Minning Hjörleifur Kristinsson, Gilsbakka Fæddur 12. nóvember 1918 Dáinn 1. október 1992 Það fraus í pelanum hans fyrsta veturinn. Hann fæddist í Borgargerði í Norðurárdal þegar vetur fór að oft með svo miklum frostum að ísbrestir heyrðust jafnvel um nokkurn veg. En hjartahlýjan og móðurástin bræða allan ís. "Eilífi Guðssonur hjálpaðu mér blessuðu barninu að bjarga." Þetta var og verður vonandi eilíft hróp ástríkrar móður til himinsins. Og drengurinn, sem fæddist á fátækum bæ í dalnum, óx úr grasi og varð mætur maður og sérstæður persónuleiki, svo eftir var tekið hvar sem fór, eða eins og einn af vinum okkar beggja orðaði það: "Hjörleifur er orginal maður." Þannig var hann, sjálfstæður í orði og athöfn, fór ekki endilega troðnar slóðir en hélt sinn eigin veg án yfirlýsinga.

Foreldrar Hjörleifs voru hjónin Aldís, dóttir Sveins Eiríkssonar frá Skatastöðum í Austurdal og Kristinn Jóhannsson frá Miðsitju í Blönduhlíð. Í þessum ættum er greint fólk, sönghneigt og hagmælska nokkur. Ég þekkti Aldísi vel. Hún var góð kona, hlýhuga, minnug og fróð, stillt í skapi og mikil móðir. Bræður Hjörleifs eru Eiríkur cand. mag., Þorbjörn Jökull og Sveinn, sem býr í Reykjavík, hinir á Akureyri.

Í Hjörleifi Kristinssyni voru í rauninni margir menn. Í vöggugjöf hlaut hann talsvert fjölbreytta hæfileika og gáfur langt framyfir meðallag. Hann var algerlega sjálfmenntaður en annaðist þó kennslu ungmenna um skeið og var prófdómari við barnaskóla sveitarinnar um árabil. Veit ég ekki annað en honum færust þessi störf vel úr hendi. Hann var hneigður til grúsks og fræðimennsku á ýmsum sviðum, náttúruunnandi og sjálfmenntaður grasafræðingur, þekkti nær hverja íslenska jurt og var stundum fenginn í rannsóknarferðir ásamt öðrum grasafræðingum. Jarðfræði var honum hugleikin og fylgdist hann með rannsóknum á því sviði svo sem kostur var. Ættfræðiáhugi var honum í blóð runninn og hvers konar þjóðfræði og málvernd. Hann vandaði mál sitt og talaði fallega norðlensku. Hann hafði trútt minni og sagði skipulega frá. Hagmælska var honum svo eiginleg, að hann gat a.m.k. oft kastað fram ljóði eða stöku án fyrirhafnar að því er virtist. Að eðlisfari var hann félagslyndur og átti auðvelt með að blanda geði við fólk og halda uppi samræðum. Í hæfilega stórum hópi var hann hrókur alls fagnaðar, hélt uppi söng og gleðskap og var um langt árabil í kirkjukór Silfrastaðasóknar.

Hjörleifur var áhugamaður um skógrækt og stofnaði skógarlund við jökulsárgil niðurundan bænum. Þar og í Jökulsárgili plantaði hann mörgum tegundum trjáa. Þennan lund annaðist hann af kostgæfni og vænti þess að honum yrði við haldið eftir sinn dag. Sömuleiðis að ekki yrði fé úti í Gilsbakkalandi. Lýsir þetta manninum einkar vel.

Margt er mér minnisstætt frá samverustundum okkar Hjörleifs. Fyrr á árum fórum við oft saman í göngur og smalamennsku á Egilsdal, réttarstúss í framhaldi. Oft var þá glatt á hjalla og lét Hjörleifur stundum fjúka í kveðlingum. Vel má vera að ljóð þau, er ég leyfi mér að birta hér á eftir, áður birt í bókinni Skagfirsk ljóð, hafi orðið til í þessum ferðum.

"Deginum seinkar og myrkrið er meira en nægt

því morgunstjörnurnar lítilli birtu skila.

Jesús minn góður, hvað jörðin snýst orðið hægt,

ég held alheimsmótorinn sé að bila."

Og þessi:

"Dags er glætan þrotin þá,

þokan vætir kinnar.

Skjóna fætur skripla á

skuggum næturinnar."

Allar þessar minningar eru mér mætar. Eitt var þó að. Það var nær ómögulegt að fá Hjörleif til að taka greiðslu. Hann var aldrei fjárhyggjumaður, sagðist gera þetta sér til skemmtunar.

Um langt skeið hafði Hjörleifur á hendi póstflutninga hingað í dalina, Norðurárdal og Kjálka, og féll varla niður ferð hverju sem viðraði eða þó misjafnlega stæði á fyrir einyrkja. Jafnan gaf hann sér tíma til að staldra við á bæjum, segja fréttir og spjalla við heimafólk. Hann virtist ávallt hafa tíma, kom þó sínu fram. Alls staðar varð hann heimilisvinur og hafði uppi skraf um menningarmál jafnt sem hversdagsleg málefni, kryddað þeim húmor sem honum var eiginlegur. Ég minnist m.a. gleði barnanna á barnaheimilinu okkar, þegar sást til ferða póstsins. "Pósturinn er að koma, pósturinn er að koma" var hrópað og ekki minnkaði eftirvæntingin þegar sjálfur pósturinn fór að grúska í dóti sínu, lesa í sundur og afhenda böggla og bréf. Ósjaldan endaði svo með því að eitt eða tvö skriðu upp í hné póstsins, þar sem hann sat við eldhúsborðið. Þó langt sé nú síðan barnaheimilið okkar var, veit ég og vona að margir þeir sem þá voru hér að hefja gönguna út í lífið, minnist Hjörleifs enn í dag. Börnin voru félagar okkar og vinir.

