24. júlí 1992 | Daglegt líf (blaðauki) | 974 orð

Skurðaðgerðum vegna magasára hefur fækkað mikið vegna lyfjagjafa og unnið er að

Skurðaðgerðum vegna magasára hefur fækkað mikið vegna lyfjagjafa og unnið er að þróun betri lyfja MAGASÁR er ekki nýr sjúkdómur og sagan um meðferð við honum er löng.

Skurðaðgerðum vegna magasára hefur fækkað mikið vegna lyfjagjafa og unnið er að þróun betri lyfja

MAGASÁR er ekki nýr sjúkdómur og sagan um meðferð við honum er löng. Gömul húsráð segja til dæmis að hákarlalýsi sé gott við magasári og telja margir sig hafa fengið bata af þeirri meðferð.

Meginkenning um orsök magasára er, að jafnvægið milli magasýru og varna slímhúðar hafi raskast, en maginn framleiðir mikið af saltsýru sem hefur það hlutverk að drepa gerla og bakteríur í matnum sem við látum ofan í okkur. Saltsýran getur hins vegar ert slímhúð maga og skeifugarnar, og stundum étið sár í hana ef varnirnar eru ekki í lagi.

Aðalvörn slímhúðarinnar er magaslím sem slímfrumur magans framleiða í miklu magni. Nýverið kom í ljós að nær allir sem hafa sár í skeifugörn og 75% þeirra sem hafa sár í maga, eru smitaðir af nær óþekktum sýkli, Helicobacter Pylori (Hp) sem truflar varanlega jafnvægi milli sýrumyndunar og varna slímhúðarinnar.

Maginn skorinn burtu

Í samræmi við kenningar um of mikla sýruframleiðslu, hófust skurðaðgerðir til lækninga á magasárum um 1950. Þá voru teknir burtu misstórir hlutar magans til að minnka sýruframleiðslu. Bútunum var síðan skeytt saman aftur eða maginn tengdur við görn. Þessi aðferð reyndist vel til að lækna sárin en oft komu fram síðbúnir fylgikvillar, jafnvel lítt skárri en sárin sjálf. Samkvæmt rannsókn Hjartaverndar hafa um 7% íslenskra karla sem komnir eru yfir sextugt, gengist undir slíka aðgerð, og milli 5 og 6% kvenna á sama aldri. Aðgerðinni var síðar breytt þannig að í stað þess að skera burtu hluta magans var skorið á svokallaða sýrutaug.

Fyrsta nútíma magalyfið kom á markað árið 1976. Það minnkaði framleiðslu magasýru á miklu virkari hátt en eldri lyf, og aukaverkanir voru mun færri. Í kjölfarið komu fleiri lyf af sama flokki og um miðjan 9. áratuginn fékk breski læknirinn dr. James Black Nóbelsverðlaun fyrir þróun þessara lyfja.

Skurðaðgerðir lögðust af

Skurðaðgerðir við magasárum lögðust nær af með tilkomu hinna nýju lyfja, því einkenni frá sárunum hurfu á nokkrum dögum og sárin greru á 4-6 vikum. En þá kom upp nýtt vandamál. Þegar lyfjameðferð var hætt, komu sárin aftur. Sérstaklega átti þetta við um skeifugarnasár og mynduðust þau aftur innan eins árs í um 70% tilfella. Þá voru gefnir litlir lyfjaskammtar sem teknir voru í langan tíma.

Kostnaður Íslendinga vegna magalyfjanotkunar var um 300 milljónir árið 1989, miðað við smásöluverð og verðgildi ársins 1991. Íslendingar notuðu 2-3 sinnum meira magn af magalyfjum árið 1989 en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Þrátt fyrir gríðarlega háa tölu, er auðvelt að sýna fram á þjóðhagslegt gildi þessarar meðferðar, því færri magaaðgerðir eru framkvæmdar, veikindadögum fækkar og örorka minnkar.

