21. mars 1992 | Innlendar fréttir | 506 orð

Borgarspítali hefur tekið við bráðavakt Landakotsspítala Landakot sérhæfi sig í

Borgarspítali hefur tekið við bráðavakt Landakotsspítala Landakot sérhæfi sig í biðlistaaðgerðum, segir heilbrigðisráðherra LANDAKOTSSPÍTALI og Borgarspítali hafa undirritað samkomulag um aukið samstarf sjúkrahúsanna sem felur í sér að bráðavaktir...

Borgarspítali hefur tekið við bráðavakt Landakotsspítala Landakot sérhæfi sig í biðlistaaðgerðum, segir heilbrigðisráðherra

LANDAKOTSSPÍTALI og Borgarspítali hafa undirritað samkomulag um aukið samstarf sjúkrahúsanna sem felur í sér að bráðavaktir handlæknis- og lyflæknisdeildar Landakots flytjast þegar til Borgarspítala og því var síðasta bráðavakt Landakotsspítala í gær. Ennfremur er í samkomulaginu kveðið á um að þeir starfsmenn Landakotsspítala, sem missi þar atvinnu, hafi forgang að störfum á Borgarspítalanum.

Þá hefur heilbrigðisráðherra gert tillögu til fjármálaráðherra og fjárlaganefndar um ráðstöfun tveggja fjárveitingaliða á fjárlögum fyrir 1992 og er þar um að ræða safnlið í tengslum við almennan sparnað og lið undir heitinu sjúkrahús í Reykjavík. Borgarspítali fái 200 milljónir króna til að standa undir rekstrarkostnaði vegna yfirtöku bráðavakta svo og 100 milljónir til framkvæmda. Auk þess er lagt til að Landakotsspítali fái 45 milljónir til almenns reksturs af safnliðum og að Ríkisspítulunum verði veittar 95 milljónir til rekstrar, þar af 50 til að viðhalda óbreyttri starfsemi hjartaskurðlækningadeildar. Þá hefur heilbrigðisráðuneytið óskað eftir því að Landakotsspítali taki að sér aukna þjónustu við aldraða hjúkrunarsjúklinga gegn sérstakri rekstrarfjárveitingu.

"Ég vonast til þess að Landakot sérhæfi sig nú í auknum mæli í biðlistaaðgerðum og sem betur fer hefur fækkað á listum frekar en hitt," segir Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra.

Um framhaldið í málum sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu segir Sighvatur að nú verði gerð þróunarog uppbyggingaráætlun fyrir sjúkrahúsaþjónustu. "Við munum leggja áherslu á að reyna að vinna að því á þessu ári og munum að sjálfsögðu óska eftir samvinnu við sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu. Stefnumótun um það hvernig sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu eigi að byggjast upp og hvernig verkaskipting á milli þeirra eigi að vera er ekki til í ráðuneytinu," segir Sighvatur.

Logi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landakotsspítala, segist eiga von á því að minna verði um innlagnir biðlistasjúklinga á Borgarspítalann eftir að bráðavaktir Landakotsspítala hafa verið teknar yfir af Borgarspítalanum. "Ég get ímyndað mér að það verði erfiðara um innlagnir biðlistasjúklinga á Borgarspítalann eftir að þeir hafa tekið vaktirnar okkar yfir. Á þeim vöktum koma inn á fjórða þúsund sjúklinga á ári."

Logi segist jafnvel eiga von á því að fleiri biðlistasjúklingar verði nú lagðir inn á Landakotsspítala. "Þetta leggst afleitlega í okkur því reksturinn hefur dregist mikið saman. Nú vantar okkur möguleika á því að sinna þeim verkefnum sem fyrir hendi eru. Þó bráðavaktirnar hætti hjá okkur er það aðeins óhjákvæmileg afleiðing af þeim niðurskurði sem við höfum þurft að taka á okkur," segir Logi Guðbrandsson.

Árni Sigfússon, formaður stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, segir þetta samkomulag vera eðlilegt framhald á þeim viðræðum, sem staðið hafa yfir um leiðir til hagræðingar í rekstri sjúkrahúsa í Reykjavík. "Besti kosturinn hefði verið sameining og stofnun nýs sjúkrahúss, sem hefði byggt á grunni Landakotsspítala og Borgarspítala, og þar töldum við að við hefðum getað náð töluverðri hagræðingu, t.d. á bráðavöktunum. Nú er ljóst að af þessari sameiningu verður ekki," segir hann.

Árni segir að framundan sé áframhaldandi vinna að hagræðingu reksturs sjúkrahúsa í Reykjavík og þá hljóti að þurfa að ræða betur verkaskiptingu þeirra.

Systir Emmanuelle, talsmaður St. Jósefssystra, vildi ekki tjá sig um þennan samning er Morgunblaðið leitaði álits hennar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.