Spilin stokkuð Myndlist Eiríkur Þorláksson Þorlákur Kristinsson, Tolli, hefur á nokkrum árum náð að skapa sér nafn sem einn af hinum fremstu meðal yngri kynslóðar íslenskra myndlistarmanna.

Spilin stokkuð Myndlist Eiríkur Þorláksson Þorlákur Kristinsson, Tolli, hefur á nokkrum árum náð að skapa sér nafn sem einn af hinum fremstu meðal yngri kynslóðar íslenskra myndlistarmanna. Hið kraftmikla málverk hans hefur endurspeglað hversu gjörsamlega listamaðurinn hefur lagt sig í listina, því að síðustu tíu ár hefur hann haldið alls tuttugu og tvær einkasýningar hér á landi og erlendis, og tekið þátt í sautján samsýningum, þannig að ekki verður annað sagt en að hann hafi haldið sig vel að verki.

Um þessar mundir stendur yfir einkasýning Tolla í Listasafni ASÍ við Grensásveg, sem er um margt tímamótasýning fyrir listamanninn, enda gefur hann sýningunni yfirskriftina "Spilin stokkuð". Myndefni sem tengjast hafinu, einmanalegum, háreistum húsum sem híma undir bröttum fjallshlíðum við fjarlæga firði, veiðarfærum og bókum eru nú horfin úr málverkum Tolla. Í staðinn standa sýningargestir fyrir framan kröftugt litaspil, þar sem pensilskriftin ræður ríkjum; þessi myndefni eru annars vegar fengin úr nánd við náttúruna, og hins vegar að því er virðist af kynnum við austurlenskar hefðir í skrautskrift og málverki, allt verk sem eru unnin á þessu ári.

Það litaspil sem birtist í mörgum verkanna kann við fyrstu sýn að minna nokkuð á handbragð Kristjáns Davíðssonar, en hér er nokkuð annað á ferðinni. Litanotkun Tolla er jafnsterk og fyrr, og myndir eins og "Jörð" (nr. 4), "Heimur ljóða" (nr. 11) og "Vatnið fellur" (nr. 12) bera ótvírætt með sér þá myndsýn, sem þær hafa vaknað af. Þetta eru sterkar myndir, þar sem náttúran er aldrei fjarri í öllum sínum fjölbreytileik, en fyrst og fremst er þó um að ræða athugun listamannsins á innri möguleikum flatarins og þess flókna flæðis sem hann kýs að setja þar fram.

Á sýningunni getur einnig að líta myndir sem eru gjörólíkar því sem Tolli hefur áður látið frá sér; hér eru á ferðinni heilstæðir litfletir, sem eru grunnur að einföldum pensilsveiflum, sem bera með sér austurlenskan svip skrautritunar. Sá listheimur stendur listamanninum nær en kann að virðast við fyrstu sýn; hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Kóreu fyrir fjórum árum, og hefur kynnt sér ýmsar austurlenskar bardagalistir um langt árabil. Meðal þessara verka er að finna ágætar litasamsetningar og myndbyggingar, t.d. í "Gengið á vatninu" (nr. 1) og "Upphaf" (nr. 14), þar sem kyrrð og friður hvílir yfir fletinum, ólíkt flestum öðrum myndum listamannsins.

Þessi einfalda myndsýn nýtur sín vel í blekteikningunum, sem Tolli hefur komið fyrir í stigagangi hússins. Þar má finna ýmis kunnugleg myndefni, t.d. í "Fallin merki" (nr. 31) og "Fiskur" (nr. 26), og virðast þau á einhvern hátt tignarlegri í þessari einföldu mynd en í flóknari málverkum; ef til vill eru teikningarnar því ekki síðra merki um leit listamannsins en málverkin á sýningunni.

Í undirfyrirsögn í sýningarskránni segir: "Það er aldrei logn". Þetta má til sanns vegar færa; það er aldrei logn í lífinu, og það er ekkert logn í myndlist Tolla, þó hann hafi ákveðið að skipta um viðfangsefni. Þegar spilin eru stokkuð er um leið gefið til kynna að annað spil hefjist að því verki loknu; hvort þá verði tekið til við sama spil og áður eða eitthvað nýtt - er óráðið enn. Gildi þessa millikafla í list Tolla verður því ekki metið af neinni vissi fyrr en í ljósi þess sem á eftir kemur. Hins vegar er ljóst að hér er listamaðurinn að takast á við tæknilega möguleika málverksins öðru fremur, og hin þjóðfélagslegu gildi eldri málverka hans eru fjarri. Þetta kann að koma við ýmsa listunnendur, en það er eðli listarinnar að þróast án þess staðnar hún fljótlega og því skiptir meira máli hvað er framundan en nákvæmlega hver staðan er hér.

Það er ekki hægt að fjalla um þessa sýningu Tolla án þess að minnast á afar skemmtilega sýningarskrá, sem listamaðurinn hefur látið vinna. Tolli hefur alltaf lagt metnað sinn í að hafa alla umgjörð sýninga sinna sem besta og hefur gjarna leitað samstarfs við fyrirtæki til að láta það takast. Hér hefur þetta samstarf gengið upp með sóma; ljósmyndir eru mjög góðar, frágangur fallegur og frumlegur um leið. Það er mikill munur á að hafa svona heimild um sýningu milli handanna fremur en megnið af þeim óhrjálegu ljósritum, sem því miður allt of margir listamenn láta sér nægja að fleygja í sýningargesti sína.

Sýningu Tolla í Listasafni ASÍ við Grensásveg lýkur sunnudaginn 4. október.

Tolli: Heimur ljóða. 1992.