Sýkill í magaslími

Nú hyllir á ný undir byltingu í meðferð magasára. Undanfarin ár hafa meltingarsérfræðingar á reykvískum sjúkrahúsum stundað rannsóknir á Hp-sýklinum sem sagt er frá hér að framan, en hann lifir í magaslími. Greinar um þessar rannsóknir hafa birst í Læknablaðinu og verið kynntar á þingi bandarískra meltingarsérfræðinga í San Francisco. Einn úr þessum hópi er Bjarni Þjóðleifsson yfirlæknir á lyflækningadeild Landspítalans. "Fyrstu rannsóknir á sýklinum benda til að hann trufli varnir slímhúðar í maga og skeifugörn og valdi þannig bólgu og sárum," segir Bjarni.

"Í stað þess að einblína á að lækka magasýrurnar með skurðaðgerð eða lyfjum, getur meðferðin nú beinst að því að uppræta sýkilinn og bæta varnirnar. Rannsóknir benda til þess að skeifugarnasár sé varanlega læknað ef tekst að uppræta sýkilinn, en fleiri rannsóknir og meiri tíma þarf til að niðurstöður sem þessar séu endanlega teknar góðar og gildar.

Sýkilinn finnst í um 70% tilvika magasára, en hjá nánast öllum sem hafa skeifugarnasár. Allt frá árinu 1893, hafa menn vitað af sýkli sem virtist geta lifað í slímhúð magans. Hann sást við smásjárskoðun en ekki tókst að rækta hann þó ýmsir hefðu reynt það. Rannsóknarhópur í Perth í Ástralíu ræktaði hann svo fyrst árið 1980.

Eins og tappatogari

Ræktunarplöntur með útsæði frá maga voru skildar eftir í hitaskáp þegar starfsfólk rannsóknarstofunnar fór í páskafrí. Rætunartími varð því lengri en venja var, og er menn sneru aftur til vinnu, kom í ljós nýr vöxtur á plöntunum, sem reyndist vera sýkillinn Helicobakter pylori (Hp) sem menn höfðu eiginlega verið að leita að í 90 ár. Þessi tilviljun varð upphafið að miklum rannsóknum.

Nú er vitað að sýkillinn þarf sérhæft æti og langan tíma til að vaxa. Hann hefur aðlagað sig hinum sérstöku aðstæðum í maganum, heldur sig mest í magaslíminu sjálfu og veldur ekki öðrum sjúkdómum. Hann er eins og gormur í laginu og hreyfist eins og tappatogari gegnum slímið.

Ekki er auðvelt að útrýma Hp-sýkingu úr magaslímhúð, því hann notar varnir líkama okkar til að skýla sér fyrir lyfjum, og borar sér inn í magaslímið en dvelur lítið sem ekkert í slímhúðinni sjálfri. Lyf komast því ekki að honum blóðleiðina, heldur verða að vinna á honum með snertingu í maganum sjálfum. Unnið er að þróun slíkra lyfja og á meðan er besti kosturinn sá að bjóða meðferð með tveimur eða þremur sýklalyfjum saman. Ef þrjú lyf eru gefin saman í 10-14 daga er 90% von um árangur, en þetta er töluvert erfið meðferð með þónokkrum aukaverkunum, og verður enn að teljast á tilraunastigi.

Sýkillinn er til í öllum þjóðflokkum, en útbreiðslan mest í vanþróuðum löndum. Helstu smitleiðir á Vesturlöndum, þar sem hreinlæti er mikið, eru í gegnum nána snertingu í fjölskyldu og/eða með illa þvegnum matarílátum og borðbúnaði. Helsta orsök magaóþæginda er þó hvorki sár í maga eða skeifugörn, né Hp-sýking, heldur slæmar lífsvenjur. Reykingar og óhófleg kaffidrykkja eru efst á listanum. Ennfremur er hægt að ofgera hraustum maga með þungum eða mikið krydduðum mat, auk þess sem ýmis lyf, til dæmis gigtarlyf, geta farið illa í maga."

Ragnheiður Gunnarsdóttir

Skurðaðgerðir við magasárum lögðust nær af með tilkomu hinna nýju lyfja, því einkenni frá sárunum hurfu á nokkrum dögum og sárin greru á 4-6 vikum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.