Nýfundin skjöl Sovéska kommúnistaflokksins í Moskvu: Mál og menning fékk styrki frá flokknum SOVÉSKI kommúnistaflokkurinn veitti bókaútgáfunni Máli og menningu umtalsverða fjárstyrki á árunum 1968 og 1970, að því er fram kemur í nýfundnum skjölum...

Nýfundin skjöl Sovéska kommúnistaflokksins í Moskvu: Mál og menning fékk styrki frá flokknum

SOVÉSKI kommúnistaflokkurinn veitti bókaútgáfunni Máli og menningu umtalsverða fjárstyrki á árunum 1968 og 1970, að því er fram kemur í nýfundnum skjölum flokksins í Moskvu. Kristinn E. Andrésson, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sótti um fjárstyrk að jafngildi 6,8 milljónum króna frá kommúnistaflokknum árið 1970, og er þess getið að sambærilegur styrkur hafi fengist 1968. Þetta kom fram í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi

Árni Kr. Einarsson, núverandi framkvæmdastjóri félagsins, segir að Kristinn hafi sótt um styrkinn algerlega upp á eigið einsdæmi, ef satt væri, og upplýsingar um hann komi hvergi fram í gögnum fyrirtækisins. Hann segir fyrirtækið hafa verið í fjárhagsvanda allt fram undir árið 1979, en einhver hlyti að hafa orðið var við fjárhæð er næmi um hálfri ársveltu fyritækisins.

Samkvæmt upplýsingum sem Jón Ólafsson fréttamaður aflaði í Moskvu nam styrkurinn 20 þúsund bandaríkjadölum, eða um 1.760 þúsund krónum á þáverandi gengi. Jafngildir það um 6,8 milljónum á núverandi verðlagi. Kemur þetta fram í nýfundnum skjölum sovéska kommúnistaflokksins, sem geymd eru í Moskvu.

Þá segir að árið 1970 hafi starfsmenn sovéska sendiráðsins sett í bækur þá fullyrðingu Kristins, að það ár þyrfti Mál og menning að standa skil á tveimur milljón króna afborgunum af bankaláni. Í samtali við Vasnov, þáverandi sendiherra Sovétríkjanna, og Petjumpkin aðstoðarmann hans, mun Kristinn hafa sagt að Mál og menning yrði næstum örugglega gjaldþrota, veiti Sovéski kommúnistaflokkurinn forlaginu ekki styrk.

Í rökstuðningi sínum með styrkveitingunni er haft eftir sendiherranum, að ef sovéski kommúnistaflokkurinn veitti ekki styrkinn, kynnu Kínverjar að koma í staðinn.

Kristinn mun fyrst hafa beðið um styrkinn þann 27. desember 1969. Biður hann þá um sambærilegan styrk og fyrirtækið hafi fengið 1968, en hvergi kemur fram hve hár sá styrkur hafi verið. Þann 26. mars árið 1970 ítrekaði hann beiðnina, og aftur þann 31. Kristinn er svo kallaður í sendiráðið þann 9. maí, og honum tjáð að flokkurinn fallist á að veita 20 þúsund dala styrk. Féð kemur 21. maí og er afhent daginn eftir.

Árni Kr. Einarsson kvað peningana hvergi koma fram í bókum fyritækisins. "Við erum búin að fara í gegnum allar bókhalds- og fundargerðarbækur og annað," sagði hann. "Þetta er opið fyrir hvern sem vill leita að þessum peningum, ef þeir hafa á annað borð komið."

Hús Ma´ls og menningar á Laugavegi 18.