11. september 1992 | Minningargreinar | 641 orð

Minning Árni Böðvarsson cand. mag. Minning Árni Böðvarsson cand. mag. SJÁ BLS

Minning Árni Böðvarsson cand. mag. Minning Árni Böðvarsson cand. mag. SJÁ BLS 29 Fæddur 15. maí 1924 Dáinn 1. september 1992 Árni Böðvarsson er allur. Eftirminnilegur förunautur er fallinn í valinn, eljusamur, hógvær og hugþekkur.

Góðir menn munu rekja æviþráð Árna Böðvarssonar, þeir er þekktu hann bezt. Ég nem staðar við tvær hraðfleygar stundir einungis, er leiðir okkar Árna lágu saman. Þær stundir þakka ég.

Árin 1959 til 1961 bjó ég á stúdentagarðinum nýja eða "Nýjagarði", eins og hann var þá nefndur og e.t.v. enn. Þar var Árni Böðvarsson umsýslumaður húss og heimafólks og nefndur "garðprófastur" að gömlum sið. Þetta var erilsamt hlutskipti og reyndi á marga eðliskosti, allt frá handlagni við lagfæringar á híbýlum stúdenta til nærfærni, þegar ungum mönnum varð hált á brautum hamingjuleitarinnar. Árni sinnti hér öllu í senn af samúð, tillitssemi og þolinmæði. Hef ég oftsinnis hugsað til þessara ára og undrazt, hve fimlega honum fórst jafnan. Hlýr var Árni í viðmóti og hafði löngum uppi gamanyrði, lék ýmsum strengjum íslenzkrar tungu af íþrótt, sem af bar. Gott var að una tvö æskuár undir handleiðslu þessa vingjarnlega drengskaparmanns. Sá tími gleymdist ekki heldur óx að gildi er frá leið. Árni Böðvarsson var reyndar aldrei fjarri þótt fjöll eða höf bæri á milli. Jafnan var hann hverjum manni nær í fræðum sínum, bækur hans, greinar og ritgerðir innan seilingar, rödd hans í Ríkisútvarpinu, ávirk og uppörvandi, mannfagnaður ævinlega að því að hitta Árna á förnum vegi.

Fyrir tæpu ári settumst við Árni að nýju við sama borð. Hann hafði þá verið málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins um sjö ára bil. Ekki kom það á óvart, sem brátt varð ljóst, að á þeim bæ hafði Árni unnið hug allra starfsmanna og glætt lifandi áhuga á íslenzku máli í hverjum kima.

Ríkisútvarpið hefur um áratugi verið gangráður talaðra orða á Íslandi. Þar studdi hver öndvegismaðurinn annan í baráttunni fyrir varðveizlu og endurnýjun íslenzkrar tungu. Ef spurt er um hlutverk Ríkisútvarpsins, gæti þetta verkefni orðið framarlega í svari: Ríkisútvarpið iðkar málvöndun og heldur henni að hlustendum sínum hvarvetna um landið.

Öllum getur yfirsézt. En yfirsjónir eru ekki ásetningsbrot. Ásetningur Ríkisútvarpsins er að gæta tungunnar. Áhuginn á þessu efni er heill hvarvetna innan stofnunarinnar. Þann áhuga eiga núverandi útvarpsmenn Árna Böðvarssyni öðrum fremur að þakka. Návist hans á fréttastofum Útvarpsins og Sjónvarpsins, árverkni og ötul framganga ollu því, að allir hugðu að eigin orðum eftir föngum. Aðrir samverkamenn í Efstaleiti og við Laugaveg nutu ekki síður góðs af leiðsögn Árna. Einkar gagnlegar handbækur og blöðunga, sem hann sendi frá sér, gat hver og einn hagnýtt í sínu erfiði. Árni var og ævinlega til taks, ef álitamál komu upp.

Það kann að hafa valdið undrun, er kyrrlátur fræðimaður Árni Böðvarsson gaf sig til fullnustu að eljuverkum á öldum ljósvakans, þar sem allt er á hraðbergi. Þess er til að geta, að eftir margra ára starf við þáttinn Daglegt mál og aðra alþýðufræðslu hafi Árni talið Ríkisútvarpið líkt og skólana vera vettvang mikilvægra átaka um viðgang íslenzkrar menningar. Með því einu að takast þennan starfa á hendur sýndi Árni Böðvarsson Ríkisútvarpinu virðingu sem menntastofnun svo mjög að hann gat ekki betur gert.

Við Árni áttum dálitla gleði saman þá stuttu stund sem báðum varð auðið að una í Útvarpshúsinu. Ætlunin var að bæta aðstöðu málfarsráðunautar til muna. Árni hugði gott til þessarar nýlundu, og frjór hugur hans var fullur af áformum. Nú kemur það í annarra hlut að taka upp merkið eftir mætan mann. Betur er ekki unnt að heiðra minningu Árna Böðvarssonar en með því að halda fram verkunum, sem hann unni.

Enginn má sköpum renna. Árni Böðvarsson var kallaður af þessum heimi á bezta aldri að því er telja verður nú á dögum ef heilsu nýtur. Fyrir sjálfs míns hönd, konu minnar og Ríkisútvarpsins, kveð ég Árna Böðvarsson og bið Guð að gæta hans og ástvinanna, sem eftir lifa.

Heimir Steinsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.