Skuggaleg veröld Jón Özur Snorrason Bjarni Bjarnason. Til minningar um dauðann. Skáldsaga, 200 bls. Augnahvíta, 1992. Þær kröfur sem bókaforlög setja ungum höfundum sem skilyrði fyrir útgáfu nýrra verka hljóta að vera af ýmsum toga.

Skuggaleg veröld Jón Özur Snorrason Bjarni Bjarnason. Til minningar um dauðann. Skáldsaga, 200 bls. Augnahvíta, 1992. Þær kröfur sem bókaforlög setja ungum höfundum sem skilyrði fyrir útgáfu nýrra verka hljóta að vera af ýmsum toga. Um leið og bókin þarf að seljast í ákveðnu upplagi þarf hún að innihalda eitthvað nýtt og ferskt. Sjálfsagt sjá forleggjendur fljótt ef um efnileg skáld er að ræða en líklega er þessu ávallt haldið innan ákveðins ramma. Þess vegna geta kröfur útgefenda aldrei orðið algildur mælikvarði á skáldskap, hversu vel sem menn eru þar læsir á hann. Forlög hætta rekstri sínum ekki svo mjög út á hálar brautir, heldur taka mið af kröfum markaðarins. Skáldsagan á hinn bóginn getur aldrei verið háð slíkum lögmálum. Hún spyrnir við fótum og reynir að endurnýja sig. Sjálfsútgáfur eru þess vegna nauðsynlegar því þær sýna að þörfin til að skrifa er alltaf fyrir hendi án sérstakrar markaðssetningar. Líklega er markaðurinn helsti óvinur listarinnar, hversu mótsagnakennt sem þetta kann að hljóma, því auðvitað þarf listamaðurinn að draga fram lífið eins og hver annar.

Til minningar um dauðann er fyrsta skáldsaga Bjarna Bjarnasonar, en áður hefur hann sent frá sér tvær ljóðabækur. Sögu sinni skiptir Bjarni niður í tíu bækur sem bera nöfn eins og Skáldkonan, Náttúruguðinn, Sonur skuggans eða Heimurinn, allt eftir því hvað er til umræðu hverju sinni. Sagan er kápulaus ef svo mætti að orði komast, enda er frásögnin ekki klædd í sérstakan búning sem á að vekja einhverja athygli á innihaldinu. Hún er greinilega skrifuð af mikilli þörf og oft af meira kappi en forsjá og stundum er sem frásögnin sé á mörkum þess að springa í tætlur. Kaflar sögunnar eru afmarkaðir og texti Bjarna er stundum dálítið stirður, sem veldur því að honum tekst ekki að mynda eðlilegt streymi milli einstakra þátta innan sögunnar. Þess verður því krafist að hann liðki stílinn ofurlítið, því oft er eins og frásögnin þjóni þeim eina tilgangi að lýsa hugsunum utanveltufígúra. Tilfinning fyrir atburðarás er ekki sterk. Þó er gælt við hugtak eins og atburðarás og til dæmis er nokkuð lagt upp úr hliðstæðum þess að ferðast eða flakka og hreyfingu hugans, enda er leitin sterkt minni í þessari frásögn.

Til minningar um dauðann lýsir upplifun hins þögula og óvirka Sonar skuggans og viðskiptum hans við annað fólk. Hann ferðast á milli staða og á milli persóna og frásögnin tekur mið af því. Ekkert er ómögulegt á slíku ferðalagi og flakkað er á milli ólíkra tilverusviða. Frelsi Skuggans er fólgið í hugsunum hans, enda er lögð sérstök áhersla á þær í þessari sögu og þær afmarkaðar frá öðrum texta í sögunni með hringtákni. Skilin á milli hugsunar og þess að segja eitthvað fela í sér mörkin milli lífs og lygi, milli þess að vera frjáls eða ekki frjáls. Öðrum þræði er saga Bjarna frekar mórölsk og boðandi og stingur það dálítið í stúf við frelsi hugans. Hann sér heiminn og jörðina langt að ofan sem agnarsmáan en fastan punkt í endalausum alheimi. Frá þessari jörð er engin útgönguleið nema hún liggi í gegnum manninn sjálfan. Hann skoðar verk mannskepnunnar í heimspekilegu, sögulegu og vísindalegu samhengi og veit að ábyrgðinni er oft varpað á guð en með því reynir maðurinn að greina sjálfan sig frá vandanum en í reynd er hann sjálfur orsök hans og afleiðing.

