Kvikmyndin Ingaló verður sýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni KVIKMYNDIN Ingaló, sem gerð er eftir handriti Ásdísar Thoroddsens og einnig leikstjórn hennar, hefur verið valin til sýninga á Cannes kvikmyndahátíðina í Suður-Frakklandi í vor.

Kvikmyndin Ingaló verður sýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni

KVIKMYNDIN Ingaló, sem gerð er eftir handriti Ásdísar Thoroddsens og einnig leikstjórn hennar, hefur verið valin til sýninga á Cannes kvikmyndahátíðina í Suður-Frakklandi í vor. Myndin verður ein af sjö kvikmyndum í fullri lengd sem sýndar verða á svokallaðri viku gagnrýnenda á kvikmyndahátíðinni.

Tvenn verðlaun koma til greina fyrir Inguló. Annars vegar er um að ræða verðlaun fyrir bestu kvikmynd vikunnar og hins vegar "Caméra d'or"-verðlaunin, sem veitt eru leikstjóra fyrir bestu frumraun á kvikmyndahátíðinni. Ekki er þó um keppni um sjálfan gullpálmann að ræða.

"Það auðvitað mjög gott fyrir myndina að hafa verið á Cannes kvikmyndahátíðinni og maður verður að nýta það vel ef tækifæri gefst," segir Ásdís.

Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk kvikmynd er sýnd á viku gagnrýnenda og í annað skipti sem íslensk kvikmynd kemst í keppni á Cannes kvikmyndahátíðinni.