Það er mikil hamingja að eignast vini en enga óvini. Sökum hæfileika Hjörleifs og mannkosta eignaðist hann vini og kunningja víðs vegar. Á síðari árum hafa margir lagt leið sína fram að Merkigili. En þá liggur vegurinn um hlað á Gilsbakka. Undantekningarlítið mun þetta ferðafólk hafa hitt húsbóndann að máli. En hann hélt þeim gamla og góða sveitasið að bjóða í bæinn upp á kaffi og veitti þá jafnframt upplýsingar um land og sögu þessa svæðis, fór auk þess ófáar ferðir sem leiðbeinandi fram að Gili. Einnig þetta mun oft hafa leitt til kunningsskapar, jafnvel vináttu. Jafnvel í útlöndum eignaðist hann kunningja, sem hann hélt uppi bréfaskiptum við, enda vinfastur.

Enn eru þó ótaldir símavinirnir. Hann gerði talsvert að því að hringja í fólk og hafa uppi skemmtilegt skraf, eins og honum var eiginlegt. Oft voru þetta einbúar, sem endurguldu hringingarnar í sömu mynd. Til voru þeir nágrannar, sem Hjörleifur talaði við dag hvern. Slíkt er ómetanlegt, einkum einbúa. Vonandi tekur einhver þann þráð upp gagnvart þeim sem eftir eru.

Fjarri fór að Hjörleifur væri maður flatneskjunnar. Hann var sannur Íslendingur, sonur fjalls og dals, sveitar og bæjar. Allt íslenskt var honum hugleikið. Án efa orti hann talsvert og skrifaði nokkuð m.a. ágætar greinar í Skagfirðingabók. Um langt skeið átti hann sæti í stjórn Sögufélags Skagfirðinga, í stjórn Skógræktarfélags Skagfirðinga og í barnaverndarnefnd ásamt fleiru.

Fjölmiðlar sýndu Hjörleifi þann verðuga sóma að taka við hann viðtöl. Ómar Ragnarsson hafði um hann sjónvarpsþátt, sem var vinsæll. Áður hafði Ríkisútvarpið tekið viðtal. Elín Pálmadóttir kom til hans í sumar og tók ágætt viðtal fyrir Morgunblaðið. Í þessum þáttum kom m.a. skýrt fram frásagnarhæfileiki Hjörleifs og meðferð á íslenskri tungu.

Ellefu ára fluttist Hjörleifur frá foreldrum sínum að Gilsbakka í Austurdal. Þá bjó þar og lengi síðan Hjörleifur skáld Jónsson fósturbróðir Aldísar móður sveinsins Hjörleifs. Úr því að Hjörleifur gekk ekki menntaveginn held ég að þetta hafi verið gæfa fyrir þá nafna. Þeir urðu strax mjög samrýndir og mun Hjörleifur eldri hafa komið nafna sínum vel á sporið í braglistinni. Í þá daga og lengi síðan var mannmargt á Gilsbakka, glaðværð í heimili og hafðar uppi orðræður um skáldskap og þjóðfræði. Þá voru þar til heimilis eða viðurloða bræðurnir Sveinn, afi Hjörleifs yngra, og Brynjólfur, Eiríkssynir frá Skatastöðum. Báðir greindir fróðleiksmenn og stálminnugir. Eftir fráfall Hjörleifs Jónssonar fór svo sem víðar að Hjörleifur varð einn á Gilsbakka. Þetta var hans staður, vígvöllur og urtagarður - helgur reitur. Þar annaðist hann bú sitt, húsdýr og skóg, lauk heyskap í sumar og vék ekki af verðinum fyrr en fársjúkur hálfum mánuði eða mest þremur vikum áður en hann lést á Borgarspítalanum 1. október.

Vinsældirnar brugðust honum ekki á sjúkrahúsinu fremur en fyrr. Von bráðar var þessi sérstæði maður, sonur dalsins og skagfirski höfðingi orðinn kunnur um allt sjúkrahúsið, hafði uppi sína hefðbundnu gamansemi og eignaðist vini meðal hjúkrunarfólks. Til hans var nær stöðugur straumur vina og kunningja til síðustu stundar. Þeirra á meðal var Snorri Ingimarsson læknir sem vitjaði hans dag hvern, þótt hann vinni á öðru sjúkrahúsi.

Það fór í hönd kaldur vetur þegar Hjörleifur Kristinsson kom í þennan heim. Það var hlýr og fagur dagur þegar hann lagði af stað til landsins ókunna. Ég vona og bið heils hugar að nú fari í hönd bjart sumar í þeim urtagarði, sem hann nemur land. Við hér í fámennu samfélagi höfum misst mikið og fullyrði ég að allir sakna hans mjög og óska góðrar ferðar á fund frændgarðs og nýrra vina. Ég og fjölskylda mín þökkum Hjörleifi langa samfylgd og vináttu og óskum honum giftu og blessunar í faðmi þess alheimsmáttar, sem við vissum báðir að er en ekki hvernig. Í Jesú nafni.

Guðmundur L. Friðfinnsson.