Sjónvarpskappræður í Bandaríkjunum Hnökralaus frammistaða færir Clinton nær sigri Boston. Frá Karli Blöndal, fréttaritara Morgunblaðsins.

Sjónvarpskappræður í Bandaríkjunum Hnökralaus frammistaða færir Clinton nær sigri Boston. Frá Karli Blöndal, fréttaritara Morgunblaðsins.

FORSETAFRAMBJÓÐENDURNIR þrír, George Bush, Bill Clinton og Ross Perot, áttust við öðru sinni á fimmtudagskvöld í kappræðum, sem einkenndust af áherslu á málefni og voru fréttaskýrendur margir þeirrar hyggju að það mætti þakka því að spyrjendur voru valdir úr hópi áhorfenda, en ekki fréttamanna. Clinton komst best frá kappræðunum og spár sérfræðinganna um að forsetinn myndi reyna að koma höggi á andstæðing sinn með því að halda áfram árásum Dans Quayles varaforseta á persónu Clintons voru að engu gerðar þegar Bush reyndist prúðmennskan uppmáluð.

Fyrir umræðurnar, sem fram fóru í Richmond í Virginíu, var viðkvæðið það að nú yrði Bush að taka á honum stóra sínum ætlaði hann að snúa kosningabaráttunni sér í hag. Hann yrði að ráðast á Clinton og draga hvergi af sér á þeirri forsendu að jafntefli þýddi óbreytt ástand og þjónaði engum tilgangi öðrum en þeim að færa demókrata skrefi nær Hvíta húsinu.

Fallinn á tíma?

Vikuritið Newsweek sagði í forsíðufyrirsögn í þessari viku að tími Bush væri að renna út. Þegar Bush leit að því er virtist annars hugar á klukku sína um miðbik kappræðnanna á fimmtudag virtist hann vera fallinn á tíma.

Hann gaf svör við spurningum, hélt fast við hugmyndafræði sína um sem minnst ríkisafskipti og ágæti samkeppni, en til þess var tekið að það vantaði rauða þráðinn í mál hans; lausnir og áætlanir væru ekki í samræmi við vandann. Margir stuðningsmanna hans voru á því að Bush vantaði neistann til að snúa dæminu við.

Bush reyndi í upphafi að setja spurninguna um traust á oddinn og vék að mótmælum, sem Clinton tók þátt í að skipuleggja á Englandi gegn Víetnamstríðinu, þegar einn áhorfenda spurði hvort hægt væri að "einbeita sér að málefnunum en ekki persónuleikum og skítkasti", en varð ekkert ágengt og bar þessi mál ekki frekar á góma eftir að Clinton svaraði því til að hann hefði fengið nóg að því að "þurfa að vakna og átta mig á því hvernig ég eigi að verja mig á hverjum degi".

Áhorfendur spyrja

Fyrirkomulagið á umræðunum í fyrrakvöld var runnið undan rifjum demókrata og var með sama hætti og Clinton hefur haft á kosningafundum sínum. Greinilegt var að Clinton átti auðvelt með að ná sambandi við áhorfendur. Eftir fyrstu kappræðurnar var Clinton gagnrýndur fyrir að vera vélrænn. Þess voru engin merki í seinni kappræðunum. Þegar hann var spurður spurningar gekk hann fram á sviðið, oft alveg ofan í myndavélarnar, og ávarpaði spyrjandann beint. Áður en langt var um liðið höfðu Bush og Perot, sem í upphafi vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að hegða sér vegna þess að í stað þess að hafa ræðupúlt til að halda sér í var þeim aðeins boðið upp á barstóla, reynt að tileinka sér tækni Clintons.

Perot átti ekki jafn góðan dag og í fyrstu kappræðunum. Lítið var hlegið að bröndurum hans og oft og tíðum var hann ekki jafn nákvæmur í svörum og í fyrra skiptið, átti til að missa þráðinn og vera orðlangur.

Í skoðanakönnun sjónvarpsstöðvarinnar CBS sögðu 54 prósent að Clinton hefði borið sigur úr býtum, 25 prósent Bush og 20 prósent Perot. Sjónvarpsstöðin ABC safnaði saman 100 manns til að leggja dóm á frambjóðendurna. Þar sögðu 25 prósent að Clinton hefði haft betur, 16 prósent Perot og aðeins sjö prósent Bush.

Umræðan snerist um fjárlagahallann, viðskipti, atvinnuleysi, glæpi, mennta- og heilbrigðismál og hlutverk Bandaríkjanna eftir hrun Sovétríkjanna. Bush gerði lítið annað en að gagnrýna áætlanir andstæðinga sinna. Perot hampaði fimm ára áætlun sinni til að gera út af við fjárlagahallann. Clinton sagði að hægt væri að losna við fjárlagahallann á fimm árum, en það væri of sársaukafullt fyrir almenning og efnahaginn og vildi fara hægar í sakirnar.

Í lokaorðum sínum sagði Clinton að spurningin snerist um það hvort kjósendur vildu breytingar. Perot spurði hvort kjósendur vildu orð eða athafnir. "Ef þig viljið athafnir er ég ykkar maður." Bush lagði áherslu á traust og persónustyrk og spurði bandarísku þjóðina hverjum hún myndi treysta ef "stórkostleg hætta steðjaði að". Eftir á sagði einn fréttaskýrandi að þarna hefði forsetinn ekki verið sannfærandi, árás á Bandaríkin væri ekki yfirvofandi og þetta gæti ekki verið það eina sem hann hefði til síns ágætis eftir fjögur ár í embætti.

Bush var hins vegar bjartsýnn að kappræðunum loknum. "Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þrátt fyrir þessa svartsýnu blaðamenn, sem ég hlusta á, munum við vinna þessar kosningar," sagði Bush.

Reuter

George Bush, forseti Bandaríkjanna, lítur á úrið í öðrum sjónvarpskappræðum frambjóðendanna þriggja í bandarísku forsetakosningunum. Þeir svöruðu spurningum frá óákveðnum kjósendum í 90 mínútur.