Endalausar hugleiðingar einkenna þessa frásögn. Hún þarf því ekkert frekar að kallast skáldsaga en eitthvað annað. Þetta gætu þess vegna verið skoðanir manns settar fram á þrjúhundruð blaðsíðum í bland við óljósa atburðarás. Það er vitundin sem hefur orðið í þessari sögu og það er frekar rökföst hugsun sem streymir þaðan. Eintal sálarinnar eða samtal milli tveggja setja sterkan svip á frásögnina og leitin að uppfyllingu tímans er í miðpunkti, enda er lífið stutt og lítið annað en skuggi af dauðanum. Allir hafa sinn djöful að draga og allt er háð sama lögmálinu frá hinu smæsta til hins stærsta. Hið raunverulega líf er á hinn bóginn fólgið í ímyndunum. Það býr í undirmeðvitundinni, en maðurinn hefur ýtt því til hliðar og tekið upp annarskonar líf. Leiðin til að uppgötva lífið liggur því í gegnum hugsunina, en hún teymir okkur í hring og við komumst alltaf að kjarna málsins sem felst í dauðanum. Grunnur tilverunnar er dauðinn og eyðingin og sköpunin eru því af sama toga. Nýtt líf felur stöðugt í sér nýjan dauða. Svona vöknum við á morgnana:

"Að vakna á morgnana er hinn taumlausi veruleiki, það er raunverulegra en dauðinn. Að liggja vakandi í myrkrinu eftir klukknaslögin er líkt og að vera kviksettur, hafa rankað við sér af draumadái kvikunnar til að spá í hvort grafarkuldinn stafi af manni sjálfum. Ekki sem verst."

Maðurinn er óskrifað blað í upphafi og hann lifir stutta en þéttskrifaða ævi. Skáldsagan tekur mið af þessu líkingamáli, því í eðli sínu er hún aðeins ákveðnir pappírar sem þarf að fylla út. Rithöfundurinn er þannig verkfæri sem vinnur í blekheimi. Hann er ekki hugsuður heldur vinnur úr efniviði hugsuða, enda er tími hugsjóna og byltinga löngu horfinn en tími skynseminnar runninn upp. Fólk bíður réttra orða en býr þau ekki til, enda leitar það skilnings og lífsfyllingar til stjórnmála og trúar af einhverri gerð en ekki til sjálfs sín. Staða rithöfundarins er svona:

"Að skrifa á þessu landi er eins og að vera nauðgað af hundum. Auk þess er ég bara ein blaðsíða sem aðrir skrifa í andleysi sínu. Að skrifa á Íslandi í dag er að skrifa í mesta efnishyggjusamfélagi samtímans og sögunnar, fyrirfram dæmt til að mistakast. Hér er allt stæling, og það sem er eftirlíking er innantóm ýkt mynd af því sem var eftilvill ekki einusinni merkilegt í byrjun. Að ætla að hefja upp raust andans við þessar aðstæður er heimskulegt, röddin yrði að gagnrýna, segja sannleikann, en nútíma manneskja skilur hann ekki, heyrir aðeins þungan neikvæðan hljóm."

Bjarni Bjarnason er utanveltuskáld eins og persónur hans. Líklega heldur hann áfram að gefa út bækur sínar sjálfur, því annað væri í hreinni mótsögn við það sem hann er að segja. Hér er margt mjög vel gert og bókin er stútfull af skemmtilegum pælingum. Heimshryggðin er ríkjandi í bland við húmor. Frelsi sögupersóna hans felst í því að gefa hugsunum sínum endalaust svigrúm. Í því hlýtur frelsi rithöfundarins einnig að vera fólgið.

Bjarni Bjarnason