Skáld og tónlistarmenn Ljósvíkingar lesa og spila LJÓSVÍKINGAR er heiti á hópi skálda og tónlistarmanna sem tekið hafa sig saman og standa fyrir upplestrar- og tónlistarkvöldum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi nú í desembermánuði.

Skáld og tónlistarmenn Ljósvíkingar lesa og spila

LJÓSVÍKINGAR er heiti á hópi skálda og tónlistarmanna sem tekið hafa sig saman og standa fyrir upplestrar- og tónlistarkvöldum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi nú í desembermánuði. Fyrsta uppákoman verður í kvöld 1. desember á Sólón Íslandus í Húsi málarans við Bankastræti og hefst kl. 20.30.

Þeir sem að hópnum standa eru rithöfundarnir Einar Kárason, Vigdís Grímsdóttir, Þórarinn Eldjárn, Kristín Ómarsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Steinunn Ásmundsdóttir, Sveinn Óskar Sigurðsson og Ari Gísli Bragason. Tónlistarmennirnir eru Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari, Snorri Sigfús Birgisson og Sigurður Örn Snorrason klarinettuleikarar, Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Páll Eyjólfsson gítarleikari. Á Selfossi og í Hveragerði munu þeir Kjartan Óskarsson og Óskar Ingvarsson bætast í hópinn og leika með.

Dagskráin í desember er síðan skipulögð á eftirfarandi hátt; Listahús Reykjavíkur þann 18. des., Selfosskirkja 19., Laufafell Hellu 19., Hveragerðiskirkja 20., Dómkirkjan í Reykjavík 21. Hressó 29., og Sólon Íslandus 30. desember. Dagskráin hefst á öllum stöðum kl. 20.30.

Hluti hópsins sem nefnir sig Ljósvíkinga og ætlar að lesa upp og flytja tónlist víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og á Suðurlandi í desember.