Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir sig hlynnta EES-samningnum Fráleitt að hafna aðild að EB Til greina kemur að kalla til varamann í utanríkismálanefnd, segir Kristín Ástgeirsdóttir þingflokksformaður Kvennalistans INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, þingkona...

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir sig hlynnta EES-samningnum Fráleitt að hafna aðild að EB Til greina kemur að kalla til varamann í utanríkismálanefnd, segir Kristín Ástgeirsdóttir þingflokksformaður Kvennalistans

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir, þingkona Kvennalistans, segist ekki treysta sér til að leggjast gegn samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Hún segir að ef Íslendingar gerist aðilar að EES, sé fráleitt að útiloka aðild að Evrópubandalaginu. Kristín Ástgeirsdóttir, formaður þingflokks Kvennalistans, segir að til greina komi að Ingibjörg Sólrún víki tímabundið úr utanríkismálanefnd Alþingis vegna þessarar afstöðu sinnar og varamaður taki sæti hennar á meðan á afgreiðslu EES-samningsins standi.

"Það er ýmislegt sem liggur að baki þessari afstöðu minni," sagði Ingibjörg Sólrún í samtali við Morgunblaðið. "Hún hefur verið að mótast talsvert lengi og ég hef lýst því þannig að ég hafi setið á girðingunni milli já- og nei-afstöðunnar og verið með fæturna sinn hvoru megin. Þetta var spurning um að hrökkva eða stökkva. Ég legg mikla áherzlu á að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samninginn og út frá því fór ég að velta því fyrir mér hvort ég myndi treysta mér til að leggja til við þjóðina að hún felldi þennan samning. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég gerði það ekki."

Hætta á pólitískri

einangrun Íslands

Ingibjörg sagðist óttast að yrðu Íslendingar ekki aðilar að EES biði þeirra pólitísk einangrun. "Ég óttast að við yrðum viðskila við þessa pólitísku deiglu og umræðu, sem er úti í Evrópu og myndum dæma okkur úr leik með þeim hætti. Eftir að norska þingið samþykkti EES-samninginn erum við ein eftir. Ég get ekki séð þá stöðu fyrir mér."

Aðspurð um viðbrögð flokkssystra sinna í Kvennalistanum og hvort hún væri ekki undir flokksaga í EES-málinu, sagði Ingibjörg Sólrún að hinar þingkonur flokksins væru áfram á þeirri skoðun að Kvennalistinn ætti að greiða atkvæði gegn samningnum. "Þetta var rætt á svokölluðum samráðsfundi okkar, með fulltrúum allra kjördæma, á laugardaginn. Auðvitað eru margar óhressar með þessa afstöðu mína og vildu gjarnan að þessi uppákoma hefði aldrei átt sér stað. Aðrar eru fegnar þessari opnun og vilja hana, þannig að það eru skiptar skoðanir í Kvennalistanum um málið, þótt ég eigi ekki von á að afstaða Kvennalistans sem heildar breytist. Ég geri heldur ekki þá kröfu að aðrar konur kúvendi í afstöðu sinni með neinum hætti. Það er stjórnarskrárbundin skylda þingmanna að fara fyrst og fremst eftir samvizku sinni. Við teljum okkur ekki stætt á því siðferðilega að kúga neina konu undir flokksaga og höfum aldrei gert," sagði Ingibjörg Sólrún.

EB er inni í myndinni

Ingibjörg Sólrún hefur áður látið svo um mælt, að Evrópubandalagið sé skömminni skárra en Evrópska efnahagssvæðið, þótt hvorugur kosturinn væri góður. Aðspurð hvort hún hefði nú tekið EES fram yfir EB, svaraði Ingibjörg Sólrún neitandi. "Mér er alveg ljóst að ef við förum inn í Evrópska efnahagssvæðið, þá er EB inni í þeirri mynd. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta sé bara EES og síðan ekki söguna meir. Ég held að þeir stjórnmálamenn, sem það fullyrða, séu annaðhvort að blekkja sjálfa sig eða aðra."

Ingibjörg svaraði því játandi er hún var spurð hvort hún teldi leiðina til EB liggja um EES. "En spurningin er hvaða EB. Evrópubandalagið er að breytast mjög ört. Það er ekki föst stærð og það er ekki sambandsríki, heldur ákveðið þróunarferli. Ég held að við verðum að fylgjast mjög grannt með því, sem þar er að gerast, og velta því fyrir okkur á hverjum tíma hvort við eigum eitthvert erindi þangað. Það er fráleitt að það sé hægt að hafna því alveg, og ég held að stjórnmálamenn, sem það gera, fái það í bakið síðar meir."

Ingibjörg var spurð hvernig hún ætlaði að greiða atkvæði er EES-samningurinn kæmi til afgreiðslu á Alþingi. "Ég legg mjög ríka áherzlu á þjóðaratkvæðagreiðslumálið og ég ætla ekki að úttala mig um það hvernig ég greiði atkvæði um samninginn sjálfan fyrr en ég sé niðurstöðu um þjóðaratkvæðagreiðslutillöguna," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Hugsanlegt að varamaður

taki við

Kristín Ástgeirsdóttir, formaður þingflokks Kvennalistans, sagði í samtali við Morgunblaðið að yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar hefði komið kvennalistakonum mjög á óvart. Fjórar af fimm þingkonum flokksins teldu enn að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan EES en innan. "Á fundi okkar á laugardaginn lýsti mikill meirihluti því yfir að hann styddi margítrekaðar samþykktir Kvennalistans gegn Evrópska efnahagssvæðinu," sagði Kristín.

Aðspurð hvort þetta mál hefði áhrif á setu Ingibjargar Sólrúnar sem fulltrúa Kvennalistans í utanríkismálanefnd Alþingis sagði Kristín: "Við höfum ekki tekið afstöðu til þess ennþá, en það er augljóst mál að það gengur ekki upp að talsmaður okkar í utanríkismálanefnd túlki ekki viðhorf meirihlutans. Spurningin er hvort Ingibjörg Sólrún treystir sér til þess eða hvort við verðum að leysa málið á annan hátt. Það eru varamenn í utanríkismálanefnd og það er hugsanlegt að varamaðurinn taki við meðan á afgreiðslu EES-málsins stendur." Varamaður Kvennalistans í utanríkismálanefnd er Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Kristín sagði að eftir hálfan mánuð yrði haldinn landsfundur Kvennalistans og þar yrði rætt um þá afstöðu, sem Ingibjörg Sólrún hefði tekið. "Þá kemur í ljós hin endanlega niðurstaða," sagði Kristín. Hún sagðist telja að í máli Ingibjargar Sólrúnar hefði komið fram sú skoðun, að Íslendingar ættu að ganga í Evrópubandalagið. "Það er að mínum dómi eina leiðin til að skilja þessi sinnaskipti," sagði Kristín. Hún sagði jafnframt að ekki væri hægt að skilja rök Ingibjargar fyrir afstöðu sinni öðruvísi en í því samhengi.

Kristín var spurð hvort Ingibjörg Sólrún væri með afstöðu sinni að skapa sér pólitíska einangrun innan Kvennalistans. "Það er erfitt að segja hvaða afleiðingar þetta muni hafa fyrir hana og pólitíska stöðu hennar. Með þessu setur hún sig í nokkuð sérkennilega stöðu, því að þetta er í fyrsta skipti sem þingflokkur Kvennalistans klofnar í svona máli og hún er fyrst til að rjúfa samstöðuna," sagði Kristín.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir