitt vera hindrun varðandi starfsframa í núverandi starfi. Flestir virðast því blindir á misréttið sem bitnar á þeim sjálfum, og telja það vera hjá öðrum. 1 5

Í viðtali við dr. Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur, lektor og náms- og starfsráðgjafa, í tímaritinu 19. júní 2004 kom fram nýr skýringarþáttur á launamisrétti kynjanna. Greining sem Guðbjörg gerði á hugmyndum stúlkna og drengja um störf sýndi að þau hugsa ekki eins um þessi mál. Athygli vakti að drengir nota mun víðari tekjuskala þegar þeir leggja mat á starfstekjur. Drengir gera ráð fyrir mun hærri tekjum en stúlkur og svo virðist sem stúlkur "sjái" beinlínis ekki efstu stig launaskalans. Strákarnir spyrja um launin, en stúlkurnar um virðingu starfsins. Þessi greining gæti reynst vel í þeirri viðleitni í uppeldi barna til að vinna á launamisrétti kynjanna, því kyn virðist skipta máli í uppeldinu. 1 6

Sigríður Matthíasdóttir varði doktorsritgerð sína við heimspekideild Háskóla Íslands og opinberaðist þar að sjálfsmynd hins sanna Íslendings sem mótaðist 1900-1930 var í raun karllæg, a.m.k. naut hinn borgaralegi karlmaður góðs af henni. Karlmaðurinn mátti vera einstaklingshyggjumaður en konan átti á hinn bóginn að tákna þjóðlega fortíð. Hlutverk kvenna mótaðist því í andstöðu við einstaklingshyggju nútímans og varð því valdaleysi þeirra á opinberum vettvangi hlutskipti þeirra. Konur súpa enn seyðið af þeirri sjálfsmynd sem mótaðist í upphafi 20. aldar og er hún hluti af skýringunni á stöðu þeirra í dag, og styður kenninguna um að kyn skipti máli. 1 7

Kyn skiptir öllu máli og er eldfim pólitísk breyta vegna þess að kynið merkir hlutverk út frjá sjónarmiði hefðar, hugmynda og samfélags. Það kveður á um stöðu í hugum of margra og er tengt ákveðnum þáttum eins og heimili, uppeldi, völdum og viðskiptum. Það er ekki tilviljun að á síðastliðnum 90 árum hefur kona aldrei gegnt embætti forsætisráðherra eða bankastjóra. Verðleikarnir eru til staðar, hæfileikarnir, þekkingin, gáfurnar og reynslan, en það sem hindrar konur í þessum efnum er kynið, og það er kynið sem opnar körlum dyr. Þetta er félagslegt óréttlæti, sem hægt er að breyta ef vilji er fyrir hendi og sem er verðugt verkefni á þessu afmælisári 90 ára kosningaréttar alls almennings. "Ekki er hægt að tala um lýðræði fyrr en jöfn þátttaka karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins hefur verið tryggð," var skráð af skrifstofu jafnréttismála í september 1997 og að "einungis með því að konur og karlar sitji við sama borð þegar áhrif og völd eru annars vegar sé hægt að segja að skilyrðum lýðræðisins sé fullnægt." Þessi fullyrðing fellur ekki úr gildi, jafnvel þótt enn séu fundnar leiðir til að koma í veg fyrir fullgildingu hennar, oft með hjálp "sérstakra aðgerða". 1 8

Tilvísanir:

1. Heiðrún Lind Marteinsdóttir. Rangfærslur stuðningskvenna Bolla Thoroddsens. 11. ágúst 2004, www.tikin.is.

2. Konur og karlar 2004. Umsjón Sigríður Vilhjálmsdóttir. Hagstofan 2004.

3. Björn Ingi Hrafnsson. Jafnrétti kynjanna í íslenskum stjórnmálum. 22. maí 2004, Morgunblaðið.

4. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. II. kafli, 7. gr. Jafnréttisráð.

5. Jafnréttislög barn síns tíma. 7. apríl 2004. Morgunblaðið

6. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. III. kafli. 20. gr. Þátttaka í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera.

7. Þingskjal nr. 1870. www.althingi.is/altext/130/s/1870.html

8. Erla Hulda Halldórsdóttir. "Ómerkilegt smámál". 21. október 2004, Morgunblaðið

9. Nasrin Shahinpoor, gestaprófessor við Butler University í Bandaríkjunum, flutti erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum í Háskóla Íslands. 27. apríl 2004.

10. Malin Rönnblom stjórnmálafræðingur flutti erindi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum í Háskóla Íslands 23. ágúst 2004.

11. Ragnhildur Arnljótsdóttir. Virðingin fyrir verkunum. 12. september 2004. Morgunblaðið.

12. Þorgerður Þorvaldsdóttir. Endurpegla ekki þá þjóð sem í landinu býr. 30. janúar 2004. Morgunblaðið.

13. Fékk rýtingsstungu í bakið frá KSÍ. 18. desember 2004. DV.

14. Vegna umfjöllunar um verðlaunafé, 2. júní 2004. www.ksi.is

15. Andrea Ósk Jónsdóttir og Þórunn Hafstað. Viðhorf og veruleiki kynjanna. 19. júni 2004, bls. 21-22.

16. Gunnar Hersveinn. Ólík hugsun kynjanna um störf. Tímaritið 19. júní 2004, bls. 14-15.

17. Sigríður Matthíasdóttir. 2004. Hinn sanni Íslendingur. Háskólaútgáfan.

18. Samþætting - Ný leið til jafnréttis kynjanna, Skrifstofa jafnréttismála, september 1997.

Höfundur er sjálfstætt starfandi fræðimaður.