Gamall selabátur gefinn Sjóminjafninu GAMALL selabátur frá Skáleyjum á Breiðafirði hefur verið gefinn Sjóminjasafni Íslands, Hafnarfirði. Báturinn, sem heitir Erla, var upphaflega fjögurra manna far en seinna breytt í vélbát.

Gamall selabátur gefinn Sjóminjafninu

GAMALL selabátur frá Skáleyjum á Breiðafirði hefur verið gefinn Sjóminjasafni Íslands, Hafnarfirði. Báturinn, sem heitir Erla, var upphaflega fjögurra manna far en seinna breytt í vélbát. Hann var smíðaður árið 1935 af hinum kunna bátasmið Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum í Breiðafirði. Þar var um tíma aðalbátasmíðastöðin á Breiðafirði og bátar þeirra Látrafeðga víðfrægir.

Eigandi bátsins um 40 ára skeið var Guðmundur Guðmundsson, bóndi í Skáleyjum. Eftir að Guðmundur lést eignaðist Sveinn sonur hans bátinn. Báturinn var aðallega hafður til selveiða en einnig við ýmsar ferðir í nálægar eyjar og sker, s.s. eggjaleit og dúntekju. Hann var síðast notaður í Skáleyjum árið 1976 og eitthvað í Flatey á Breiðafirði og á Brjánslæk eftir það.

Hið óvenjulega er að gefandinn, Sveinn Guðmundsson frá Skáleyjum, hefur boðist til að gera bátinn upp og mála, enda er honum mjög umhugað um að báturinn fari ekki í súginn. Þar að auki hefur Sveinn boðist til að flytja bátinn á eigin kostnað í bátaskýli Sjóminjasafnsins í Kópavogi. Þetta er einstakt tilboð og ber að undirstrika það og á sér engar fyrri hliðstæður. Þó var lítils háttar dyttað að báti sem Þórbergur Ólafsson skipasmíðameistari gaf Sjóminjasafninu fyrir opnun þess 1986.

Í Skáleyjum hafa varðveist tveir eldri bátar og er annar þeirra, Svanur, enn í notkun 84 ára gamall.

(Fréttatilkynning)

Báturinn Erla, sem Sveinn Guðmundsson hefur gefið Sjóminjasafni Íslands og ætlar að gera upp.