Zontaklúbburinn Þórunn hyrna: Bókasafni Háskólans gefinn gagnadiskur Zontaklúbburinn Þórunn hyrna hefur afhent bókasafni Háskólans á Akureyri að gjöf áskrift að geisladiskinum Cinahl og er þetta í annað sinn sem klúbburinn gefur bókasafninu þessa áskrift.

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna: Bókasafni Háskólans gefinn gagnadiskur Zontaklúbburinn Þórunn hyrna hefur afhent bókasafni Háskólans á Akureyri að gjöf áskrift að geisladiskinum Cinahl og er þetta í annað sinn sem klúbburinn gefur bókasafninu þessa áskrift. Um er að ræða gagnasafn, sem fyrst og fremst er ætlað hjúkrunarfræðingum, en kemur öðru starfsfólki við heilsugæslu, auk bókavarða á bókasöfnum sem sem starfa á heilbrigðissviði einnig að góðum notum.

Efni úr 300 tímaritum er skráð reglulega, þar með eru nánast öll hjúkrunarfræðitímarit á enskri tungu, auk fjölmargra tímarita í tengdum greinum, s.s. í iðjuþjálfun, sjúkraþjálfum, meinatækni og röntgentækni. Í gagnasafninu eru upplýsingar um fleiri hundruð bækur frá 30 helstu útgefendum bóka á sviði heilbrigðismála í Bandaríkjunum.

Gildi geisladisksins hefur ótvírætt komið í ljós, en bæði nemendur og kennarar hafa getað leitað nýjustu upplýsinga vegna náms, rannsókna og kennslu á fljótlegan og einfaldan hátt. Auðvelt er að leita upplýsinga á diskunum og er öllum notendum bókasafns Háskólans heimilt að nota þá á eigin spýtur sér að kostnaðarlausu.

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna veitir verðlaun við brautskráningu á hverju ári til þess nemanda í heilbrigðisdeild sem sýnt hefur bestan árangur í námi, en einnig er fyrirhugað að klúbburinn færi bókasafni skólans gjafir í upphafi hvers árs.

Frá afhendingunni: Hildigunnur Svavarsdóttir, Astrid Magnúsdóttir, Svava Aradóttir, Anný Larsdóttir, Helga Steindórsdóttir, Hrafnhildur Stefánsdóttir, Sigríður Halldórsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Haraldur Bessason.